Miðvikudagur 11. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

Grínbandið sem gerbreytti glassúrnum í gimsteina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag eigum við Íslendingar þrjár heimsfrægar hljómsveitir – Of Monsters and Men, Kaleo og Sigur Rós.

Eru á fullu gasi.

(Ef ég er að gleyma einhverri hljómsveit þá biðst ég fyrirfram afsökunar á því).

Hvað varðar sóló artista þá er það Björk sem gnæfir yfir öllum og hefur lengi gert. Þá er Leufey Lín alltaf að verða stærra og stærra nafn úti í hinum stóra heimi.

En Björk kom hins vegar úr hljómsveitinni sem gerbreytti íslensku tónlistarlandslagi – Sykurmolunum.

- Auglýsing -

Áður en upprifjun á ferli Sykurmolanna hefst, þá er vert að geta þess að margar íslenskar hljómsveitir reyndu að „meika“ það í útlöndum, og þá helst í höfuðborg rokksins og poppsins, London.

Allar þessar hljómsveitir sem reyndu að koma sér á framfæri erlendis voru þrælgóðar, enda höfum við Íslendingar átt alveg ótrúlega góða hljóðfæraleikara í gegnum tíðina sem of langt mál væri að telja upp.

Hins vegar var það þessu hljómsveitum að „falli“ að þær reyndu að aðlaga sig að vinsælum hljómsveitum á Bretlandseyjum og voru í raun, sumar hverjar að minnsta kosti, ekkert síðri en þær bresku. Málið var hins vegar það að Bretarnir höfðu lítinn sem engan áhuga á útlendum hljómsveitum sem hljómuðu eins og þeirra eigin hljómsveitir.

- Auglýsing -

En þessi „sannleikur“ kom hins vegar ekki í ljós fyrr en árið 1987.

Þá kom fram á sviðið hljómsveit sem kallaði sig Sykurmolarnir.

Allir meðlimir hljómsveitarinnar komu úr annaðhvort pönksenunni eða svokallaðri nýbylgju með skírskotanir í rokk.

Sykurmolarnir voru stofnaðir sem hálfgert, eða algert, grínband, eða einhverskonar hliðarsjálf hljómsveitarinnar Kukl. Tónlist Kukl var frekar dimm, alvarleg og djúp, og textar eitthvað til að pæla í.

Kuklið vakti athygli fyrir sérstakan hljóðheim – stundum þungur og myrkur – og lagasmíðar einkenndust af pönklegri tilraunamennsku og framúrstefnulegum söngstíl Bjarkar Guðmundsdóttur og Einars Arnar Benediktssonar.

Kuklið reyndi við „meikið“ og gekk bara merkilega vel; gaf út plötur hjá bresku útgáfunni Crass og spilaði töluvert mikið í Evrópu og kom meðal annars fram á Hróarskelduhátíðinni árið 1985.

Meðlimir Kukl voru blanda sem kom úr hljómsveitunum Tappi Tíkarrass, Purrkur Pillnikk og Þeyr. En áhugi Íslendinga á hljómsveitinni var við frostmark – þrátt fyrir að Kuklið hefði öðlast nokkrar vinsældir hér og þar í Evrópu og fóru víða um álfuna og héldu tónleika, eins og áður hefur komið fram.

Árið 1986 stofnuðu meðlimir Kuklsins hljómsveitina Sykurmolana og litu á bandið sem aukaverkefni og/eða hliðarsjálf Kuklsins, með mun léttari áherslum.

Tónlist Sykurmolanna var þó aldrei neitt lyftupopp; samt mun meira grípandi en Kuklið og pönksveitirnar sem hljómsveitirnar voru stofnaðar úr.

Ef áhugi Íslendinga á hljómsveitinni Kukl var við frostmark þá var áhuginn á Sykurmolunum langt fyrir neðan frostmark; áhuginn hér á landi var nánast enginn, og einungis örfáir „fastakúnnar“ hljómsveitanna Kukl og Sykurmolanna mættu á tónleika hérlendis.

Það átti eftir að breytast árið 1987 þegar tónlistarblöðin Melody Maker og NME (New Musical Express) völdu bæði lagið Birthday sem smáskífu vikunnar; þá fóru hjólin að snúast og við Íslendingar eignuðust loksins heimsfræga hljómsveit.

Sykurmolarnir gáfu út þrjár plötur, sem allar nutu mikilla vinsælda víða um heim; Life´s To Good kom út árið 1988, Here Today, Tomorrow Next Week! kom út ári síðar og svanasöngurinn Stick Around for Joy leit dagsins ljós árið 1992. Á þeirri plötu varð lagið Hit mjög vinsælt víða um heim.

Sykurmolarnir fóru í tónleikaferð með U2, en hættu skömmu eftir tónleikaferðalagið.

En um leið og toppnum var náð hjá Sykurmolunum hætti hljómsveitin störfum og Björk varð ári seinna ein vinsælasta og virtasta tónlistarkona heims; og sér ekki fyrir endann á þeim ferli.

Þegar ég segi að toppnum hafi verið náð árið 1992 með laginu Hit, sem var vinsælasta lag Sykurmolanna og komst í 17. sæti breska vinsældarlistans, meina ég líka að hljómsveitinni var boðið að hita upp á risastóru tónleikaferðalagi hjá vinsælustu og stærstu hljómsveit heims á þessum tíma, U2.

Þáðu Sykurmolarnir boðið, en eftir að tónleikaferðalaginu með U2 lauk, þá lauk einnig sögu Sykurmolanna, sem telst án alls vafa áhrifamesta íslenska hljómsveit allra tíma; hljómsveit sem ruddi brautina fyrir margar aðrar íslenskar hljómsveitir sem hafa notið velgengni Sykurmolanna ríkulega.

Mannabreytingar voru ekki miklar hjá Sykurmolunum og hér má sjá meðlimi hljómsveitarinnar frá árunum 1986 til 1992.

Björk Guðmundsdóttir – Söngur

Einar Örn Benediktsson – Söngur og trompet

Þór Eldon – Gítar

Bragi Ólafsson – Bassi

Sigtryggur Baldursson – Trommur

Einar Melax (1986-1988) – Hljómborð

Margrét Örnólfsdóttir (1988-1992) – Hljómborð og bakraddir

Friðrik Erlingsson – Gítar (1987-1988)

Ps: Eftir að Sykurmolarnir hættu árið 1992 hafa þeir einu sinni komið saman opinberlega og haldið tónleika. Það var árið 2006, í Laugardalshöll, í tilefni af því að 20 ár voru þá liðin frá því að hljómsveitin var stofnuð.

Þeir tónleikar voru stórkostlegir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -