Dánarorsök Guðbjargar Svövu Guðmundsdóttur, sem lést 20. október í fyrra, aðeins 37 ára að aldri, hafa verið birtar föður hennar.
Faðir Guðbjargar Svövu, Guðmundur Sigurður Guðmundsson, staðfestir í samtali við Mannlíf að niðurstöður úr krufningu sýna að dánarorsök Guðbjargar Svövu var lungnabólga.
Guðbjörg Svava hafði glímt við mikla erfiðleika í lífi sínu en eiginmaður hennar, Tómas Waagfjörð, var stunginn til bana á Ólafsfirði þann 3. október 2022. Mannlíf ræddi við hana um harmleikinn á sínum tíma.
Guðmundur missti ekki aðeins dóttur sína 20. október, heldur einnig eiginkonu sína, Anniku en hann skrifaði færslu á Facebook þar sem hann sagði frá harmi sínum en hann komst að andláti dóttur sinnar á samfélagsmiðlinum. „Sorgin hefur sótt mig heim. Konan mín Annika. lést í fangi mínu snemma í morgun. Samtímis missti ég yngri dóttur mína Svövu.“
Guðbjörg Svava lætur eftir sig tvo syni. Annar þeirra er aðeins á fjórða ári.