Það styttist í að vefverslunin Gott og blessað verði opnuð. Þar verður hægt að kaupa íslenskar matvörur frá smáframleiðendum. Bændablaðið birti viðtal við konurnar að baki versluninni sem ber þetta skemmtilega nafn; Gott og blessað.
Það eru þær Anna Júlíusdóttir, Jóhanna Björnsdóttir og Sveinbjörg Jónsdóttir sem hafa á undanförnum mánuðum unnið að opnun vefverslunarinnar gottogblessad.is. Verslunin mun bjóða upp á gæðavörur frá smáframleiðendum um allt land.
Munu meðal annars verða seldar vörur frá hjónunum að Hálsi í Kjós, holdanautakjöt frá Sogni í Kjós, taðreykta bleikju frá Halldóri silungabónda að Garði og hnossgæti frá Huldu að Stóra Dunhaga í Hörgárdal. Þetta eru nokkur dæmi um það sem viðskiptavinir eiga í vændum og verður spennandi að fylgjast með hvernig þessu vindur fram.
Á Facebooksíðu verslunarinnar má sjá vönduð kynningarmyndbönd eftir Pétur Fjeldsted og hér að ofan er hlekkur á viðtal Bændablaðsins við þær stöllur í heild.