Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Guðni sá fyrir sigur Framsóknar: „Undir 90 kílóum skaltu vera og mundu boðorð föður þíns.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var gestur í hlaðvarpinu Mannlífið með Reyni Traustasyni.

Guðni hefur mál sitt á því að vitna í Snæfríði Íslandssól:

Hví dregur þú mig í þitt skelfilega hús? Sagði hún þegar hún kom að Ytri Rein, í hús Jóns Hreggviðssonar.

En, gaman að koma til þín. Gaman að koma á Mannlíf.

 

„Svo kom þetta yndislega slagorð: Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“

Fyrst er Guðni inntur eftir viðbrögðum við nýafstöðnum kosningum og þeim kosningasigri sem flokkurinn hans, Framsóknarflokkurinn, vann þar. Hann er beðinn um að lýsa því hvað það var sem þarna gerðist.

- Auglýsing -

„Svo mikill er ljóssins undrakraftur, að jafnvel gamlir símastaurar syngja í sólskininu og verða grænir aftur,“ sagði skáldið Tómas, Árnesingur. Tómas Guðmundsson.

Ja, þetta er nú eiginlega einstakt í Íslandssögunni. Að flokkur sem situr í ríkisstjórn vinni fimm nýja þingmenn. Það er einstakt. Þannig að nú veit ég ekkert hvað veldur því, annað en að ég tel að þetta sé nú vænt fólk, forysta flokksins og hlýtur að hafa staðið sig mjög vel á síðustu árum. Þannig að þjóðin trúði á það, trúði á stefnumálin, verkin sem eru að baki hjá þessu fólki á kjörtímabilinu.

Svo kom þetta yndislega slagorð: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“. Það var eins og Steingrímur Hermannsson, hinn ástsæli leiðtogi og þingmaður og ráðherra Vestfjarða talaði til okkar beint í hjartað.

- Auglýsing -

 

Þegar talið berst að þróun Framsóknarflokksins rifjar Guðni upp eldri forystur og áherslumál, en nemur staðar við Framsóknarflokk nútímans og Sigurð Inga Jóhannsson, formann flokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson hefur vaxið mjög. Hann tók auðvitað við á mjög erfiðum tíma, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór, sá mikilhæfi maður, sem var bjargvættur þjóðar í þrjú ár sem forsætisráðherra.

Tók vogunarsjóðina, lækkaði skuldir heimilanna, stóð gegn Icesave. En hann varð að víkja úr sæti forsætisráðherra og Sigurður tók við, gerði það þó einstaklega vel.

Svo komu þessir erfiðu tímar og átök. Hann stofnaði flokk.

En Sigurður hefur vaxið upp úr því öllu þannig að hann hefur mikla tiltrú. Svo er hann auðvitað með Lilju með sér, svo ég tali ekki um Ásmund, sem að hefur snert hjörtu manna. Af því hann hefur, eins og sagt var: „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það eigi.“ Þannig að hann hefur tekið að sér börnin hennar Evu, óhreinu börnin, þetta fólk sem við höfum ekki haft vit á því að snerta og hjálpa.

 

Flokkurinn alltaf merkilegri en maðurinn

Guðni er spurður nánar út í Sigmund Davíð og þau átök sem urðu innan flokksins þegar hann var felldur. Þegar Guðni er spurður að því hvernig honum hafi liðið með það og hvort hann hafi aldrei verið á útleið úr flokknum með Sigmundi er Guðni skýr í svörum sínum.

Nei, nei. Aldrei. Flokkurinn er alltaf merkilegri en maðurinn. Við höfðum lent í því oft áður, Framsóknarmenn. Jónas á Hriflu, ég dáði hann. Hann var einhver merkilegasti stjórnmálamaður Íslands. Hvar sem þú ferð um landið eru fótsporin hans.

Þessi maður, sem var bara ráðherra í fimm ár – ég var ráðherra í átta ár – hann var bara ráðherra í fimm ár. En það var eins og hann stýrði þessari þjóð í þrjátíu, fjörutíu ár. Og við sjáum menninguna, menningarhúsin, Þjóðleikhúsið, allt þetta sem er kennt við hann. Allar þessar menntastofnanir. Hann var byltingamaður. Samt endaði hann svo að hann var felldur í Framsóknarflokknum.

Og Sigmund henti þessi örlög. Hann lenti bara í mjög vondu máli sem er erfitt að verjast. Peningar voru sagðir vera þar, á Tortóla og ég veit ekkert um þau mál. Þar með missti hann sína stöðu og varð að víkja frá.

Það gat ekki orðið samstaða um hann, en ég álít hann mikilhæfan. Ég held að hann hafi til dæmis hreinsað Framsóknarflokkinn af Evrópusambandsveirunni, sem felldi mig. Ég hafði engan frið í Framsóknarflokknum, út af liði sem allt vildi inn í Evrópusambandið. Halldór Ásgrímsson var svo mikill Evrópusinni. Hann vildi kanna það verulega að ganga inn í Evrópusambandið, sem gat aldrei verið hluti af Framsóknarflokknum.

Framsóknarflokkurinn var rammklofinn eftir aldamót og alveg gríðarleg átök í honum um þetta mál, sem endaði nú með því að ég yfirgaf og kallaði: „Nú verður grasrótin að taka til sinna mála og finna nýja forystu.“ Ég gleymdi því nú aldrei, þeirri hamingju þegar ég hætti í pólitík, þá sögðust einhver 60, 70 prósent Íslendinga sjá eftir mér. Það er nú gott að fara út við þær aðstæður.

Ég held að ég hafi í rauninni verið búinn að gera það sem ég gat, átta ár ráðherra og yfir tuttugu ár í þinginu og ég var að verða svona einn af þessum gömlu góðu körlum. Það er ekkert gaman að enda í því að krökkunum sem eru að koma inn í þingið þyki bara vænt um mann. Sjá mann sem gamlan, góðan karl. Þannig átti þetta ekki að verða. En ég fór á réttum tíma.

En þarna kom Sigmundur. Ég var hans stuðningsmaður. Hann var aðstoðarmaður minn nánast, þegar ég var ráðherra. Þegar ég var formaður flokksins. Þannig að ég þekkti piltinn vel, vissi bæði um hann kosti og galla og djúpu hæfileika. Hann nýtti þá vel á árunum 2013 til 2016. Þannig að ég tel að hann sé vel gerður maður og afreksmaður þjóðar.

 

Miðflokkurinn er einn maður

Guðni segist skilja vel að margir hafi farið með Sigmundi Davíð þegar hann yfirgaf Framsóknarflokkinn.

Það fóru margir mætir menn með Sigmundi, sem eðlilegt var. Hann átti inni hjá fólkinu.

Svo skildu menn ekki þessi átök. Sigurður Ingi var ekki viðriðinn þessi átök. Hann stóð bara þar og gat ekki annað en tekið við forsætisráðherrastarfinu.

Síðan koma þessi átök um kjör þeirra og þar urðu náttúrulega gríðarleg átök sem flokkurinn var lengi að jafna sig af. Nú virðist hann vera búinn að jafna sig af þeim og staðan er þessi, að Miðflokkurinn tapar þessum kosningum.

 

Aðspurður um það hvers vegna hann haldi að Miðflokkurinn beri svo skarðan hlut frá borði í nýafstöðnum kosningum segir Guðni:

Menn sjá ekki lausn í því, menn sjá ekki samstarf við Miðflokkinn – Miðflokkurinn er einn maður. Hann er í rauninni einn maður, stofnaður um einn mann. Sem er stór, en hann er búinn að vinna sín afrek. Það er eins og hann hafi verið kallaður til afreka í eitt kjörtímabil – svo ég tali frá hjarta mínu.

Hann er náttúrulega bara staddur þar sem hann er staddur, eins og Jónas á Hriflu og fleiri. Hann getur lagt gott til áfram. Hann á alla leið inn í flokkinn ef hann vill, en hann er… hann er stór. Og hann er flokkur. Þannig að ég veit ekkert um það, en þessi átök voru leiðinleg og þau eru liðin tíð. Framsóknarflokkurinn er kominn í sína stöðu á nýjan leik, kominn í 17, 18 prósent.

„Og hugsaðu þér, þetta sá ég fyrir í vor.“

Guðni segir frá því að í vor hafi hann verið fenginn til að koma og opna Norðurá. Það hafi honum þótt hálf galið, þar sem hann væri netaveiðihundur að eigin sögn og hafi verið hataður af mörgum stangveiðiköppum. Það hafi Einari Sigfússyni vini hans, sem bað hann um að koma til að opna ána, ekki þótt koma neitt að sök. Hann hafi tjáð Guðna að nú skyldi hann gerður að fluguveiðimanni.

Ég hafði aldrei kastað flugustöng. Og ég sat á fundi með Lilju Dögg [Alfreðsdóttur] og ég segi við Lilju: „Nú verðurðu að gefa mér lokk úr hári þínu. Nú ætla ég að láta hnýta Lilju Daggar-fluguna og sjá hvað kemur á fluguna í Norðurá. Svo gerði ég þetta, klippti lokk úr hári hennar og það var gerð þessi fallega fluga sem ég gaf henni svo eftir að ég hafði veitt á hana tólf punda hrygnu. Ég sagði um leið og hún kom í land: „Nú verða þingmennirnir tólf í haust.“ En þeir urðu þrettán, maður! Þannig að þetta hefur verið rúmlega tólf punda held ég.

 

„Kári, nú er ég kominn með dauðann í skrokkinn“

Talið berst að veikindum sem Guðni hefur þurft að eiga við síðustu ár. Hann greindist með sykursýki 2 fyrir nokkrum árum.

Mér brá náttúrulega verulega við. Ég var nú svona feitur skrokkur orðinn, stjórnmálamaður sem hafði fitnað mjög á því tímabili. Ég man eftir því þegar ég var að verða þingmaður og faðir minn var að deyja, Ágúst á Brúnastöðum, sem þekkti þetta á eigin skinni. Þá lá hann sína banalegu þegar ég var varamaður inni á þingi 1986. Ég kem til föður míns, með Þráin Valdimarsson. Margrét er þar og fullt af fólki. Ég er búinn að vinna prófkjör.

Þráinn segir við Ágúst, sem er mjög veikur þegar þetta var en andlega heill: „Ágúst minn, nú er hann bara að verða þingmaður, strákurinn. Hvernig líst þér á það?“

„Hann klórar sig fram úr því,“ segir faðir minn. „Hann klórar sig fram úr því, en ég hef bara áhyggjur af öðru,“ með sinni djúpu, miklu rödd. Helmingi dýpri en mín og hljómmeiri. Það setur alla hljóða og Þráinn segir: „Hverju hefurðu áhyggjur af Ágúst minn?“

„Ég hef bara áhyggjur af því að hann verði of feitur!“ Svo tekur hann í hendina á Margréti og segir: „Margrét mín. Sjáðu nú um það að halda í við hann í mat og drykk.“

Síðustu skilaboðin. Ég varð samt 105 kíló. Ég gleymdi þarna bara síðustu ráðleggingum föður míns. Verð þetta þungur. Svo þegar ég er hættur þingmennsku og er enn þetta þungur.. það var svona árátta hjá mönnum að stjórnmálamenn ættu að vera stórir og feitir og dimmraddaðir. Ég hafði dimmu röddina og allt til að bera þannig.

Þá kemur það í ljós að á næsta stigi, segja læknarnir, er sykursýki.

Ég fer beint í vin minn og jafnaldra, Kára Stefánsson – við erum fæddir með þriggja daga millibili – og segi: „Kári, nú er ég kominn með dauðann í skrokkinn. Sykursýki.“

„Sykursýki! Þú getur læknað þig af því, helvítis auminginn þinn,“ segir hann. „Þú þarft ekki læknis við. Hættu í sykrinum, éttu minna og grenntu þig. Farðu út að ganga.“

Ég gerði ekkert annað en að taka út sykurinn, sælgætis, gosið, bjórinn.. allt varð þetta að fara. Á nokkrum árum léttist ég niður fyrir 90 kíló.

Margrét náttúrulega vakti við hroturnar, eins og svona fallega músík á nóttunni. Nú losnaði hún við þær. Ég léttist og það er allt annar svefn. Ég sef eins og barn. Ég fer út að ganga og fór í World Class reyndar líka. Nú segi ég bara: „Undir 90 kílóum skaltu vera og mundu boðorð föður þíns.“

Ég var að koma úr mælingum og langtímasykurinn og allt er mjög gott í skrokknum. Og það sem meira er, ég er með mínar mjaðmir, mín hné, mína ökkla.

Við erum tólf bræðurnir og þegar ég segi við þá: „Hva, þú ert kominn með í mjöðmina! Ég fæ ekkert, ég hlýt að vera úr eðal efni.“

„Nei, nei,“ segja þeir. „Þú hefur aldrei gert neitt. Þú hefur aldrei unnið neitt ærlegt handtak!“

 

Lífið hófst í leigukjallara á Selfossi

Guðni hefur gengið við hlið Margrétar, eiginkonu sinnar, um langa hríð. Hverjum sem hefur viljað hlýða á síðustu áratugi mun vera ljóst að Guðni ann Margréti mjög.

Það fer nú að verða komin hálf öld maður! Þetta er ótrúlegt. Þetta er eins og prestarnir töluðu um, að lífið væri ein næturvaka. Manni fannst þetta svo fíflalegt. En nú nálgumst við bara 50 ár frá trúlofun, næsta vor. Og svo bara giftum við okkur. Svo þetta er bara hálf öld.

 

Þegar Guðni er spurður hvernig leiðir þeirra Margrétar hafi legið saman segir hann þau hafa verið sveitunga frá sitthvorum bænum í Hraungerðishreppi.

Það var mikill vinskapur á milli bæjanna og ég segi nú svona til að stríða mönnum stundum, hinum, að ég hafi haft kvenhylli í minni sveit.

En af einhverjum ástæðum þá náðum við saman og vorum flutt á Selfoss 1973 og vorum farin að búa. Margrét kornung. Eignuðumst okkar fyrstu stelpu þegar hún var 18 ára og tvær svo í viðbót. Þannig að lífið hófst í leigukjallara á hinum litla Selfossi eins og var á þeim tíma, þegar allir þekktu alla. Dásamlegt. Við höfum átt margan hamingjudag saman og eigum enn.

Nú ætla þau Guðni og Margrét að flytja aftur á Selfoss – snúa til baka.

 

Konan og eldavélin

Eftir stutta þögn spyr blaðamaður Guðna hreint út hvort hann sé karlremba. Guðni fipast ekki við spurninguna, heldur svarar sallarólegur:

Nei. Ég fékk nú orð á mig sem karlremba, fyrir margt sem var bæði búið til upp í mig og menn trúðu að þessi rammasterka rödd.. kannski hrokafullur, orðljótur á einhverju tímabili í upphafi ferils míns. Ég held að ég hafi nú batnað, eins og gamalt viskí. Ég held að ég hafi mildast og lífið hnoðar mann í þessu starfi. Menn eiga ekkert að gera í pólitík nema að batna, ef þeir eru með fólkinu í landinu.

Árni Johnsen sagði: „Ekki dettur ykkur í hug að vera að kjósa hann Guðna Ágústsson, sjáiði ekki hvað hann er leiðinlegur? Sjáiði ekki hvað hann er brúnaþungur? Ekki bætir hann Alþingi Íslendinga.“

„Hann er eins og Þjórsá í klakaböndum,“ sagði Árni. Og þetta féll vel í garð því ég held að ég hafi verið of illskeyttur.

Pabbi sagði við mig: „Guðni minn, passaðu þig bara á einu. Vertu aldrei vondur við andstæðinga þína í pólitík. Leggðu þeim alltaf gott til ef þú getur, því þú þarft stundum á þeim að halda, spái ég, ef þú lendir í vandræðum í þínum eigin flokki.“

 

Guðni hefur vissulega verið sakaður um að vera karlremba, sér í lagi hér á árum áður. Brandarar gengu ljósum logum um að hann hefði látið það út úr sér að staða konunnar væri á bak við eldavélina. Aðspurður hvort þetta hafi verið eitthvað sem slitið hafi verið úr samhengi svarar Guðni:

Eftirhermur og grínistar, þeir smíða falleg orð upp í menn. Það var nú svolítið hallærislegt… þá var þessi kvennabylting að byrja í Framsóknarflokknum og konunum þótti sinn hlutur ekki góður. Því kona var inni á þingi fyrir Framsóknarflokkinn ’49, en svo var eiginlega ekkert af konum þar fyrr en að ég kem inn á þing. Valgerður Sverrisdóttir kemur og kvennabyltingin – Kvennalistinn breytti Alþingi og þessari þróun. Flokkarnir urðu að svara þessu kalli. Og þarna er ég kallaður á ráðstefnu til að ræða jafnréttismál milli karla og kvenna og Halldór Ásgrímsson. Svo kem ég niður á þingið daginn eftir og þá hlæja þeir þar, skellihlæja. Ég held að það hafi verið vinur minn, Páll Pétursson, sem bjó þessa frægu setningu til, að ég hafi sagt að staða konunnar væri á bak við eldavélina. Þetta var smíðað upp í mig, þessi yndislega setning. Svo hitti ég einu sinni konu þar sem ég var að afsaka mig: „Hættu þessu Guðni. Þetta var frábær setning. Sýndi hvað þú ert framsýnn: nú eru allar eldavélar komnar fram á mitt gólf. Nú er hægt að fara á bakvið hana.“

Þannig að þetta skaðaði mig nú ekkert, svona grín. Þetta var grín.

Eins var það á einhverri ráðstefnu með öldruðum, þar átti ég að hafa sperrt mig í upphafi og sagt: „Góðir hátíðargestir. Öldruðum ber að fækka.“ Og ég held að ég hafi sagt þetta. Gamalmennin skulfu þarna fyrir framan mig og það endaði með því að ég útfærði hvernig ég ætlaði að fækka þeim. Það er með lífsstíl. Með lífsstíl – að fara að hreyfa sig og verða ekki feitir og bæta lífið. Þá var í tísku þessi setning, að bæta árum við lífið.

 

Guðni hefur átt marga fræga frasa í gegnum tíðina. Hann rifjar upp þegar Hallgrímur Helgason skrifaði áramótaskaupið og gerði grín að Guðna þar:

Hallgrímur Helgason, sem var nú óvinur minn á þeim tíma, hann samdi skaupið.

„Þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur.“

 

„Og svo sagði hann: Guðni notfærir sér allt sem um hann er sagt, það er honum allt sem happafengur. Ég ætla aldrei að minnast á það helvíti framar í áramótaskaupi,“ segir Guðni og glettnin skín úr augum hans. Viðtalið við Guðna er að finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -