Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra, sem er aðalræðismaður í Winnipeg og meðal annars fyrrverandi ráðherra, alþingismaður og bæjarstjóri í Hafnarfirði, hefur ákveðið að gefa kost á sér fyrir Samfylkinguna vegna komandi bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði og tekur því þátt í prófkjöri flokksins 12. febrúar. Hann vill oddvitasætið. Hann segir í viðtali við Mannlíf meðal annars frá þessari ákvörðun og áherslumálum og hann talar um pólitíkina og sendiherrastarfið í Svíþjóð, Bandaríkjunum, á Indlandi og í Winnpeg. Guðmundur Árni talar líka um sorgina en hann missti tvo syni sína árið 1985.
„Andskotinn,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, þar sem hann situr við tölvuskjáinn á skrifstofu í Winnipeg. Íslenski fáninn sést efst á hillu fyrir aftan hann. Landsliðsleik Dana og Frakka á EM í handbolta var rétt að ljúka og Danir töpuðu þannig að Ísland spilar um fimmta sæti. Það er kvöld á Íslandi. Miður dagur í Kanada. „Ég er gamall handboltahundur; ég spilaði handbolta alveg fram á elliár liggur við. Var og er FH ingur og elska íþróttir.“
Guðmundur Árni hefur ákveðið að gefa kost á sér fyrir Samfylkinguna vegna komandi bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði og tekur því þátt í prófkjöri flokksins 12. febrúar. Hann vill oddvitasætið. Og hann er á leiðinni heim.
„Auðvita er þetta rugl. En mér finnst að ég geti komið að gagni í heima,“ segir hann. „Stundum er þetta ekki flóknara.“
Hann segir að það sé búið að blunda í sér í þó nokkurn tíma að gefa kost á sér en að hann hafi tekið ákvörðunina fyrir um hálfum mánuði. Síðastliðin tvö ár hafa verið skrýtin í starfi aðalræðismannsins en heimsfaraldurinn tengist því; starf aðalræðismannsins felst meðal annars í því að hitta fólk og standa að viðburðum en lítið hefur verið um slíkt heldur meira um samskipti á Zoom, Teams og Facebook.
Það eru kassar á skrifstofunni enda er aðalræðismaðurinn að fara að flytja heim. Heim til Íslands. Eiginkona hans, Jóna Dóra Karlsdóttir, er komin heim. „Hún veiktist illa um jólin, blessunin. Hún varð alvarlega veik en það fór betur en á horfðist og hún er á góðum batavegi. Ég væri annars ekki í framboði; það gefur auga leið.“
Svo hjálpaði heimsfaraldurinn til að ég tók ákvörðun um að óska eftir heimflutningi og koma heim í heimabyggð á nýjan leik.
Hann segir það vera dálítið skrýtið að vera að fara að flytja. „Það voru flutningakarlar hérna hjá mér áðan að setja búslóðina mína í kassa. Jú, jú, þetta eru kaflaskipti en ég var í hjarta mínu búinn að segja mér að þetta væri orðið ágætt; ég er búinn að vera á flandri meira og minna í 17 ár og það hefur náttúrlega verið gríðarlega skemmtilegt en einhvern veginn flýgur lífið fram hjá manni og heima eru börn og barnabörn. Þetta var orðið ágætt og við hjónin nutum þess til fullnustu. Svo hjálpaði heimsfaraldurinn til að ég tók ákvörðun um að óska eftir heimflutningi og koma heim í heimabyggð á nýjan leik. Það var ekkert erfið ákvörðun; ég meina – lífið er allt í köflum og mitt líf hefur verið það líka.“
Guðmundur Árni ætlar að ræða þetta kvöld – þennan dag – um nokkra kafla í lífi sínu.
Vill oddvitasætið
Guðmundur Árni tilkynnti um framboð sitt á Facebook-síðu sinni 12. janúar. Tilkynningin er eftirfarandi:
„Góðu vinir.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til framboðs vegna komandi bæjarstjórnarkosninga í Hafnarfirði fyrir Samfylkinguna – jafnaðarmannaflokk Íslands. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er þátttaka í prófkjöri flokksins sem fer fram 12. febrúar næstkomandi þar sem ég óska eftir stuðningi í 1.sæti listans.
Umliðin rúm 16 ár hef ég starfað í utanríkisþjónustunni sem sendiherra, m.a. í Stokkhólmi, Washington, Nýju Delí og nú síðast á slóðum Vestur- Íslendinga í Winnipeg í Kanada. Þessara starfa hef ég notið til fullnustu og öðlast vini og nýja reynslu. Í desember síðastliðinum óskaði ég eftir heimflutningi vegna fjölskylduaðstæðna og einnig verð ég í leyfi næstu mánuði frá störfum í utanríkisráðuneytinu.
