Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tilkynnti andlát föður síns í færslu á Facebook fyrr í dag.
„Það er með sorg í hjarta sem ég tilkynni að pabbi kvaddi þessa jarðvist í morgun.
Ég var hjá honum síðustu metrana og það var líkn fyrir hann að komast til fyrirheitna landsins eftir erfið veikindi. En þegar foreldrar kveðja þá verður maður bara lítill strákur sem saknar,“ segir Guðlaugur Þór.
Þórður Sigurðsson, faðir Guðlaugs Þórs, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, var fæddur 16. október 1936. Eiginkona hans, Sonja Guðlaugsdóttir, lést 17. maí 2018.
Þórður skilur eftir sig soninn Guðlaug Þór, eiginkona hans er Ágústa Johnson og eiga þau tvíbura, Sonju Dís og Þórð Ársæl. Ágústa á tvö börn úr fyrra hjónabandi, Önnu Ýri, og Rafn Franklín Johnson Hrafnsbörn.
Guðlaugur Þór birtir mynd með af föður sínum. „Læt fylgja með mynd af honum sem vekur hjá mér ljúfar æskuminningar, enda gat ég ekki verið heppnari en að eiga slíkan föður. Margs að minnast, mikið til að þakka fyrir en þau orð bíða betri tíma.“
Mannlíf vottar ástvinum Þórðar innilega samúð.