Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Guðný vill búa til hluti sem snerta fólk: „Ég er frumkvöðull frá náttúrunnar hendi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er svo sem ekki að ástæðulausu að þetta kallast „að vera í harkinu“. Ég hugsa að allir sem vinna við eigin vöruhönnun hér á landi séu sammála um að þetta sé frekar mikið hark,“ segir Guðný Björk Pálmadóttir, eigandi íslenska hönnunarfyrirtækisins FABIA.

Guðný segir í samtali við Mannlíf að mikið hafi gerst á undanförnum árum og almennur skilningur sé á því núorðið að handverk og hönnun séu ekki sami hluturinn, þó að það fari oft saman.

Hún segir að á Íslandi sé orðið allnokkuð um mjög flott hönnunarfyrirtæki þar sem unnið sé af mikilli fagmennsku. Að hennar mati eru verslanir hér á landi opnar og tilbúnar að leyfa nýjum hönnuðum að koma inn á markaðinn og það telur hún að sé stór kostur.

Hins vegar er íslenskur markaður ekkert sérstaklega stór og hver og ein verslun ekki að selja mikið magn, þannig að það tekur oft langan tíma að ná markaðshlutdeild sem leyfi að hægt sé að sinna þessu í fullu starfi.

Guðný er með vinnustofuna sína á Selfossi, þar sem hún er einnig með litla gjafavöruverslun. En auk þess tekur hún að sér hönnun og ráðgjöf innanhúss fyrir fólk og fyrirtæki undir nafninu Pálmadóttir, en þar áður undir nafninu Fabia Studio.

„Þannig næ ég að búa mér til vinnustað þar sem ég get sinnt þessu öllu og gefur af sér þannig að ég geti greitt mér laun.

En það er líka erfitt að vera með marga bolta á lofti, því að ef þú sinnir einum vel þá fá hinir ekki eins mikla athygli á meðan. En ég held að þetta sé stóra vandamálið hjá hönnuðum hér á landi. Það er erfitt að komast á þann stað að þetta geti gefið af sér fullt starf og margar hindranir á leiðinni. Ég held að það glími allir við þá hugsun reglulega, hvort þeir eigi að halda þessu áfram eða bara ráða sig í vinnu einhvers staðar upp á að fá stabíl laun,“ segir Guðný.

- Auglýsing -

Fabia er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem leggur metnað sinn í að fegra heimili með vörum úr umhverfisvænu hráefni. Allar vörur eru hannaðar þannig að þær skilji eftir sig eins lítið umhverfisspor og mögulegt er. Aðalmarkmið fyrirtækisins er að búa til eitthvað fallegt en Guðný leggur einnig mikla áherslu á framleiðsluaðferðirnar.

Hvert skref og hver þáttur í heildarferlinu er metinn út frá umhverfisáhrifum, allt frá hugmynd að veruleika. Þannig er reynt að halda kolefnisspori hverrar vöru í lágmarki.

Fyrsta formlega varan sem framleidd var undir merki Fabia kom á markað í byrjun árs 2017. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið hægt og rólega og er í dag með 16 vörur á markaði í 18 verslunum víðs vegar um landið.

Guðný Björk er sem fyrr segir stofnandi, eigandi og eini starfsmaður fyrirtækisins. Hún er menntuð á sviði hönnunar, er með BSc-gráðu í arkitektúr og hönnun og MSc-gráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá Álaborgarháskóla.

- Auglýsing -

„Ég lifi auðvitað og hrærist í þessum heimi og myndi segja að ég væri frumkvöðull frá náttúrunnar hendi. Mér finnst fátt skemmtilegra en að vinna að fjölbreyttum verkefnum og leysa þau á skapandi og skemmtilegan hátt.“

Helstu áherslur í hennar framleiðslu eru að búa til fallega hluti sem snerta við fólki, en með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

„Ég passa upp á að vörurnar mínar skilji eftir sig eins lítið umhverfisspor og ég mögulega get. Til að mynda reyni ég alltaf að framleiða vörurnar hér heima, sé það hægt yfirhöfuð. Annars eru mínar vörur að mestu framleiddar hér heima og í Evrópu til að minnka kolefnisspor við flutning. Allar umbúðir eru t.d. framleiddar hér heima. Ég kynni mér vel hráefnin og reyni alltaf að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif efniviður og vinnsluaðferðir hafa á umhverfið.

Það er því miður aldrei neitt svart og hvítt í þessum málum, en ég tek alltaf upplýsta ákvörðun og vel besta kostinn hverju sinni.“

Þær vörur sem hafa fengið hvað mesta athygli er Ömmubolla-línan sem skartar blómum sem vaxa villt í íslenskri náttúru. Bollarnir eru merktir með ártali og á hverju ári bætist nýtt blóm í flóruna. Bollarnir eru allir hvítir að utan en að innanverðu ákvarðast liturinn af lit blómsins.

Hugmyndin að Ömmubollanum kviknaði þegar Guðný missti ömmu sína árið 2018, en hún var mikil blómakona og Guðný elskaði að vera hjá henni í sveitinni þegar hún var barn.

„Það var því kjörið að nýta þá tengingu og búa til fallega blómabolla í nútímalegum og poppuðum búningi,“ segir Guðný.

„Svo hefur ljóðið mitt, Frá konu til konu, fengið mikla athygli. Ljóðið orti ég sem hvatningu til mín, þegar ég stóð á ákveðnum tímamótum í lífinu. Ég ákvað að gefa það út í von um að fleiri konur gætu nýtt sér þessi orð sem hvatningu til að standa með sjálfum sér og leyfa sér að vera þær sjálfar. Þaðan kemur nafn ljóðsins Frá konu til konu.“

Guðný segir að það sé ótalmargt skemmtilegt við það að vera hönnuður og það sé auðvitað ástæðan fyrir því að fólk haldi þetta út, þrátt fyrir harkið. Hjá flestum er skemmtilegasti parturinn að búa til og skapa eitthvað. Að þróa hugmynd og sjá hana svo verða að veruleika og þar er Guðný engin undantekning.

„Það er ótrúlega gaman að vera búin að ganga með hugmynd í maganum og sjá hana svo verða að veruleika eftir alla vinnuna sem búið er að leggja í hana. Það er svo enn skemmtilegra þegar fólk kann að meta það sem þú hefur fram að færa. Þannig kemur hvatningin og viljinn til að halda áfram og gera meira.“

Undanfarið hefur mikill tími farið í að byggja upp og markaðssetja Ömmubolla-línuna sem nýtur sívaxandi vinsælda. Guðný hefur verið að prófa sig áfram með íslenska ösp og á síðasta ári setti hún á markað fjölnota viðarbretti, unnið úr ösp frá Egilsstöðum.

„Það var virkilega skemmtilegt verkefni þar sem ég fékk m.a. styrkveitingu frá SASS í fyrra.“ Markhópurinn er aðallega konur á öllum aldri, en þær eru stærsti viðskiptahópurinn. „Karlarnir hafa því miður fengið aðeins minni athygli frá mér þótt þeir slæðist stundum með. En flestar vörurnar eru frekar kvenlegar eins og nöfnin benda til, Ömmubolli og Frá konu til konu.“

Næst á dagskrá er að undirbúa jólatörnina, fylla lagerinn af vörum og safna smá kröftum áður en hún hefst.

„Ég vonast svo til þess að á næsta ári geti ég kynnt nýja vörulínu, en það er enn þá allt í vinnslu.“

 

Smelltu hér til að lesa brakandi og feskt helgarblað Mannlífs eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -