Líkt og Mannlíf greindi fyrst frá hefur hæstaréttarlögmaður verið sakaður um stórfellda líkamsárás sem átti sér stað í byrjun mánaðarins. Lögmaðurinn er í eigendahópi einnar stærstu lögmannsstofu landsins og hefur einnig setið í ábyrgðarstöðu fyrir Lögmannafélag Íslands.
Meinta árás má rekja til persónulegs ágreinings sem snýr að náinni vináttu lögmannsins og konu sem einnig er í eigendahópi lögmannsstofunnar. Meintur þolandi er eiginmaður konunnar. Þá herma heimildir Mannlífs að lögmaðurinn eigi yfir höfði sér kæru vegna málsins. Mannlíf hefur ítrekað leitað svara hjá lögmanninum síðustu daga án árangurs. Þá hefur blaðamaður einnig haft samband við þriðja aðila málsins, konuna, sem hefur enn ekki svarað spurningum. Þar að auki hefur meðeigandi og framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar ekki heldur tjáð sig um málið.
Þolandi í árásarmálinu hefur áverkavottorð vegna málsins og hyggst leggja fram formlega kæru á næstunni. Mikið er í húfi fyrir lögmanninn sem missir réttindi sín ef hann verður dæmdur sekur.