Færð á Suðurlandi verður erfið í dag en gul viðvörun er í gildi til klukkan átta í kvöld. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að færðin sé þegar mjög slæm og mikil snjókoma sé á Hellisheiði og í Þrengslum. Blint sé á köflum og vegfarendur því hvattir til þess að aka varlega.
Á höfuðborgarsvæðinu er búist við snjókomu í dag en frost á landinu er á bilinu 1 til 9 stig.
„Suðlæg átt og yfirleitt 3-10 og víða snjókoma vestantil á landinu, en einkum sunnanlands í dag. Úrkomulítið norðaustantil. Frost 0 til 12 stig, mest í innsveitum á Norðausturlandi.
Suðaustan 5-10 austantil á morgun, en norðaustan 8-15 um landið vestanvert. Víða snjókoma á köflum eða él, en yfirleitt þurrt á Suðvesturlandi. Sums staðar frostlaust á morgun, einkum við suður- og austurströndina, annars 0 til 8 stiga frost,“segir meðal annars á vef Veðurstofu Íslands.