Grímur Atlason tekur upp hanskann fyrir transfólk og skýtur fast á Eld Smára Kristinsson í leiðinni.
Framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Grímur Atlason, blandar sér í umræðuna sem skapaðist eftir að Snorri Másson skrifaði grein þar sem hann ver tjáningarfrelsi Elds Smára Kristinssonar, formanns Samtakanna 22, sem Samtökin 78 hafa kært fyrir hatursorðræðu. Jóhannes Þór Skúlason, stjórnarmaður Samtakanna 78, skrifaði síðan grein þar sem hann svarar Snorra. Þá rökræddu þau Brynjar Níelsson og Helga Vala Helgadóttir, eiginkona Gríms, um málið í útvarpinu í gær. Sem sagt, mikið hefur verið skrifað og sagt um málið og sitt sýnist hverjum. Grímur Atlason skrifaði svo færslu á Facebook þar sem hann kemur með söguskýringu og tekur dæmi úr mannkynssögunni um ranghugmyndir sem höfðu áhrif á líf fólks á öldum áður.
„Það hefur löngum verið þannig í mannkynssögunni að fólk hefur þurft að þola það að annað fólk telji það heilagan rétt sinn að vita hvað það er að upplifa og hvað sé því fyrir bestu. Þannig hélt Andreas Vesalius, faðir nútíma líffærafræði mannsins, því fram um miðja 16. öldina að aðeins intersex konur hefðu sníp og almennt gætu konur ekki fengið fullnægingu. Skilgreining feðraveldisins þess tíma var líka að limur eða gervilimur væri forsenda kynlífs. Því var líka haldið fram að ef kynlífið átti að geta af sér dreng þá yrði karlinn að vera ofan á annars væri hætta á að barnið yrði stúlka.
Aristóteles taldi að hluti manna skorti þann hluta sálarinnar sem lyti að hæfileikanum til að taka rökréttar ákvarðanir og þess vegna væru þeir þrælar. Konur hefðu hæfileikann en skorti vald til að nota hann. Þær væru því ásamt þrælunum varanlega ófullkomnar. Þessi skoðun var megin skoðun langt inn á 20. öldina.“
Að lokum snýr Grímur sér að nútímanum og segir birtingamyndina sem nú megi sjá, spretti úr sama ranni en það sé fáfræði og hræðsla.
„Í dag er birtingarmyndin kannski önnur en sprettur úr sama ranni: fáfræði og hræðslu. Sumt fólk telur það heyra til mannréttinda sinna að fá að básúna það yfir alþjóð að hinn og þessi sé í rauninni ekki til. Hann geti ekki verið til vegna þess að kyn hans og eða kynhneigð samræmist ekki heimsmynd viðkomandi.“
Með færslunni birtir Grímur mynd af Eldi Smára og ógeðfelda færslu sem hann skrifaði árið 2022. Myndina má sjá hér:
Hér má lesa nokkur af þeim ummælum sem Eldur er kærður fyrir:
29. ágúst 2023: „Ég meina, þessi drusla! Að nota smábörn til að fullnægja augljósum afbrigðilegum kynlífsblætum í mönnum sem kallast b-a-r-n-a-g-i-r-n-d!“
2. apríl 2024: „Þessi „löngun“ er kynferðislegt blæti sem kallast „autogynephilia“ á ensku, en ég hef sjálfur íslenskað hugtakið í „kvensjálfsímyndunarblæti“. Þegar karlmenn eru farnir að nota UNGABÖRN til þess að sinna kynferðislegum pervertskap sínum, þá erum við kominn í algjöra botnleðju. Hversu djúp er hún og hversu meðvirkt er samfélagið til í að vera!?“
9. apríl 2024: „Af hverju eru Samtökin ’78 að grooma 10 ára krakka í 5.bekk? Hversu lengi ætlar fólk að vera meðvirkt?“