„Kæru vinir, tíminn líður hratt og því þarf að hefja undirbúning fyrir orrustuna um Reykjavíkurborg hið fyrsta.“
Svo hefst tilkynning Glúms Baldvinssonar um komandi þátttöku hans í kosningabaráttunni í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.
Glúmur segir að stofnun nýs flokks sé í bígerð. Þar með virðist Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn ekki vera á leið í borgarstjórnarslaginn, að minnsta kosti ekki með Glúm innanborðs.
„Í bígerð er að stofna flokk sem mun kallast Flokkurinn (enn þá bara vinnunafn, hann má kallast allt annað enda ákveðið af flokksmönnum). Stefnan verður að berjast gegn réttrúnaði, skorti á húsnæði fyrir lítt efnað fólk og ungt fólk, sóun á almannafé borgarbúa og síðast en ekki síst að hefja viðspyrnu gegn hugmyndum um að útrýma einkabílnum.“
Glúmur kallar eftir áhugasömum einstaklingum til að ganga til liðs við nýja flokkinn. Hann segist ekki ætla sér að vera einræðisherra við stofnun flokksins, heldur sé ætlunin að safna liði og kjósa fólk og forystumenn með lýðræðislegum hætti.
Glúmur útlistar hvað það er sem þarf til að tryggja sigur í borgarstjórnarkosningunum:
„Því að til að sigra kosningar þarf 1. Góða stefnu, 2. Her fólks sem er tilbúið að berjast fyrir málstaðnum, 3. Peninga sem þarf að safna, 4. Aga og skipulagningu og 5. Bestu kandídatana.“
Að lokum segist Glúmur vilja heyra í þeim sem hafa áhuga á að taka þátt.
„Hlakka til að heyra í ykkur sem vilja taka þátt. Hægt er að ná í mig hér á þessari síðu og í síma 866 1944. Gerum þetta saman. Og að lokum þá gerum við þetta með bros á vör og verum það sem öllu skiptir með húmorinn í lagi. Höfum gaman.“
Í athugasemd undir tilkynningu sinni bætir Glúmur svo við:
„Ég óska sérstaklega eftir að fá til liðs við flokkinn þá karlmenn sem hafa verið kúgaðir af femínisma.“