Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Guð hlýtur að vera mikill húmoristi“ – Nærmynd af Halldóri Bragasyni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blúsgoðsögnin Halldór Bragason lét lífið er eldur kom upp á heimili hans við Amtmannsstíg í Reykjavík þann 13.ágúst síðastliðinn.

Halldór – mun betur þekktur sem Dóri – var á meðal lykilmanna í blústónlistarsenunni á Íslandi áratugum saman. Til að mynda var hann heiðraður fyrir ellefu árum er hann var kjörinn heiðursfélagi Blúshátíðar í Reykjavík. Dóri var á meðal stofn­enda Blús­fé­lags Reykja­vík­ur fyrir tuttugu árum; er efndi til Blús­hátíðar Reykja­vík­ur í fjöldamörg ár.

Dóri hét fullu nafni Halldór Snorri Bragason; hann fædd­ist þann 6. nóv­em­ber árið 1956 i Reykja­vík; ólst upp í Hlíðunum; for­eldr­ar hans voru Stein­unn Snorra­dótt­ir og Bragi Kristjáns­son. Hann á tvö eldri systkini, Helga og Bertu. Dóri átti tvo syni, Braga og Andra Frey; Bragi lést árið 2005 aðeins tví­tug­ur að aldri. Andri Freyr á eina dótt­ur, Ásdísi Freyju, með Töru Gunn­ars­dótt­ur.

- Auglýsing -

Dóri kynnt­ist tón­list­inni ung­ur að árum; fékk gít­ar í ferm­ing­ar­gjöf og var snemma far­inn að spila með hljóm­sveit­um. Hin goðsagnakennda hljómsveit Vin­ir Dóra lék fyrst op­in­ber­lega árið 1989; kom fram á gríðarlegum fjölda tón­leika hér á landi sem og á blús­hátíðum er­lend­is. Og til að mynda átti Dóri og vinir hans gott sam­starf við hinn heimsþekkta blúsara, Chicago Beau; bjó Dóri um tíma í Montreal í Kan­ada.

Dóri var einn af bestu gítarleikurum landsins; goðsögn í blússenunni hérlendis. Hljómsveit hans, Vinir Dóra, var þar í fararbroddi – en sveitin – sem gaf út fjölmargar hljómplötur á ferli sínum – fæddist er Dóra og vinum hans bauðst það tækifæri að hita upp fyrir tónleika breska blús- og rokkgoðsins John Mayall árið 1989; eftir það tengdist Dóri inn í blússenuna í Chicago í Bandaríkjunum – á upphafsárum hljómsveitarinnar Vina Dóra – og myndaðist tónlistarloftbrú yfir Atlantshafið um langt árabil; þökk sé Dóra: Þar sem íslenskir og bandarískir blúslistamenn spiluðu á tónleikum og hátíðum hvors annars; sömdu og gáfu út tónlist.

- Auglýsing -

Dóri var lærður rafeindavirki og vann hann til dæmis á kvik­mynda­deild Sjón­varps­ins í nokk­ur ár; var um tíma starfsmaður í tölvu­deild BYKO, og starfaði sem áfeng­is­ráðgjafi á Vogi.

Pinetop Perkins.

Dóri spilaði á gítar og söng líka; hann kom fram reglulega á tónleikum bæði hér heima og erlendis og árið 2009 spilaði Dóri á blúshátíð í Arkansas í Bandaríkjunum; þá með allsvakalegum stjörnum á borð við Pinetop Perkins – Willi Big Eyes – Bob Margolin sem og Bob Stroger: „Það var rosalegur heiður að fá að gera þetta,“ sagði Dóri eitt sinn í viðtali við Fréttablaðið.

Á síðustu tveimur árum háði Dóri erfiða en hetjulega baráttu við krabbamein; hann sótti styrk hjá Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur. Mun fjölskylda og vinir Dóra hlaupa til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoninu.

Dóri sagði frá lífi sinu og list í viðtali við Morgunblaðið á því herrans ári 2006. Í viðtalinu lýsti hann því hvernig hann týndi næstum lífi sínu er hann lenti í flugslysi með Ómari Ragnarssyni og nokkrum fleirum árið 1987, við Mývatn, þar sem unnið var að sjónvarpsverkefni. Dóri varð fyrir slæmum meiðslum á hálsi í slysinu; meiðsl er háðu honum alla tíð.

Óhætt er að segja að Dóri hafi reynt ýmislegt í lífinu sem hann sagði frá í áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið – viðtali er tekið var einu ári eftir fráfall Braga sonar hans:

„Það er merkilegt hvað mannskepnan getur risið hátt – verið nánast eins og guðleg vera – og hvað hún getur lagst lágt. Það er hinn eilífi tvöfaldleiki lífsins. Hið góða og hið jákvæða er mér þó jafnan ofar í huga. Það er val að vera jákvæður og koma auga á möguleikana. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu vali. Maður getur valið kvölina og eymdina en líka gleðina og jákvæðnina. Mín tilfinning er sú að ljóstíran sé alltaf til staðar. Húmorinn er manninum líka nauðsynlegur. Án hans væri lífið bara táradalur. Ef þú horfir bara á okkur, mannkynið, þá blasir við að Guð hlýtur að vera mikill húmoristi.“

Svanhildur Konráðsdóttir.

