Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Glæpasagnadrottningin Yrsa var hrifin af hryllingi sem barn: „Ég er alveg til í að fá Covid“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Yrsa Sigurðardóttir, metsölurithöfundur og spennusagnadrottning, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpinu Mannlífið með Reyni Traustasyni. Fyrir jólin gaf Yrsa út spennusöguna Lok, lok og læs, og venju samkvæmt trónir hún á toppi metsölulista jólabókaflóðsins.

 

Gott að breikka sjóndeildarhringinn snemma

Yrsa er fædd í Reykjavík og bjó þar fyrst um sinn áður en fjölskylda hennar fluttist til Hafnarfjarðar. Seinna fluttu þau svo til Texas í Bandaríkjunum. Eftir Texas lá leiðin til baka í Hafnarfjörð og enn síðar fluttist Yrsa svo á Seltjarnarnesið.

Yrsa segir það hafa gefið sér mikið að búa erlendis og upplifa ólíka menningarheima.

„Þegar ég er í Texas – það er sjötíuogeitthvað – þá er Ísland svakalega einsleitt. Ekki það að maður hafi verið að spá í það sem barn. En þegar maður er kominn þangað og býr erlendis – ég og systir mín vorum til dæmis í barnaskóla þar sem við vorum eiginlega einu hvítu nemendurnir. Þetta gerir manni gott, að breikka sjóndeildarhringinn snemma. Það gerði manni líka mjög gott að vera alltaf að skipta um skóla, því þá lærir maður félagsfærni. Að vera alltaf nýi nemandinn.“

Yrsa segir það ekki hafa verið sérstaklega erfitt fyrir sig að skipta svona oft um skóla og umhverfi. Hún segist hafa verið heppin og alltaf hafa lent á góðum krökkum.

- Auglýsing -

„Börn eru náttúrulega bara almennt og upp til hópa góð og taka nýjum nemendum vel. Kannski er það öðruvísi í dag, þar sem fólk flytur meira, en ég man ekki eftir að það hafi verið neitt vandamál.“

Hún segist alltaf hafa saknað Íslands þegar hún var í burtu. „Maður saknaði Íslands þegar maður var í Texas og saknaði Texas þegar maður var á Íslandi.“

Yrsa var tólf ára gömul þegar hún flutti aftur heim frá Texas. Foreldrar hennar höfðu verið þar í sérnámi; móðir hennar í doktorsnámi í stærðfræði og faðir hennar í sérnámi í læknisfræði í smitsjúkdómum.

- Auglýsing -

Mikill lestrarhestur

Yrsa segist hafa verið glöð sem krakki; alltaf í góðu skapi og ófeimin. „Mikill lestrarhestur. Ég ætlaði mér að verða stjörnufræðingur, mér fannst það svo frábært eitthvað.“

Aðspurð hvað það hafi verið sem hún las segir hún það hafa verið ýmislegt. „Ég las bara allar barnabækur sem barn og kannski svona um ellefu eða tólf ára aldur þá fór maður að lesa kannski Agatha Christie, ég las allt Dickens.. ég náttúrulega las svo mikið á ensku þarna. Jane Austen. En svo þegar ég eldist fer ég meira yfir í að lesa svona glæpasögur, hrylling og svoleiðis.“

„Ég var reyndar alltaf mjög hrifin af hryllingi sem barn.“

Yrsa Sigurðardóttir

Verkfræðin hjálpar að halda utan um söguþræði

Yrsa segir að sem barn hafi hana aldrei dreymt um það að verða rithöfundur. Hún hafi verið mjög sátt við að vera lesandi.

„Svo fer ég út í verkfræði. Ég sé ekki eftir því. Það er mjög skemmtilegt starf og ég hvet þá sem eru svona að velta því fyrir sér hvað þeir eigi að gera, að velta verkfræðinni vel fyrir sér. Verkfræði er svo skemmtileg að því leyti að þú ert mjög oft að vinna í verkefnum og verkefni eru þess eðlis að þú færð síður leið á starfinu, því það er alltaf eitthvað nýtt. Eitthvað sem á sér svona upphaf og endi, svona hápunkt.“

Yrsa lærði sjálf byggingarverkfræði. „Þegar ég var að læra verkfræði var á Íslandi hægt að velja um véla-, bygginga- og rafmagnsverkfræði, en í dag er þetta orðið miklu fjölbreyttara og hægt að velja fleira.“

Verkfræði gegn ritstíflu

Yrsa fæst enn við verkfræði að einhverju leyti, þó það sé ekki mikið.

