Gunnar Hrafn Jónsson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi þingmaður, gagnrýnir á Facebook þá sem hafa lýst yfir stuðningi við Skúla Tómas Gunnlaugsson, læknir sem er grunaður um að hafa myrt sex sjúklinga. Hann segist skilja vel fólkið, sem segist þekkja Skúla af góðu einu, því hann hafi þekkt dæmdan morðingja af góðu einu.
„Stuðningsyfirlýsing vina og kollega læknis, sem hefur verið rannsakaður af lögreglu vegna andláts sex sjúklinga, eru á þá leið að þau „þekki hann bara af góðu“. Þannig var það líka með góðan félaga minn sem var ákærður fyrir manndráp. Hann var engu að síðar sekur og dæmdur í 16 ára fangelsi. Aldrei hefði mér dottið í hug að þetta gæðablóð myndi verða manni að bana en þannig var það því miður,“ segir Gunnar Hrafn og heldur áfram:
„Þó að einhver sé vinur manns til margra ára þýðir það ekki að maður viti fyrir víst að viðkomandi eigi sér engar aðrar hliðar. Þessi yfirlýsing, þar sem fjölmiðlum er kennt um meira og minna allt saman, finnst mér því vera frekar marklaus. Auðvitað vilja vinir manns og nánir kollegar trúa því besta en það er bara ekki innlegg í umfjöllun um eða málsmeðferð sakamála.“