Guðrún Helgadóttir, sjórnmálakona og einn ástkærasti barnabókahöfundur Íslands lést 23 mars síðastliðinn. Rithöfundurinn og ljóðskáldið Þórdís Gísladóttir skrifaði fallega minningargrein um Guðrúnu, sem var föðursystir hennar:
Í dag mun ég fylgjast með útför Guðrúnar í streymi frá Kaupmannahöfn. Ég skrifaði minningargrein sem ég birti líka hér fyrir neðan:
Það er óraunverulegt að kveðja föðursystur sem hefur alltaf verið einhvers konar stórveldi í tilverunni. Hún var skemmtilega frænka mín sem kom með Sverri og krakkana í kaffi til Hafnarfjarðar um helgar. Við í stórfjölskyldunni sátum heima hjá ömmu og afa á Jóffanum og það var talað hátt og reykt og rifist yfir öllu mögulegu. Hún var frænkan sem bauð mér í gistiheimsókn þegar hún hafði skrifað bók og ég fékk að lesa handritið og segja mína skoðun. Þegar ég gerði athugasemd við val á nafni á einni sögupersónu breytti hún nafninu í laumi og lét hana heita eftir mér og þegar bókin var komin út og ég sá það sagði hún hlæjandi: „Þarna spældi ég þig“ og okkur fannst þetta mjög fyndið.
Sem barn og unglingur fylgdist ég með henni í fjölmiðlum og dáðist að því að hún nennti að rífast við leiðinlega og forpokaða karla af heillandi léttleika. Ég skildi ekki margt sem fram fór á pólitíska sviðinu en ég fylgdist með því hvernig frænka mín lét sig mikilvæg málefni varða, hún barðist af festu fyrir flóttamenn, hún var frumkvöðull að stofnun Þýðingarsjóðs og hún vann að eflingu samstarfs meðal Norðurlandaþjóða.
Þegar ég var heima hjá Rúnu að vakta húsið meðan á stúdentsútskrift Helgu stóð þurfti ég ekki bara að taka á móti blómum og skeytum heldur líka svara símtölum. Meðal annars þurfti ég að hlusta á ókunnugan karlmann sem fann sig, af einhverjum ástæðum sem ég áttaði mig engan veginn á hverjar voru, knúinn til að hella sér yfir Guðrúnu Helgadóttur. Hann taldi Guðrúnu augljóslega á hinum enda línunnar, kynnti sig og jós svo einhverjum hroðalegum skömmum yfir mig. Ég hélt að þetta væri einhver kunningi hennar en þegar ég nefndi nafn mannsins og sagði Rúnu frá því að hann hefði hringt sagði hún: „Æ, elskan mín ég veit ekkert hver þetta er, það eru alltaf einhverjir menn að hringja í mig til að skamma mig og þvarga yfir einhverju.“
Þegar Rúna var komin á eftirlaun kíkti ég stundum til hennar í hádeginu og var boðið upp á kaffi og fransbrauð með rúllupylsu. Svo spjölluðum við og horfðum kannski á einhverja konunglega athöfn á erlendri sjónvarpsrás eða beina útsendingu frá sænska þinginu, því Rúna fylgdist með öllu af brennandi áhuga.
Það var eins og Guðrún Helgadóttir hefði miklu meiri tíma en aðrir. Hún skrifaði bók eftir bók og var samtímis í meiriháttar ábyrgðarstöðum og hún sinnti stórri fjölskyldu sem hélt svo áfram að stækka þegar tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn bættust við. Hún sótti menningarviðburði, hitti vini sína og fékk alls konar fólk í heimsókn. Hún mátti alltaf vera að því að koma og lesa fyrir leikskóla- og grunnskólabörn og svo hringdi hún reglulega til að spjalla og hrósa mér fyrir hitt og þetta og segja mér frá einhverjum bókum sem hún var nýbúin að lesa.