Þann 13. september 1994, hvarf hinn 29 ára gamli Giuseppe Mirto sporlaust en hann var í hópi ferðamanna sem skoðaði Gullfoss. Talið er að hann hefði fallið í fossinn.
Mikil leit hófst þegar ljóst var að hinn ítalski Giuseppe Mirto skilaði sér ekki í rútuna en hann hafði verið í hópi ferðalanga sem stoppað hafði við Gullfoss til að bera þann glæsilega foss augum. Þrátt fyrir gríðarlega mikla leit, þar sem fjörutíu björgunarsveitarmenn tóku þátt, ásamt lögreglu, þyrlu Landhelgisgæslunnar, annarar lítillar þyrlu og einkaflugvél frá Flúðum, fannst maðurinn aldrei. Talið er víst að Mirto hefði fallið í fossinn, þó enginn hafi orðið vitni að því.
Þann 17. september var haldin minningarathöfn um Mirto við Gullfoss en Sr. Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur flutti þar bæn og ættingjar mannsins lögðu krans við fossinn.
Hér má lesa frétt frá Morgunblaðinu um málið á sínum tíma:
Leitað að erlendum ferðamanni við Gullfoss
Óttast að hann hafi fallið í fossinn
LEIT AÐ 29 ára gömlum ítölskum ferðamanni, sem óttast var að hefði fallið í Gullfoss í gær, verður haldið áfram í dag. Að sögn Ámunda Kristjánssonar, hjá svæðisstjórn björgunarsveitanna í Árnessýslu, sem stjórnaði leitinni í gær, verður farið með sporhund á leitarsvæðið í dag. Maðurinn var ásamt fleirum í skoðunarferð við Gullfoss um hádegisleytið í gær. Þegar hann skilaði sér ekki í rútuna létu samferðamenn hans vita að hans væri saknað. Strax vaknaði hræðsla um að maðurinn hefði fallið í fossinn þrátt fyrir að enginn hefði orðið vitni að því. 40 björgunarsveitarmenn leituðu Lögregla fór á staðinn og síðan voru björgunarsveitir úr Árnessýslu kallaðar út. Þeir fóru með bát á Hvítá og gengu með ánni beggja vegna frá fossinum og niður að Drumboddsstöðum, u.þ.b. 14 km leið. Um 40 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRO, var kölluð út og einnig var leitað úr annarri lítilli þyrlu og úr einkaflugvél sem kom frá Flúðum. Leitinni var hætt rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi og átti að halda henni áfram snemma í morgun.