Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að jökulhlaup sé hafið úr Grímsvötnum. Hann reiknar með að stutt sé í eldgos og vill þá ekki vera nákvæmari en svo.
„Það er lítið hlaup í gangi. Það þýðir að þrýstingur er að minnka á Grímsvötnum. Það eru meiri líkur á að það gjósi á meðan hlaup er í gangi eða í lok hlaups,“ sagði Magnús Tumi við mbl.is um málið en skjálfti sem mældist 4,3 reið yfir í morgun og er það stærsti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Magnús telur að lítill fyrirvari geti verið á eldgosinu, sem yrði líklega sprengigos, en aðeins klukkustundar fyrirvari hafi verið á eldgosinu í Grímsvötnum árið 2011 en Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins.
„Við þurfum að hafa vakandi auga yfir því, þar sem Grímsvötn eru að síga. Þess vegna eru auknar líkur að það verði gos á næstu dögum.“