Á síðustu vikum hafa margir jafnaðarmenn í Hafnarfirði sett sig í samband við mig og óskað eftir því að ég legði lið við að styrkja stöðu jafnaðarmanna í bænum, en honum hefur verið stjórnað af Sjálfstæðisflokknum umliðin átta ár, en Samfylkingin verið í minnihluta. Áður og fyrr stjórnuðu jafnaðarmenn í Hafnarfirði, þegar kraftur og framsýni í samstarfi við bæjarbúa var einkennandi.
Ég hef ákveðið að verða við þessu kalli og er þess fullviss, að með góðri liðsheild, skýrri stefnu og markvissum vinnubrögðum geti Samfylkingin orðið stærsti flokkur bæjarins. Fái ég stuðning flokksfélaga minna í prófkjörinu, þá stefni ég óhikað að því að Samfylking vinni góðan sigur í bæjarstjórnarkosningum í maí og tvöfaldi bæjarfulltrúatölu sína, þ.e. úr tveimur í fjóra. Og að afloknum kosningum geti Samfylkingin í góðu samstarfi við aðra flokka tekið við forystu um stjórn bæjarins.
Það er sannarlega verk að vinna í Hafnarfirði og í mörg horn að líta. Átta ára þreytuleg valdatíð Sjálfstæðisflokksins í bænum kallar á ný vinnubrögð þar sem verkin þurfa að tala í samráði við ólíka hópa og einstaklinga. Ég veit að Samfylkingin er tilbúin í þau verk. Málaflokkarnir þar sem þarf að taka á eru um allt; má nefna mál sem varða skipulag, félagsmál, atvinnumál, leikskóla, grunnskóla, íþróttir, umhverfismál, jafnrétti, húsnæði fyrir alla, svo fátt eitt sé talið.
Það er mikilvægt að allir Hafnfirðingar geti verið stoltir af bænum sínum. Það kallar á ný vinnubrögð, opið stjórnkerfi, kraftmikla uppbyggingu og virka aðkomu bæjarbúa að endurbótum.
Ég hætti í pólitík 2005. Hafði þá setið í bæjarstjórn í Hafnarfirði í 12 ár, þar af bæjarstjóri í 7 ár. Og síðan þingmaður í 13 ár, þar af ráðherra í hálft annað ár.
Ég hef því allnokkra reynslu að baki, en einnig kem ég að þessum verkum fullur af krafti og eftirvæntingu eftir að hafa sinnt öðrum störfum um árabil. Það er verk að vinna. Hafnarfjörður hefur alla burði til að vera fyrirmyndarsveitarfélag, en snúa þarf vörn í sókn. Ég vil gjarnan taka þátt í þeirri uppbyggingu með ungum jafnt sem eldri Hafnfirðingum á næstu árum.
Ég hlakka til baráttunnar sem er framundan.“
Aftur að viðtalinu.
Guðmundur Árni segist vilja sjá Hafnarfjörð sem fyrirmyndarsveitarfélag. „Ég var þarna bæjarstjóri í sjö ár á sínum tíma, 1986-1993, og vann þar góð verk með vinum mínum jafnarðarmönnum og það var gjarnan horft til Hafnarfjarðar á þessum árum. Ég vil sjá meira þrek og þor í Hafnarfirði; að bærinn standi með sjálfum sér. Á árunum mínum sem bæjarstjóri talaði ég um stór-Hafnarfjarðarsvæðið; ekki stór-Reykjavíkursvæðið. Þegar ég var bæjarstjóri bjuggu um 16.000 manns í bænum en nú eru þeir um 30.000. Samt hefur engin fólksfjölgun verið í Hafnarfirði síðastliðin tvö ár á sama tíma og íbúum nágrannasveitarfélaga hefur fjölgað um 3-4% eins og vera ber. Ástæðan er sú að menn í Hafnarfirði hafa ekki staðið vaktina til að mynda varðandi húsnæði fyrir unga fólkið; það er auðvitað samstarfsverkefni sveitarfélaga og ríkisins en það er ekki gott þegar ungir Hafnfirðingar sem vilja vera í bænum sínum eiga þess ekki kost. Ég ætla að breyta því ef ég fæ til þess styrk og stuðning. Svo vil ég leggja áherslu á hluti eins og meiri metnað í grunnskólum; ég vil sjá það til framtíðar að grunnskólanemendur standi jöfnum fæti þegar kemur að heitum máltíðum í hádeginu og að þeir þurfi ekki að greiða fyrir matinn af því að sumir hafa einfaldlega ekki efni á því. Ég vil að það verði pláss fyrir 12 mánaða gömul börn í leikskólunum þegar fæðingarorlofi lýkur; það hefur gengið erfiðlega að ná því saman þar sem það gengur illa að manna leikskólana. Kjörin eru ekki nógu góð og það er verk að vinna.
Ég er enginn kraftaverkamaður en ég held að ég geti komið að liði.
Grundvallargildin í þessu öllu saman er að það er ekki öflugt atvinnulíf ef það er engin velferð. Ef fólk hefur ekki til hnífs og skeiðar þá geldur atvinnulífið þess og svo öfugt. Mest er um vert að ég vil hlusta á fólk. Þegar búið er að funda um málin og taka ákvarðanir þá verður þeim fylgt eftir til enda og málin kláruð. Ég er enginn kraftaverkamaður en ég held að ég geti komið að liði. Ég er reynslunni ríkari; ég hef séð sumt, annað hef ég ekki séð og sumt þarf ég að læra. En ég er handviss um að ég geti hjálpað til.“
Guðmundur Árni segir að þar sem hann hafi komið að virkri pólitík og verið kjörinn til trúnaðarstarfa í póltík þá sé eins og hann sé með einhvern vírus. „Þessi pólitík er þannig að maður losnar aldrei við hana. Hún leggst í lágina í langan tíma og svo allt í einu poppar hún upp. Ég fylgist auðvitað vel með og hef gert síðan ég hætti í pólitík og auðvitað verður maður stundum hálfgalinn þegar maður les um eitthvað en minnist samt ekki á. Ég vil taka það fram að mér hefur ekkert reynst það erfitt þó ég hafi þessar sterku skoðanir af því að starf sendiherra er fólgið í því að fylgja ríkjandi stefnu ráðamanna, þar á meðal utanríkisráðherra hverju sinni, og ég held að það hafi verið sex eða sjö ríkisstjórnir við völd á Íslandi frá því ég byrjaði í utanríkisþjónustunni sem sendiherra og alltaf er það hlutverk mitt að fylgja eftir þeirri stefnu sem hver ríkisstjórn setur.“
Hvað ef þetta gengur svo ekki upp? Ætlar hann þá að halda áfram að starfa í utanríkisþjónustunni?
„Ég veit það ekki. Það er eiginlega best alltaf í lífinu, ef við erum að tala um kafla og lífið, að taka ekkert of margar ákvarðanir í einu. Næst er að fá stuðning flokksfélaga minna og samherja í Hafnarfirði um að ég fái kosningu í efsta sæti listans og vonandi tekst það. Ég hef svo sem áður farið í prófkjör og veit að það er ekki á vísan að róa í því. Stundum gengur það og stundum ekki.“
Lærir af mistökum
Fyrrverandi blaðamaður, lögreglumaður, bæjarfulltrúi, bæjarstjóri, alþingismaður og ráðherra; hann var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1993–1994 og félagsmálaráðherra 1994. Varaformaður Alþýðuflokksins um tíma.
Guðmundur Árni sagði af sér ráðherraembættinu í nóvember 1994. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir pólitískar ákvarðanir sem leiddu til þess að hann sagði af sér embætti. „Já, ég hefði getað gert hlutina betur. En ég var sá fyrsti sem tók ábyrgð á gerðum mínum. Þetta var erfiður tími en ég átta mig á því að ég gerði rétt; pólitík snýst ekki bara um eigið egó heldur líka hina stóru mynd.”
Þetta voru erfiðir tímar og mér fannst líf og ferillinn á endapunkti en ég var sáttur í sinni; sérstaklega þegar frá leið.
Svo kom út bók fyrir jólin þetta ár, sem var 1994, eftir að Guðmundur Árni sagði af sér sem ráðherra: Bókin heitir „Hreinar línur“. „Þetta voru erfiðir tímar og mér fannst á einhverjum tímapunkti að ferillinn væri á enda en þegar frá leið var ég sáttur í sinni. Ég fékk símtal örfáum dögum eftir afsögn, 11.nóvember, og ég spurður hvort ég vildi ekki bara dúndra þessu á bók einn, tveir og þrír. Ég og Kristján Þorvaldsson, vinur minn og blaðamaður, tókum höndum saman og kláruðum bókina á 10 dögum.“
„Allt á hreinu.“ Er Guðmundur Árni alltaf með allt á hreinu? „Nei, alls ekki. Ég ætla að vona að enginn sé með það.“
Guðmundur Árni Stefánsson hélt áfram í pólitík; var endurkjörinn á þing 1995, 1999 og 2003 en hætti svo árið 2005.
