Grímur nokkur segir farir sínar ekki sléttar eftir að Laugavegurinn, þar sem hann býr, varð göngugata. Því hafi fylgt stórundarleg skriffinnska sem gerir honum lífið leitt. Hann segist ekki geta farið í Sorpu löglega og þarf að sækja um afnota af borgarlandi þegar hann fær ný heimilistæki.
Maðurinn segir frá þessari þrautagöngu í Facebook-hópi íbúa miðbæjarins. Hann tekur sérstaklega fram að hann er ekki andstæðingur þess að Laugvegurinn verði göngugata. „Ég er íbúi að Laugavegi 27. Sem er innan göngu götunnar. Ég er búinn að vera að gera upp íbúðina mína upp á síðkastið og hef lent í vandræðum með opnunartíma götunnar hvað nokkra hluti varðar. Gatan er opin fyrir bílaumferð frá 7-11 á virkum dögum en Sorpa opnar ekki fyrr en kl 12. Ég get því ekki löglega mætt á bíl heim til mín og farið beint þaðan á Sorpu,“ lýsir Grímur.
Allt þungt sé erfitt að flytja. „Það sama á við um þegar ég kaupi þunga hluti eins og heimilistæki eða rúm. Flestar verslanir sem selja slíkt eru ekki opnar milli 7-11 á morgnanna. Í dag keypti ég t.d. uppþvottavél í Elko sem opnar kl 11. Til þess að koma henni löglega heim til mín verð ég að ná í hana og geyma hana annarsstaðar og fara svo með hana í fyrramálið heim,“ segir Grímur.
Hann hafi leitað til borgarinnar og ekki fengið spennandi svör. „Þegar ég leitaði til borgarinnar til úrlausnar er mér sagt að ég verði að sækja um afnot af borgarlandi ætli ég að koma á bíl fyrir utan og fyrir það þarf ég að borga fullu verði. Er það bara ég eða finnst öðrum það vera verulega ósanngjarnt að íbúar við göngugötur geti ekki nýtt sér ýmsa þjónustu borgarinnar eins og Sorpu nema þurfa að borga eitthvað afnotagjald af götunni.
Hvað finnst ykkur kæru nágrannar?,“ spyr Grímur og ítrekar að lokum:
„PS. Ég hef ekkert á móti göngugötum en mér finnst glatað að komast ekki á sorpu eða geta ekki keypt mér ísskáp“