Gestur Sjóarans að þessu sinni er Guðbjartur Ásgeirsson skipstjóri, gjarnan kenndur við Gugguna og allir Vestfirðingar og allir landsmenn þekkja það skip og skipstjórana; hann og Ásgeir Guðbjartsson, föður hans. Í viðtalinu fer hann yfir ferilinn og opnar sig meðal annars um það er Guggan var seld, sem var reiðarslag fyrir Vestfirðinga.
Guggan var flaggskip Vestfirðinga en svo var hún seld árið 1997. Kaupandinn var Samherji. Það fylgdi skipinu risastór kvóti. En áhöfnin fékk ekki að veiða kvótann lengur.
„Það var ekkert gæfuspor. Mig minnir að það hafi staðið á blaðinu að kvótinn í aflamarki hafi verið 6500 tonn. Við fengum ekki að veiða neitt.“
Guðbjartur hélt þó áfram á skipinu til að prófa og sjá hvernig færi. Fræg er orðin sú setning að „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði“. Þorsteinn Vilhelmsson sagði í viðtali í Mannlífinu að það hefðu verið mistök að segja þetta.
„Segja þetta? Það var nú meira en að segja þetta því þetta var nú skrifað bara á blað. Ég get nú sagt ýmis orð um þessa Samherjapilta en ég læt það vera því þeir skrifa sína sögu sjálfir.“
Eftir að samkomulagið var undirritað trúðu menn því að hlutirnir yrðu eins og þeir hefðu verið. Skipið landaði nokkrum sinnum á Ísafirði en þá breyttist allt. Guðbjartur heldur að svikin hafi legið í loftinu þegar skrifað var undir.
„Það stóð aldrei til held ég.“
Og þetta hefur verið sárt?
„Já, ég held það. Ég hitti nú pabba niðri á höfn einu sinni og hérna, það var voða skrítið svona. Hann vildi ekki koma upp í bílinn hjá mér og tala við mig eða nokkurn hlut. Ég skildi ekki hvað var í gangi en svo kemur þetta í ljós að þeir ætla að selja skipið til Þýskalands, selja úr einum vasa yfir í hinn.“
Þáttinn má sjá í heild sinni hér á efnisveitu Mannlífs.
Þá má lesa viðtalið í nýja tölublaði Mannlífs, Sjóarinn.