Guðrún Karls Helgudóttir var kjörin biskup í fyrra en hún tók við af Agnesi Sigurðardóttur, sem þótti mjög umdeild á seinustu árum sínum í embættinu. Guðrún hefur látið til sín taka á þeim stutta tíma sem hún hefur verið biskup og talar reglulega fyrir mannréttindum. Biskupinn opnaði sig í viðtali í þættinum Segðu Mér á Rás 1.
„Ég er pólitísk að því leyti að mér finnst skipta mörg mál skipta mjög miklu máli, til dæmis mannréttindi. Ég held að það sé varla annað hægt en að vera pólitísk þegar kemur að svoleiðis hlutum,“ sagði Guðrún en tók þó fram að hún hafi aldrei tilheyrt einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokki.
„Kirkjan þarf að vera pólitísk þegar kemur að velferð fólks. Við þurfum að standa með fólki, alltaf. Það er bara hlutverk kirkjunnar og Jesús Kristur er náttúrulega engin smá fyrirmynd hvað þetta varðar. Kristnin lítur svo á að Jesús Kristur sýnir okkur hvernig Guð er og hvernig guð vill að við séum.“
Ekki margar fyrirmyndir
Í viðtalinu segir hún einnig að hún trúi innilega á guð og að hún haldi að mjög margir þeirra sem búa á landinu séu trúaðir en noti ekki endilega sama tungumálið í þeim efnum.
Þá snertir hún einnig á hversu mikið karlastarf þetta hafi verið þegar hún byrjaði í því. „Þegar ég var að byrja, þá voru ekki margar konur. Það er ekki fyrr en á síðasta árinu mínu þegar ég var að læra sem fyrsta konan varð kennari í guðfræðideildinni. Fyrirmyndirnar voru ekki margar, við vorum að ganga inn í svo mikið karlastarf og við þurfum að finna út sjálfar hvernig við ætluðum að hafa þetta.“