Miðvikudagur 30. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Guðni minnir á mikilvægi íslenskunar: „Þannig heldur hún styrk sínum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Forseti Íslands setti Alþingi í dag.

Klukkan 14:00 í dag setti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, 154. löggjafarþing Alþingis. Í ræðu sinni snerti Guðni á ýmsum hlutum og má þar á meðal nefna stjórnarskránna, íslenskt mál og fjölmenningarsamfélagið.

Hægt er að lesa ræðu Guðna hér fyrir neðan:

Ágætu alþingismenn!

Ég býð ykkur velkomna til þings og óska ykkur góðs gengis í mikilvægum
störfum. Fram undan er annasamur tími að vanda, að mörgu að hyggja þegar
horft er fram á veg. Þennan þingvetur og allt næsta ár er einnig margs að
minnast ef horft er um öxl. Þannig er vel við hæfi að nefna það hér á hinu háa
Alþingi að árið 2024 verða rétt þúsund ár liðin frá því að merk þingræða var
flutt, ef marka má Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Einar Þveræingur mælti þá
gegn þeirri ósk Ólafs helga Noregskonungs að fá Grímsey til eignar og hafa rök
Einars eins og Snorri skráði þau lengi lifað, verið nýtt í sjálfstæðisbaráttu og
pólitískum rökræðum; þótt kóngur væri ágætur gætu aðrir verri komið í hans
stað, ánauð sú myndi aldrei hverfa af þessu landi og myndi mörgum
kotbóndanum þykja þröngt fyrir dyrum. Einar vildi samt góð samskipti við
valdið ytra og Snorri líka ef út í það er farið; þeir voru engir einangrunarsinnar.
Fyrir þúsund árum urðu einnig þau tíðindi að Þorgeir Hávarsson safnaðist
til feðra sinna, megi trúa Fóstbræðra sögu. „Aldregi skyldi góður dreingur láta
þá skömm af sér spyrjast að kjósa frið ef ófriður var í boði.“ Þetta er Þórelfur
móðir hans látin segja í Gerplu, snilldarlegu verki Halldórs Laxness í anda
fornsagnanna. Aumri aðdáun andhetjunnar Þorgeirs á valdi má halda á lofti nú
um stundir þegar ráðamenn í Rússlandi reyna að sýna mátt sinn og megin með
því að ráðast með ofbeldi inn í grannríki.

Þannig tengist fortíð nútíð og fleiri tímamót bíða á þessum vetri. Fimmta
janúar verða 150 ár liðin frá því að Kristján IX. Danakonungur staðfesti
stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, þau grunnlög sem okkur voru
færð að utan þegar landið tilheyrði Danaveldi.

- Auglýsing -

Annarra og enn merkari straumhvarfa þarf að minnast eftir þingfrestun
eða þar um bil, ef að líkum lætur. Sautjánda júní 2024 verða 80 ár liðin frá
stofnun lýðveldis á Íslandi. Fullveldi var áður fengið en eftir var að færa
þjóðhöfðingjavaldið hingað til frambúðar. Það var gert og ný stjórnarskrá
samþykkt. Áfram bar hún þess þó skýr merki að eiga rætur í konungsríki, vera
samin fyrir konungsríki. Enn var því mikið verk að vinna í stjórnarskrármálum.
Það fannst forseta hins nýja lýðveldis og þingheimi öllum, almenningi og
lögspekingum sömuleiðis.

Að síðustu nefni ég kaflaskil sem eru okkur næst í tíma. Fyrsta janúar
2024 verða 30 ár liðin frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók
gildi. Satt er það sem Sigurður Líndal sagði skömmu síðar, að „[ö]nnur eins
breyting hefur ekki orðið á íslenzkri löggjöf síðan á 13. öld þegar Járnsíða og
síðar Jónsbók voru lögleiddar“.

Satt er það líka að síðustu áratugi hefur Ísland gerbreyst að mörgu leyti.
Nú er stór hluti íbúa landsins af erlendu bergi brotinn. Fólk sækir hingað vinnu
eða skjól og sé vel að verki staðið verður samfélagið fjölbreyttara og fallegra,
öflugra og framsæknara. Um leið þurfum við að tryggja að eining ríki um
grunnstoðir okkar, málfrelsi og athafnafrelsi hvers og eins, réttarríki og samhjálp
– samfélag þar sem fólk getur sýnt hvað í því býr, sjálfu sér og öðrum til heilla,
en fær líka þá aðstoð sem þörf krefur hverju sinni.

- Auglýsing -

Samtímis má efla þá þætti í menningu okkar og mannlífi sem geta
sameinað flesta íbúa landsins. Við eigum tungumál sem gerir okkur kleift að
skilja það sem var skráð á bókfell fyrir nær þúsund árum, Heimskringlu og
Fóstbræðra sögu, Járnsíðu og Jónsbók og allan okkar menningararf í aldanna
rás. Í þá íslensku taug vefjast sífellt nýir og ferskir þræðir; þannig heldur hún
styrk sínum í bráð og lengd.

Ágætu alþingismenn: Þessi sannindi hafa aðrir orðað mun betur en ég.
Ísak Harðarson var eitt mesta trúarskáld okkar tíma á Íslandi en orti annars um
allt milli himins og jarðar. Heyrið hvernig hann lýsir mætti málsins í kvæðinu

Til móts við Orð og fer ég hér með hluta þess:

Þegar Ingólfur Arnarson hélt burt
af þeirri kringlu er menn byggðu á hans tíð
og sigldi með fólk sitt og fé á vit landsins
er hermt var að lægi yst í norðri
þá hélt hann ekki til móts við land
– heldur Orð.

Þrjóskt sigldi skipið
öldu eftir öldu eftir
öld eftir öld,
ellefu hundruð ár.
Djarft sigldi skipið …
Og hér
siglum við enn
djúpan geiminn á bláum hnetti
knúnum sólvindum
til móts við Orð.

Þannig orti skáldið og megi orðin og málið lifa áfram. Öll getum við lagt
okkar af mörkum og sjálfsagt er að ríkisvaldið sé í fararbroddi. Í stjórnarskrá
mætti vera kveðið á um það sem segir nú þegar í lögum, að íslenska er
þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Ályktun þess efnis gæti jafnvel
þótt við hæfi á afmælisárinu fram undan. Best væri líka að opinber fyrirtæki
hefðu íslenskt mál ætíð í forgrunni, á flugvöllum, hjá stofnunum og hvarvetna.
Lítt stoðar að kvarta undan því að alþjóðamálið enska sæki á ef við sjálf gerum
því óþarflega hátt undir höfði en látum okkar eigin tungu liggja í láginni.
Svo verðum við að gera þeim sem hingað flytja betur kleift að læra
íslensku, bjóða fleiri námskeið og námsefni, sýna jafnvel aukna lipurð og aðstoð
á starfsvettvangi. Það kæmi okkur öllum til góða.
Virðulegu alþingismenn: Vitaskuld mætti gera ýmislegt annað að
umtalsefni. Að svo ótalmörgu er að hyggja í flóknu þjóðfélagi. Og þegar allt
kemur til alls varðar meiru hvað við segjum við hvert annað heldur en á hvaða
máli.

Nú við upphaf þings lýsi ég því þeirri von að ykkur megi auðnast að vinna
vel í þágu lands og þjóðar. Vissulega á þingið að vera vettvangur ágreinings og
átaka ef svo ber undir. Vissulega getur verið að einhverjum þyki orð Bríetar í
laginu um Esjuna eiga vel við, að við förum „eftir einbreiðum vegi sem liggur í
öfuga átt“ og „allt er síendurtekið, samt er svo mikið ósagt“. Engu að síður má
vona að góður andi ríki hér, að virðing verði borin fyrir ólíkum sjónarmiðum, að
þingmenn geti notið ljúfra stunda milli stríða, slegið á létta strengi og fundið að
þrátt fyrir allt er það mun fleira sem sameinar okkur í þessu landi en það sem
sundrar okkur.

Að svo mæltu bið ég ykkur öll að minnast fósturjarðarinnar með því að
rísa úr sætum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -