„So fuck Ungverjaland and fuck you very much Króatía,“ segir Glúmur Baldvinsson í lok ferðsögu sem hann birtir á Facebook. Líkt og þessi lokaorð gefa til kynna þá er Glúmur ekki alls kostar sáttur með gestrisni Suðaustur-Evrópubúa. Hann hugðist keyra frá Króatíu til Búdapest í Ungverjalandi en varð áttavilltur þökk sé hinu bölvaða forriti Google Maps.
„Í dag freistaði ég þess að heimsækja Búdapest í fyrsta sinn. Vaknaði við fyrsta hanagal og sólargeisla í Samobor, Króatíu, hvaðan ég hóf ferðina. Skemmst er frá því að segja að ferðin var disaster frá upphafi til enda. Til að átta mig á samhengi veganna leitaði ég aðstoðar Google maps sem var í fyrstu ekki alveg með á nótunum og sendi mig í öfuga átt til Slóveníu. Landamæraverðir þar bentu mér á að snúa við og halda í gagnstæða átt. Og ég dúndraði frjáls eins og fuglinn í átt að Ungverjalandi á 150 km. En hafði þó Google maps til taks því Búdapest kom ekki upp á skiltum. Það hefði ég betur látið ógert því þetta foráttu heimska apparat vísaði mér af hraðbrautinni og um beljuland Króatíu þar sem traktorar geitur og fjárhirðar héldu mér höktandi á 30 km svo að á fjórum tímum var eins og ég keyrði afturábak og fjarlægðist Ungverja fremur en að nálgast. Ég hef aldrei fyrr rifist jafn mikið og lengi við síma um dagana,“ lýsir Glúmur.
Svo fór að hann loksins kom að landamærum. „En loksins kom ég að landamærastöð og eygði þarmeð von um að komast aftur á beinu brautina en það var nú aldeilis ekki. Stórgerð Babúska rjóð í kinnum æpti á mig valdsmannslega passaporte und pappieren. Ég rétti henni passa minn íslenskan í þeirri fullvissu að hún kannaðist við landið sem fyrst viðurkenndi sjálfstæði Króatíu. En ó nei hún og lögreglumaður ungverskur sem kallaður var til í að díla við glæpamanninn mig æpti aftur. Pappieren. Ég svaraði can you fucking speak English. Þá kom á daginn að þessi yndisgerpi vildu skráningarskírteini bílsins sem ég leigði í Ítalíu,“ segir Glúmur.
Hann reyndi að útskýra fyrir þeim seinni tíma sögu Evrópu. „Þau rótuðu í pappírunum og sögðu svo þvert Nei. Og ég reyndi að útskýra fyrir þeim að kalda stríðinu væri lokið og allt um eðli EES og frjálsa för innan þess svæðis. Jú jú ok með það en þau heimtuðu frumrit skráningarskírteinisins. Sögðu mig bara hafa afrit. Mig langaði að ganga frá þeim á staðnum og spurja idjótin hvort þau vissu ekki hver ég væri en nennti ekki að dúsa í ungversk króatísku fangelsi næstu misserin. Svo ég varð frá að hverfa og elta traktora og geitur og beljur sömu vegina tilbaka næstu fimm tímana. So fuck Ungverjaland and fuck you very much Króatía.“