Guðjón Heiðar Valgarðsson hefur oft verið kallaður samsæringur Íslands. Guðjón, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar segir undanfarin ár hafa sýnt að margt sem áður var kallað samsæriskenning hafi síðar reynst rétt. Hann fór á tímabili alla leið í að liggja yfir samsæriskenningum, en hefur hægt aðeins á sér á undanförnum árum:
,,Ég sagði upp vinnunni minni á tímabili til þess að stúdera alla þessa hluti.
Þá var ég með heimasíðuna gagnauga.is og var meira og minna daginn inn og út að velta mér upp úr öllum þessum hlutum. Það tók á köflum á sálarlífið og ég kúplaði mig aðeins út úr þessu í kjölfarið, en það togar alltaf í mig að skoða aðrar upplýsingar en þær sem er verið að bera á borð í flestum fjölmiðlum. Maður fær oft spurninguna hvort allt sé samsæri hjá mér og margir gefa sér að maður sé kolruglaður, en núna eru eyru flestra orðin opnari en áður, enda eru mjög undarlegir hlutir í gangi í heiminum. Nú eru fleiri og fleiri byrjaðir að átta sig á því að það er ekki alltaf allt eins og sýnist við fyrstu sýn.”
Guðjón er á því að í grunninn sé stóra planið hjá ákveðnum hópum að miðstýra heiminum meira en nú er. Margt af því sem hafi verið í gangi undanfarin ár miði að alheimsríkisstjórn:
,,Aðalmarkmiðið virðist vera að búa til alheimsríkisstjórn. Að auka miðstýringu opinbers valds í heiminum og á endanum verði ein ríkisstjórn yfir öllum heiminum. Aðferðin er sú að búa til áróður sem í sjálfu sér snýst ekkert um þessa alheimsríkisstjórn, en í stóru myndinni auðveldar það á endanum að rökstyðja tilvist slíkrar stjórnar. Flest þessi mál sem eru sett á dagskrá eru þess eðlis að ef þú ert ekki sammála meginstraumssjónarmiðinu ertu klikkaður, rasisti, kvenhatari, á móti jörðinni eða annað í þeim dúr. Ef þú leyfir þér að vera ósammála er hægt að mála þig upp sem vondan einstakling og þess vegna er þægilegast að vera bara sammála meirihlutanum. Fólk sem hefur áhuga á að skoða þessa hluti getur bara kannað það sem er að gerast í Davos og hjá World Economic Forum. Það sem þetta fólk segir sjálft opinberlega er í raun skuggalegt og það er ekki einu sinni verið að fela það lengur.”
Guðjón segir áhugavert hvernig það hafi tekist að búa til meiri og meiri aðskilnað á milli venjulegs fólks, þannig að það sé í átökum sín á milli, í stað þess að beina spjótum sínum að þeim sem stýra:
,,Mikið af þessum hugmyndahreyfingum enda á því að búa til aðgreiningu milli fólks sem ætti að taka höndum saman til að berjast gegn þeim sem eiga allt. Það tekst alltaf að búa til umræður sem pólarisera venjulegu fólki í hópa, þannig að það fer öll orkan í við og hinir varðandi húðlit, kyn eða kynhneigð, í stað þess að athyglin sé sett á efstu stéttina sem stýrir öllu og tekur allt til sín. Það skiptir engu máli hvort þú drekkur pepsí eða kók, á endanum rennur þetta allt í sömu vasana. Svo dynur á okkur áróður um kolefnisjöfnun og samfélagslega ábyrgð og fleira og fleira á meðan engin athygli er sett á það sem raunverulega skiptir máli. Ég held að það séu alltaf fleiri og fleiri að sjá í gegnum þetta.”
Guðjón segir að ímynd þeirra sem leyfi sér að véfengja meginstraumsupplýsingar hafi breyst mikið í gegnum tíðina. Þeir sem áður voru álitnir vinstri sinnar, séu núna álitnir öfga hægra fólk:
,,Þegar ég var að byrja var ég skilgreindur sem hassreykjandi vinstrisinni, en núna á ég að vera öfga hægrisinni. Ég er hvorugt og hef í raun verið samkvæmur sjálfum mér allan þennan tíma. En það er áhugavert hvernig þeir sem einu sinni voru á móti meginstraumnum voru titlaðir vinstri sinnar, en núna eru þeir allt í einu hægri sinnar. Við erum núna á tímum þar sem ,,Woke” öflin hafa haft völdin í umræðunni í talsverðan tíma og vinstra fólkið hefur tengst því. Það veldur því síðan að allir sem véfengja það eru allt í einu orðnir að öfga hægra fólki.
Þáttinn með Guðjóni og alla aðra þætti Sölva má nálgast inni á www:solvitryggva.is