„Að skrifa bók, maður gerir það ekki dag eftir dag, eins og svona átta tíma vinnu. Þannig að það skilur eftir heilmikinn tíma þar sem hægt er að vinna. Bæði finnst mér mjög gaman í vinnunni og svo er þetta líka þannig að þetta léttir af manni smá pressu, þannig að ég fæ aldrei svona ritstíflu, af því að ef ég get ekki skrifað þá fer ég bara aftur að vinna átta tíma á dag sem verkfræðingur og heimurinn hrynur ekkert.“

Þrátt fyrir þetta þarf Yrsa ekki að vinna sem verkfræðingur lengur, út frá fjárhagslegu sjónarhorni. Hún lifir vel á skrifum sínum. „Ég er heppin með það.“

Yrsa segir að á vissan hátt hjálpi verkfræðin henni í skrifunum. „Ég á til dæmis mjög auðvelt með að halda utan um söguþráð og plott í höfðinu.“

„Eitt morð er ekkert á við að reisa heila virkjun.“

Hún segir það ekki svo óalgengt meðal glæpasagnahöfunda að halda áfram að vinna aðra vinnu meðfram skrifunum, þó það gangi vel. Það sé síðan ekki heldur hægt að lifa á þessu öðruvísi en að koma bókum sínum út fyrir landsteinana, vegna smæðar markaðarins hér.

„Ekki nema að fá ritlaun. Og því miður þá er tilhneigingin sú að ungir glæpasagnahöfundar sem þurfa á því að halda virðast ekki hljóta náð fyrir augum þeirra sem velja hverjir eiga að fá ritlaun, sem er mjög sorglegt.“

Sjálf hefur Yrsa aldrei verið á ritlaunum.

„Ég hef alltaf verið í fullri vinnu með. Það myndi ekki hvarfla að mér að sækja um þau, vegna þess að ég þarf ekki á þeim að halda og ég vil ekki taka þau frá einhverjum öðrum. Ef ég er að gefa mér að ég fengi þau, sem er ekkert víst.“

Reynir Traustason í viðtali sínu við Yrsu

Bjó óvart til persónu sem var til í alvörunni

Yrsa segist alls óhrædd við að lenda í þeim aðstæðum sem hún hefur skapað persónum sínum. Hún sé ósköp róleg og ekki sérlega hrædd týpa. Hinsvegar óttist hún að lenda í því að skapa persónur og nöfn, og setja í bók, sem óvart passi við einhvern í raunveruleikanum. Raunar hafi það tvisvar komið fyrir. Seinast í nýju bókinni hennar, Lok, lom og læs.

„Það kom póstur til útgefandans míns frá fólki sem býr á bæ sem heitir Hvarf. Bókin gerist á Hvarfi og dóttir hjónanna á þessu raunverulega Hvarfi heitir Sóldís og það er Sóldís í bókinni. Þetta er náttúrulega bara tilviljun og var voða vinalegt frá þeim, þau voru ekkert reið. En manni finnst leiðinlegt þegar svona kemur fyrir. Svo er svo takmarkaður pottur af nöfnum á Íslandi, þegar maður er búinn að skrifa sautján bækur og sex barnabækur – ég skrifaði eina í fyrra líka. Þá ertu svona búinn að rúlla í gegnum algengustu nöfnin.“

 

Vill ráðleggingar áður en hún skrifar svarta aðalpersónu

Yrsa er byrjuð að móta næstu bók, en hún mun verða nokkurs konar framhald af þeirri síðustu.

„Þetta verða fjórar bækur – þetta er svona ný sería. En ólíkt fyrri seríum þá ætla ég alltaf að láta vera nýjan og nýjan aðalkarakter úr lögregluliði. Þannig að ég veit að næsta bók verður um persónu sem kemur fyrir í fyrstu bókinni, en hún verður aðal í næstu bók. Það er réttarlæknir sem heitir Iðunn. Þannig að ég veit það og ég veit svona sirka í hvaða aðstæður ég ætla að setja hana.

Svo er ég í örlitlum vandræðum með þriðju bókina, vegna þess að þriðja persónan í Lok, lok og læs sem á mögulega að fá þriðju bókina er svört lögreglukona. Og ég veit ekki hvort ég mun hafa hana sem karakter í þriðju bókinni vegna þess að það er bara ansi flókið mál, af því að ef það er einhver kominn, einhver svartur Íslendingur sem er að skrifa, þá verð ég ekki með það. Vegna þess að ég get ekki lýst með sama hætti þeim reynsluheimi eins og einhver sem hefur upplifað hann. Ég vil ekki gera það ef það er á einhvern hátt óviðeigandi eða gerir þessum litla hópi erfiðara fyrir.

Þannig að ég ætla að leita uppi þrjár konur, þær heita held ég Andrasistar á Instagram, og ætla að ræða aðeins við þær og bara spyrja þær um álit. Er þetta eitthvað sem ég ætti að gera, eða er þetta bara eitthvað sem ég ætti algjörlega að sleppa, af því að eins og ég segi vil ég ekki vera að gera slæmt ástand verra. Hugmyndin var ekki sú, heldur er hún sú að vera meira – ég veit ekki hvað íslenska orðið er, en eins og sagt er á ensku: inclusive. Ég er orðin 58 ára og þá verður maður að passa sig á því að vera ekki fastur í sínum aðstæðum.

Maður þarf bara virkilega að passa upp á það að maður taki inn í sínar bækur fjölbreyttara fólk heldur en maður er sjálfur í rauninni.

Ég áttaði mig á því þegar ég var búin að skrifa held ég níu glæpasögur, að það var ein samkynhneigð manneskja í níu bókum. Þetta var bara ótrúlega asnalegt af mér og þá bara fór ég í að laga það. Maður þarf bara að vera dálítið meðvitaður um að manni hættir til að vera svona inni í sinni eigin búbblu, einhvern veginn.

En svo eru bara ákveðnir hlutir sem eru viðkvæmir og maður vill ekki gera rangt. Maður vill reyna að gera hlutina betri en ekki verri. Þannig að maður þarf allavega að vera mjög duglegur að leita sér upplýsinga og passa sig mjög vel að vera ekki að gera eitthvað í einhvers konar vanþekkingu, eitthvað sem er asnalegt.“

Trúir ekki á drauga

Þrátt fyrir að hafa skrifað töluvert um drauga á hrollvekjandi og sannfærandi hátt, trúir Yrsa ekki sjálf á drauga.

„Nei, ég geri það reyndar ekki. Mér finnst þetta alveg frábært konsept og ég er til í að gefa því séns, en ég er náttúrulega svo mikil raungreinamanneskja að ég á svolítið erfitt með að taka það alla leið. Að trúa því. En í raun og veru þá væri það frábært. Ég vona að það séu til draugar og ég hef sagt að ef það eru til einhverjir draugar, þá er ég svoleiðis aldeilis til í einn draug heim til mín. Það hefur aldrei neinn viljað koma. Mig langar ekki til að lifa að eilífu, en ég væri alveg til í að koma aftur og sjá hvernig heimurinn hefur þróast. Svona draugur sem poppar upp á svona hundrað ára fresti.“

 

Ekki góð framtíðarsýn að lifa til 150 ára

Aðspurð hvað það sé sem hún haldi um dauðann, segist Yrsa halda að það sé bara hluti af því að vera til.

„Ég hlakka ekkert til, maður er glaður að fá að vera á lífi. En ég held að það sé bara ágætt; að þetta sé bara búið. Ég ber fulla virðingu fyrir fólki sem trúir á líf eftir dauðann. Vonandi hafa þau rétt fyrir sér en ekki ég. En ég hugsa bara reyndar ekkert mikið um það. Nema bara að því leytinu til að mér finnst að maður þurfi að fá það út úr þessu eina lífi sem maður hefur, reyna að gera það besta úr þeim aðstæðum sem maður hefur og reynast fólki vel. Það er svona kannski meira mín lífspeki; að lifa lífinu lifandi.

Ég veit líka að fólk er eitthvað að tala um að í framtíðinni getum við lifað til 150 ára. Það er bara ekkert góð framtíðarsýn. Vegna þess að það þýðir að það kostar þá næstu kynslóðir – og ég er alveg til í að ég bara fái að fara þegar minn tími kemur, til þess að viðhalda því að börn geti fæðst.“

„Ef við ætlum öll að lifa forever, þá eru engin börn að fara að fæðast. Við myndum sjá til þess.“

Í Kringluna að sleikja handrið og lyftutakka

Að lokum best talið aðeins að Covid. Sjálf er Yrsa ekki búin að fá sjúkdóminn og er þríbólusett.

„En ég er alveg til í að fá Covid. Bara klára þetta. Ég er jafnvel að hugsa um að fá mér Covid, en ekki yfir hátíðarnar. En í janúar veit ég ekki nema ég bara mæti niður í Kringlu og sleiki handrið og lyftutakka. Ljúka þessu bara af.

Á meðan maður er vel bólusettur… þetta er náttúrulega fáránlegt og ég er ekki að biðja fólk um að gera þetta og ég fer ekki og geri þetta. En eins og þetta lítur út núna, þá bara á maður örugglega eftir að fá Covid. En samt, ég hef ekki fengið flensu í 20 ár. Þannig að kannski get ég bara ekki fengið Covid.“

Yrsa stefnir á útgáfu tveggja bóka á næsta ári. „Ég er hálfnuð með barnabók sem ég ætla að klára, núna bara í janúar held ég. Svo verður bókin um Iðunni réttarlækni og vonandi eitthvað skemmtilegt mál sem hún þarf að fást við.“

Aðspurð hvort þetta verði svona næstu tíu eða tuttugu ár glottir Yrsa.

„Ég hugsa að ég skrifi nú ekki alveg ofan í kistuna, en það er ekki enn kominn sá tímapunktur að ég finni að nú sé þetta bara orðið fínt. En það kemur að því. Það kemur að því.“

Viðtalið við Yrsu á VefTv er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -