Gunnar Kristinn Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdarstjóri lést miðvikudaginn 4. september síðastliðinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Hann var 74 ára.
Gunnar fæddist 21. febrúar árið 1950 í Reykjavík, sonur hjónanna Gunnars Kristinssonar, verslunarmanns og söngvara og Maríu Tryggvadóttur tannsmiðs.
Fram kemur í andlátsfrétt mbl.is að Gunnar hafi gengið í Melaskóla, Hagaskóla, Menntaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands og hafi útskrifast árið 1974 sem viðskiptafræðingur. Með skóla starfaði hann á sumrin hjá Verksmiðjunni Vífilfell hf. og eftir að námi lauk starfaði hann sem skrifstofustjóri hjá Vífilfelli og stýrði einnig tölvudeild fyrirtækisins til 1986. Þá varð hann aðstoðarforstjóri og síðar framkvæmdarstjóri framkvæmdarsviðs hjá Olís frá 1986 til 1991. Frá 1991 til 1995 starfaði hann við ýmislegt, meðal annars sem framkvæmdarstjóri hjá Handknattleikssambandi Íslands sem og framkvæmdarstjóri á heimsmeistaramótinu í handbolta í Reykjavík 1995. Árið 1995 var hann ráðinn framkvæmdarstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum og starfaði þar til 2014 þegar starfsævinni lauk.
Var Gunnar virkur í félagsstörfum innan íþróttahreyfingarinnar en hann sat í mörg ár í stjórn handknattleiksdeildar Þróttar í Reykjavík og í stjórn HSÍ frá 1980 til 1984 og aftur 1987 til 1992. Þá var hann eftirlitsdómari hjá HSÍ frá því að eftirlitsdómarakerfið var sett á til ársins 2018. Auk þess var hann eftirlitsdómari hjá Evrópska Handknattleikssambandinu frá 1993 til 2018 en þá þurfti hann að hætta sökum aldurs en var þá sæmdur gullmerki EHF.
Handbolti var ekki eina íþróttin sem var Gunnari hugleikinn en hann var formaður Golfklúbbs Vestmannaeyja frá 1996 til 2000 og sat í stjórn Golfsambands Íslands 2001-2019. Um ævina hlaut Gunnar gullmerki HSÍ, GSÍ og ÍSÍ og silfurmerki ÍBV. Gunnar var aukreitis virkur félagi í Oddfellow í Vestmannaeyjum þar sem hann var meðal annars yfirmeistari sinnar stúku og stórfulltrúi stúkunnar fram að andláti.
Gunnar lætur eftir sig eiginkonuna Sigrúni Ingu Sigurgeirsdóttur en hún er fyrrverandi bókavörður. Börn þeirra eru þau María Kristín, Gunnar Geir og Inga Lilý og barnabörnin eru sjö.
Útför Gunnars fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 14. september kl. 13.