Fjölmargir hafa minnst Dóra og á meðal þeirra er Svanhildur Konráðsdóttir, sem sagði þetta:

„Dóri var heiðursmaður, frumkvöðull og ekki bara besti vinur – heldur blúspabbi Íslands. Við þekktust frá því ég var rúmlega tvítug – flutt í bæinn og farin að þræða þá fáu staði þar sem lifandi blús var í boði.  Og þar var Dóri. Síðar hélt ég þétt með Blúshátíð í Reykjavík og reyndi eftir megni að tryggja þeim stuðning frá borginni. Þeir félagar komu reglulega fram í Hörpu á Menningarnótt á umliðnum árum og færðu allt of sjaldséðan bláan blæ í húsið. Dóra verður minnst með virðingu, söknuði og hlýju af öllum sem eru tónlistarmegin í tilverunni – að ég tali nú ekki um á þeim hjartahrærandi bláu nótunum sem hann kunni svo vel að galdra fram. Ég votta ástvinum hans og samferðafólki öllu innilega samúð.“

Helga Möller á milli þeirra Eiríks Haukssonar og Pálma Gunnarssonar árið 1986.

Söngkonan Helga Möller segir að „við vorum bæði tónlistarmenn í ólíkum tónlistarstíl. Hann var frábær bluesspilari og ég var í diskóinu og dægurtónlistinni en við vorum góðir vinir þrátt fyrir það og bæði mikið áhugafólk um golf og spiluðum stundum golf saman á Nesvellinum innan um Kríjurnar. Dóri varð mjög góður golfari og ég reyndi að fylgja honum eftir sem tókst nú sjaldnast. En hann var sanngjarn golfari og gaman að spila með honum. Ég hætti síðan í Nesklúbbnum og sá Dóra ekki mikið eftir það. Mikið myndi mig langa til að taka með þér hring á Nesinu en það verður bara í Himnaríki, þegar við hittumst næst. Þú verður að sjá til þess að það séu golfkúlur í Himnaríki Dóri minn. Góða ferð elsku vinur og sjáumst þegar minn tími kemur elsku kallinn.“Guð blessi minningu þína elsku vinur og innilegar samúðarkveðjur til fólksins þíns. Kærleikskveðja, Helga Möller.“️

Arnar Eggert Thoroddsen.

Arnar Eggert Thoroddsen blaðamaður minnist Dóra með eftirfarandi orðum:

„Þetta er harmafregn. Ég kynntist Dóra fyrst og síðast í gegnum Morgunblaðið en ég átti við hann fjölmörg viðtöl vegna Blúshátíðar. Eljusamur skipuleggjari með afbrigðum og ég ræddi við a.m.k. þrjá blúsara fyrir hans tilstilli; Chicago Beau, Magic Slim og Marquise Knox. Sá síðarnefndi var rétt um tvítugt þegar hann kom, 2011, og urðum við Fjasbókarvinir í kjölfarið. Blúsinn er langt í frá í mínu DNA en einhvern veginn klóraði ég mig í gegnum 1500 orða viðtal við Magic Slim sem var svo birt í Lesbók! Beau var með fyrstu viðtölunum sem ég tók fyrir Moggann, hitti hann á Vegamótum heitnum og vinur minn Kristinn Ingvarsson smellti af honum sígildri mynd. Það var gott að ræða við Dóra og fyrirsagnirnar voru t.d. „Með blúsinn í blóðinu“, „Blúsáhaldabyltingin“, „Dóri segir á blúsinn bætandi“ og „Með blús í hjarta“. Viðtöl vegna Blúshátíðar voru svo gott sem árlegur viðburður hjá menningarblaðamanninum þegar ég var á gólfinu, 2000 – 2012, og mér þótti vænt um þessi verkefni. Haldreipi nokkurs konar og djúp, sefandi rödd Dóra þar miðlæg. Ég votta aðstandendum samúð og sendi yl inn í bransann því að risi er fallinn, það er ljóst.“

Baldur Hermannsson.

Baldur Hermannsson minnist vinar síns:

„Dóri Braga er allur svo ekki segir hann mér til oftar á golfpöllunum. Hann var landsfrægur fyrir tónlist en ég þekkti hann mest af golfvöllunum, þar var hann bráðflinkur eins og í öðru sem hann tókst á hendur. Hann hafði gaman af því að leiðbeina okkur sem lakari vorum. Það er mikill sjónarsviptir að Dóra. Hann skóp sinn æviferil af eigin rammleik. Hann brá sérstökum litblæ yfir tilveruna, hvar sem hann kom. Og samfélagið er snauðara þegar hann er farinn. Haf þú heila þökk fyrir farsæl kynni, Halldór Bragason.“

Blessuð sé minning Halldórs Bragasonar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -