Sjómaðurinn frá Grindavík, sem nú er leitað að eftir að hann féll útbyrðist af fiskiskipi í Faxaflóanum á laugardaginn, er þaulvanur á sjó. Þetta segir Ragnar Rúnar Þorgeirsson sem tengist manninum fjölskylduböndum.
„Þetta er voðalega indæll maður. Hann kom til mín 18 ára en ég var giftur móður hans,“ sagði Ragnar Rúnar í samtali við Mannlíf. Segir hann mikinn samhug vera í Grindavík og að bænamessan sem haldin var í Grindavíkurkirkju í gær, hafi verið full. „Það var smekkfull kirkja og mikið um faðmlög eftir messuna. Þetta var voðalega indælt.“
Sjómaðurinn, sem er tælenskur er þaulvanur á sjó að sögn Ragnars: „Hann var þrælvanur alveg en þetta er bara slys. Þetta getur komið allt í einu.“
Aðspurður um persónuleika mannsins segir Ragnar Rúnar að hann sé „Hann er voðalega indæll maður. Hann kom til mín 18 ára og var hjá mér í nokkur ár og kynntist svo íslenskri konu og á með henni þrjú börn. Þetta er mjög duglegur maður líka. Hér ríkir bara mikil sorg.“