„Ég hætti ekki í pólitík vegna þess að ég væri búinn að fá nóg af henni sérstaklega heldur hitt að ég og flokkurinn minn hafði verið í stjórnarandstöðu í 10 ár og það er agalegt hlutskipti. Þeir þekkja það sem hafa verið nánast algjörlega áhrifalausir í þinginu. Það reyndi á þolrifin og ég hugsaði með mér hvort það væri ekki komið að kaflaskiptum; ég var fimmtugur og hugsaði með mér hvort það væri ekki bara ágætt ef mér gæfist tækifæri til þess að skipta um hlutverk. Og það á fólk að gera reglulega og ég hef gert það í gegnum tíðina.“ Og Guðmundur Árni varð svo sendiherra í Svíþjóð. Meira um það síðar.
Fólk talar oft um að pólitíkusar séu svona og hinsegin og að pólitíkin sé skítug og að henni fylgi spilling.
Jú, það er þessi pólitík sem togar núna í Guðmund Árna þar sem hann situr í Winnipeg. Hann talaði um vírus. „Það er eiginlega allt,“ segir hann þegar hann er spurður hvað það sé nákvæmlega sem heillar hann svona við pólitíkina. Stjórnmálin. „Fólk talar oft um að pólitíkusar séu svona og hinsegin og að pólitíkin sé skítug og að henni fylgi spilling. Það getur vel verið að það sé eitthvað til í því en fólk gleymir því oft að oft hafa pólitískar ákvarðanir áhrif á daglegt líf fólks í smáu og stóru og fólk leiðir ekki hugann að því að einhvers staðar hefur þetta verið ákveðið; verð til dæmis á mjólkurlítra er meira og minna ákveðið af stjórnmálamönnum með beinum eða óbeinum hætti.
Það er skylda stjórnmálamanna sem kjörnir eru til trúnaðarstarfa, hvort sem það er á þing eða sveitarstjórarmála, að hafa einhverja stefnu og vita hvert þeir eru að fara. Þeir mega aldrei gleyma því að þeir eru í þjónustustörfum fyrir fólk. Þeir þurfa að hlusta eftir því sem það segir og síðan þurfa þeir að taka ákvarðanir og standa og falla með þeim. Ég hef verið talinn maður verka; mér leiðist of mikið hangs yfir hlutunum og vil láta verkin tala. En það þarf að vinna undirbúningsvinnu og það er nauðsynlegt að vera búinn að hlusta áður og líka eftir að ákvörðun er tekin því stundum gera menn mistök. Ég hef gert fullt af mistökum í minni pólitík og ætla ekkert að víkjast undan því en maður lærir af þeim.“
Ég er sæmilega sáttur en ég hef auðvitað gert einstök mistök eins og fólk gerir í lífinu sjálfu.
Guðmundur Árni segir að ekki sé um nein stór mistök að ræða. „Ég er sæmilega sáttur en ég hef auðvitað gert einstök mistök eins og fólk gerir í lífinu sjálfu. Ég hef verið gæfusamur í mínum störfum í gegnum tíðina og þar með pólitíkinni og ég held að ég hafi komið að gagni og vil gera það áfram.
Fólk gerir stór og smá mistök í lífinu. Ég hef stundum sagt að pólitík sé ekkert öðruvísi heldur en lífið sjálft. Ég ætla ekki að fara að pikka út eitt eða annað; fólk þekkir það. En það eru engin þannig mistök að ég sofi ekki á nóttunni.“
Hafði þetta áhrif á svefninn á sínum tíma?
„Að gera mistök? Ég neita því ekki. Ég svaf ekkert sérlega vel þegar ég var ráðherra félagsmála og var í minni baráttu við fjölmiðla og fleiri. Á þeim tíma, í nóvember 1994, tók ég bara þá yfirveguðu ákvörðun að stíga til hliðar og gefa eftir því að stundum gerir maður meira gagn með því að víkja úr vegi og byrja upp á nýtt í stað þess að þrjóskast við og sitja kannski í óþökk einhverra og kannski fjölmargra.“ Og Guðmundur Árni stóð upp úr ráðherrastólnum eins og þegar hefur verið minnst á en hélt áfram í pólitíkinni í um áratug og þá lenti flokkurinn hans, Alþýðuflokkurinn og síðan Samfylkingin, í stjórnarandstöðu.
Hvað stóð upp úr í pólitíkinni?
„Samstarfið við fólk skiptir öllu máli; innan þings og utan. Það stendur upp úr Ég hef eignast stóran hóp af vinum og vonandi ekki allt of marga mjög vonda óvini – í pólitík og daglegu lífi. Ég er satt að segja vinamargur því mér þykir vænt um fólk.
Þegar ég var í þinginu í 13 ár tókust menn oft á í ræðustól og rifust harkalega. Svo settust menn niður og fengu sér kaffisopa. Héldu stundum áfram að rífast en án leiðinda.
Mínir fyrrverandi samstarfsmenn í þinginu eru ekkert síður úr öðrum flokkum heldur en mínum eigin. Þetta endurspeglar það sem mér finnst skipta máli en það er að þó að menn geti verið harðorðir í garð stjórnmálamanna þá eru stjórnmálamenn í öllum flokkum að gera sitt besta. Ég bara veit það. Stundum bara taka þeir rangar ákvarðanir eins og gerist. Ég líka.”
Sá eini sem mætti
Guðmundur Árni Stefánsson og Jóna Dóra fluttu til Stokkhólms árið 2005 þar sem hann tók við stöðu sendiherra Íslands. Hann sagði að það væri kominn tími á breytingar. Svo voru það Bandaríkin, Indland og Winnipeg. Hann talar um fjóra pósta.
„Sænska samfélagið er fyrirmyndarsamfélag að mörgu leyti, alls ekki gallalaust, en þar hafa jafnaðarmenn lagt gjörva hönd að því samfélagi.
En ég neita því ekki það var snúið að breyta úr pólitík yfir í embættismennsku; að láta aðra segja sér fyrir verkum.
Ég kom náttúrlega beint úr pólitíkinni frá Íslandi og þekkti marga sem voru að stjórna málum í Svíþjóð; þingmenn, ráðherra og aðra en ég hafði verið í norðurlandasamstarfinu í þinginu á Íslandi þannig að það létti mér fyrstu skrefin. En ég neita því ekki það var snúið að breyta úr pólitík yfir í embættismennsku; að láta aðra segja sér fyrir verkum.
Það búa þúsundir Íslendinga í Svíþjóð og það var gott að eiga samskipti við þá og þjónusta þá eins og unnt var. Við hjónin nutum svo sannarlega samskipti við þúsundir Íslendinga í Svíþjóð og gátum stundum hjálpað til. Það var stundum eins og vera bæjarstjóri í pínulitlu íslensku þorpi að vera sendiherra í Svíþjóð; annasamt en gaman.“
Næst varð Guðmundur Árni sendiherra í Bandaríkjunum og bjó þá í Washington DC. „Þar eru ákvarðanirnar teknar í heiminum öllum; stórar ákvarðanir. Ja, eða það er sagt.
Bandaríkin og árin þar voru svo sannarlega dásamleg að mörgu leyti; ekki síst þegar maður bjó í höfuðborginni, Whashington DC., þar sem allt gerist. En í Bandaríkjunum, þessu gríðarstóra ríki, sér maður það besta í heiminum og maður sér líka það versta en þar er mikil misskipting.
Þetta var á tíma Obama; ég var feginn að ég skyldi vera farinn þegar maður sem heitir Trump tók við.
Þar voru auðvitað viðskiptamálin ofarlega á baugi í mínu starfi og samverkamanna eins og alls staðar og síðan auðvitað þessi pólitísku tengsl Bandaríkjanna og Íslands; varnarmálin. Pólitíkin auðvitað var stór hluti þar og mér fannst ég vera á heimavelli. Þetta var á tíma Obama; ég var feginn að ég skyldi vera farinn þegar maður sem heitir Trump tók við.“ Sendiherrastöðunni í Bandaríkjunum fylgdu sendiherrastöður ýmissa landa í Suður-Ameríku. „Ísland er lítið land með litla utanríkisþjónustu og þetta víkkaði sjóndeildarhringinn.
Svo var ég kallaður heim til Íslands í þrjú ár. Það er líf sendiherra: Úti stundum, heima annað slagið til að fá jarðfestu sem er góð regla finnst mér.
Heima í utanríkisráðuneytinu sá ég meðal annar um Eystrasaltsráðið í utanríkisráðuneytinu sem er hópur 11 ríkja og Ísland var í formennsku 2017 og í miðju „köldu stríði” tókst okkur að ná saman góðum fundi forystumanna sem ekki hafði gengið vegna Úkraínu. Ég var dálítið stoltur af því; svolítil diplomasía þar.”
Þriðji pósturinn var Nýja-Delí á Indlandi og segir Guðmundur Árni að meðal annars hafi verið lögð áhersla á að marka stöðu Íslands í hinu stóra ríki. „Það var þrátt fyrir allt vinarhugur og viðskiptatækifæri milli þessara þjóða; annað með 1,4 milljarða íbúa og hitt með um 370.000.“
Andstæðurnar eru miklar á Indlandi.
„Ég var búinn að lesa mér vel til eins og hægt var og við hjónin höfðum bæði reynt að undirbúa okkur eins og hægt var. Maður vissi auðvitað stærðirnar í þessu; íbúar Indlands eru um 1,4 milljarður og fátækt er mikil. Um 30% þjóðarinnar hafa ekki aðgang að salerni og ólæsi er í kringum 30%. Þetta eru grófar tölur. Svo er mengunin yfirþyrmandi til dæmis í Nýju-Delí þar sem um 30 milljónir búa. Lytktin er öðruvísi. Svo voru götubörnin alls staðar og milljónir tæpast með þak yfir höfuðið. Ég hafði lesið, lært og heyrt en að sjá, lykta og skynja! Það var allt annað. Þá loksins vissi ég smávegis.“
Guðmundur Árni talar um menningarmuninn og muninn á lífsviðhorfum til dæmis Indverja og Íslendinga; „Samferðafólk mitt þarna var dásamlegt. Vinir mínir þarna – hárskerinn, blómasalinn og karlinn með eplin – senda mér stöðugt kveðjur ennþá. Indland undirstrikaði margt. Við getum gert þetta betur. Miklu betur. Viðhorf þeirra til lífsins er af allt öðrum toga en ég hef kynnst áður. Lífið er ekki beinn og breiður vegur. En á Indlandi lærir maður! Það er ekk hægt annað. Þar eru erfiðleikarnir meiri en hægt er að ímynda sér. Stórríkir andskotar og svo fólk, börn sem eiga ekki fyrir brauði. Ég hata svona ömurlega misskiptingu! Mun berjast gegn henni eins lengi og ég lifi.
Mér var einmitt boðið á samkomu hjá þeim sem og öllum sendiherrum erlendra ríkja í Nýju-Delí sem eru á annað hundrað og ég var eini sendiherrann sem mætti.
Guðmundur Árni talar um samkynhneigða á Indlandi og segir að á tímabili hafi verið leyfilegt að handtaka fólk fyrir samkynhneigð.
„Það urðu breytingar varðandi réttarstöðu samkynhneigðra á meðan ég bjó á Indlandi. Mér var einmitt boðið á samkomu hjá þeim sem og öllum sendiherrum erlendra ríkja í Nýju-Delí sem eru á annað hundrað og ég var eini sendiherrann sem mætti. Ég vildi sýna þeim stuðning og virðingu. Mér var í kjölfarið þakkað vel fyrir og ég lýsti fyrir þeim hvaða afstöðu við hefðum til mála af þessum toga. Þettta var gott fólk eins og fólk er yfirleitt.“
Svo skall heimsfaraldurinn á tveimur mánuðum áður en hjónin fluttu frá Indlandi.
„Ég hugsaði með mér hvað Indverjar gætu gert. Ég meina; heilbrigðiskerfið er auðvitað ekki fyrir alla og mannfjöldinn er svo gríðarlegur. Þeir settu á útgöngubann og ég hugsaði með sjálfum mér að það gæti aldrei virkað og það gerði það eiginlega ekki. Daginn eftir að útgöngubannið var sett á hófst ferðalag tugþúsunda ef ekki hundruð þúsunda einstaklinga sem voru daglaunaverkamenn í Nýju-Delí en áttu rætur í sveitum Indlands og þeir gengu heim. Öll ferðalög voru bönnuð þannig að þeir gátu hvorki tekið rútur né lestir.“
Á meðal verkefna sendiráðsstarfsmanna íslenska sendiráðsins í Nýju-Delí eftir að heimsfaraldurinn skall á var að tryggja ferðir Íslendinga heim frá Indlandi og til dæmis Sri Lanka og Bangladesh. „Menn vissu ekkert hvað væri fram undan og allir vildu komst heim í skjól. Fólki fannst það vera öruggara heima eftir að heimsfaraldurinn hófst. Þetta tókst býsna vel og fólk var þakklátt.“
Guðmundur Árni og eiginkona hans yfirgáfu Indland þar sem hann segir að einn daginn hafi hitinn verið 52 gráður og þau fluttu til Winnipeg í Kanada þar sem hann tók við stöðu aðalræðismanns. Þar var frostið nýlega 51 gráða.
Mér finnst stundum Vestur-Íslendingar þykja vænna um Ísland heldur en Íslendingum sjálfum.
„Starfið í Winnipeg felst fyrst og fremst í að vera í samstarfi við Vestur-Íslendinga sem búa í Manitoba-fylki, Winnipeg og ekki síst í Gimli sem er lítill, „íslenskur“ bær í rúmlega klukkkutíma akstursfjarlægð frá Winnipeg. Dugnaðurinn í þessu fólki er ótrúlegur. Maður hittir ennþá fólk sem talar íslensku og sem hafði lært tungumálið á æskuheimilum sínum en því fer því miður fækkandi en viljinn er svo sannarlega fyrir hendi. Mér finnst stundum Vestur-Íslendingar þykja vænna um Ísland heldur en Íslendingum sjálfum. Það eru tugir Íslendingafélaga í Kanada og raunar einnig handan landamæranna svo sem í Norður-Dakóta, Minnisota og víðar í Bandaríkjunum. Það er dásamlegt að finna hlýhuginn frá Vestur-Íslendingum. Það er dálítið á reiki hversu margir þeir eru en menn nefna allt frá 100.000 og upp í 200.000. Þetta er stór hópur í ljósi þess að íbúar á Íslandi eru um 370.000.
Hér er haldinn Íslendingadagur um verslunarmannahelgina hvert ár í Gimli og taka almennt þátt um 50.000 manns en þeir voru einungis um 7000 í fyrra vegna Covid.“
Sorgin
Guðmundur Árni og Jóna Dóra eiga fjögur börn á lífi en þau misstu tvo syni sína í bruna árið 1985. „Þeir brunnu ekki; það var reykeitrun sem varð þeim að aldurtila.“ Guðmundur Árni talar um hið óskiljanlega og segir að daginn fyrir brunann hafi yngri sonur sinn teiknað mynd. Hann teiknaði mynd af brennandi húsi, fólki í glugga og slökkviliðsbíla. „Það er margt sem maður á ekki að skilja og það er kannski dálítið gott. Maður á ekki að hafa skýr svör við öllu.“
Synirnir sem létust voru frumburðurinn Fannar Karl, átta ára, og Brynjar Freyr, fjögurra ára. Þeir áttu tvö yngri systkini, Margréti Hildi og Heimi Snæ. Hjónin eignuðst tvo syni eftir að þau misstu drengina sína. Sá eldri fæddist ári eftir brunann. Hann heitir Fannar Freyr og yngstur í systkinahópnum er Brynjar Ásgeir sem er sex árum yngri.
„Fannar Karl var svo glaður en samt alltaf svo ábyrgðarfullur.
Brynjar Freyr var að verða fimm ára þegar hann kvaddi þetta líf. „Hann var skemmtilegur sprelligosi og fannst gaman af lífinu og tilverunni eins og börn á þessum aldri. Eldri bróðir hans, Fannar Karl, passaði upp á hann þá og gerir enn.
Bræðurnir, synir mínir, voru mjög einhuga í öllu þó það væri þessi áramunur á þeim, Þeir voru svo sannarlega vinir. Og eru áfram. Þeir voru jarðaðir í sömu kistu. Annað kom aldrei til greina. Þeir dóu saman og eiga að vera saman. Hverjum þykir ekki vænt um börnin sín? Þeir voru bara dásamlegir eins og börnin sem eru eftir hjá okkur.
Við vorum aldrei að hugsa um að þeir kæmu í staðinn fyrir þá sem voru farnir heldur langaði okkur bara til að heyra nöfnin endurómast.
Við hjónin síðar meir, þegar við eignuðumst tvo drengi, tókum þá ákvörðun að láta nöfnin þeirra endurbirtast í bræðrum þeirra sem fæddust eftir að þeir dóu; þeir heita líka Fannar og Brynjar en eru ekki alnafnar. Við vorum aldrei að hugsa um að þeir kæmu í staðinn fyrir þá sem voru farnir heldur langaði okkur bara til að heyra nöfnin endurómast. Þannig að það eru ýmsar tilfinningar og ákvarðanir sem þurfti að taka í þessu.“
Sorgin fer aldrei.
Hvernig hefur þessi mikla sorg markað líf Guðmundar Árna?
Þögn.
„Ég veit það ekki. Ég held hún hafi ekki gert mig að verri manni. Þetta var náttúrlega afskaplega sárt og er ennþá þungt.
Sorgin fer aldrei. Hún býr innra með manni en maður getur einhvern veginn lært að lifa með henni. Ég held ég hafi tileinkað mér smáauðmýkt. Konan mín hefur verið duglegri í því að miðla af reynslu sinni til þeirra sem hafa misst til dæmis börn eða maka og það var líka hjá okkur mikið hjálpræði fólgið í því að geta hitt fólk sem hafði misst og sagði að þetta væri erfitt og yrði erfitt en að það væri hægt að lifa með sorginni; ég trúði ekki að það yrði hægt fyrr en ég heyrði að það yrði mögulegt. Ég lít á mig sem gæfumann þrátt fyrir áföll og mótvind og eru góðu stundirnar miklu betri og miklu fleiri þannig að ég er þakklátur fyrir lífið.“
Guðmundur Árni segir að þau hjónin hafi strax verið ákveðin í að vera opin hvað sorgina varðar. „Við vissum auðvitað ekki neitt í febrúar 1986 en þegjandi samkomulag var milli okkar um að tala um drengina okkar og slysið. Og það gekk eftir. Fólk á ekkert að vera feimið við það að syrgja og líða illa og við höfum ekki verið það. En það var líka ákveðin hjálp í því að vera þannig og raunar var það svo að við vildum endilega tala um strákana okkar. Ein ástæðan var sú að að við vorum svo hrædd um að þeir myndu gleymast í tímans rás sem var náttúrlega algjörlega kjánalegt. En maður hugsaði þannig og það var mikil hjálp í því fólgin að geta talað um þá endalaust.
Guð minn almáttugur hvað maður hefur skynjað hvað það er víða mikil sorg. Ég les til dæmis fréttir af slysum og veikindum með öðrum hætti en áður og átta mig á að það er svo margt þarna á bak við. Það eru heilu fjölskyldurnar; það eru börn, foreldrar og hvað eina. Þetta er lærdómur og eins og ég sagði þá hefur hann ekki gert mig að verri manni. Öll reynsla kemur til góða. Ég hef reynt á langri ævi að vera auðmjúkur og þetta víkkar sjóndeildarhringinn og skilning minn á stöðu fólks. Umfram allt á maður að reyna að gera lífið eins gott og unnt er. Þetta er ekki beinn og breiður vegur.“ Guðmundur Árni talar um að njóta augnabliksins af því að enginn veit hvort morgundagurinn renni upp í lífi viðkomandi.
„Fólk á að þakka fyrir hið góða og vonast eftir hinu besta og það á að njóta dagsins ef kringumstæður bjóða upp á það.“
Guðmundur Árni talar um þetta „ef“. „Maður fer alltaf í gegnum þetta „hefði ég ekki gert þetta í staðinn fyrir að gera þetta þá hefðu þeir ekki verið þarna“. „Ef„ og „kannski“. Maður fór í gegnum þetta aftur og aftur mánuðum saman og það fór öll tilfinningaflóran í gang. Sektarkenndin. Gat ég ekki verið betri? Átti ég sem pabbi ekki að passa upp á drengina mína? Ég varð vondur út í guð og spurði hann hvers þeir ættu að gjalda; þeir voru að byrja sitt líf og mér fannst guð hafa tekið af þeim möguleikann á að lifa hamingjusömu lífi næstu áratugi. Af hverju gat hann ekki tekið mig í staðinn? Öll þessi tilfinningaflóra fór af stað og var lengi til staðar. Það er ekki hægt að lýsa þessu almennilega með orðum en ég hugsa að margir þekki þetta sem hafa lent í svipuðum kringumstæðum. Ég bjó að barnatrúnni minni og hún hjálpaði mér. Svo vorum við Jóna Dóra það lánsöm að geta talað saman og verið saman í sorginni og lært að lifa með henni. Við höfum átt góð ár og líka okkar erfiðleika. Barnabörnin eru níu og bónusbörn og vinir í tugatali. Ég elska lífið.“
Guðmundur Árni trúir því að synir hans séu á góðum stað og að hann eigi eftir að hitta þá aftur sem og foreldra sína og systur sem eru látin. „Það er bara einfaldlega þannig. Mér finnst ekki bara huggun í því heldur ákveðin tilhlökkun þegar sá dagur rennur upp að ég verði kallaður í burtu. En það sem máli skiptir er að vera til; gera sitt besta.“