Gunnar Waage safnar nú á undirskriftarlista fyrir tvær sómalskar flóttakonur sem senda á úr landi.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Þær Fatma Hassan Mohamoud og Nadifa Mohamed eru á þrítugsaldri og koma frá Mogadishu; höfuðborg Sómalíu.
Stöllurnar sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi; en vegna þess að þær fengu áður vernd í Grikklandi hafa umsóknir þeirra ekki ennþá fengið efnislega meðferð:
„Þessar konur sem hér um ræðir, Fatma og Natifa, bjuggu á götunni í Grikklandi við hungur og kulda og miklar hættur frá umhverfinu í formi skipulagðrar glæpastarfssemi, þ.m.t. vændis og mansals,“ segir á síðu undirskriftasöfnunarinnar.
Nadifa er 31 árs og kom hún til Íslands í júní í fyrra; starfaði áður í Írak og Jemen við ræstingar.
Fatma er 22 ára og kom einnig hingað í júní í fyrra.
Báðar konurnar upplifðu hræðilegar aðstæður í Grikklandi þar sem þær bjuggu á götunni í pappakassa.
Gunnar Waage kynntist Fötmu og Nadifu í gegnum konu sína, Hodman Omar Heidar, sem er frá Sómalíu og hlaut alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir einu og hálfu ári.
Gunnar segist vita um aðrar sómalskar konur sem vísa á úr landi á næstunni:
„Þetta er náttúrlega síðasta úrræðið að fara þessa leið. Af því að þú vilt ekki gera svona mál að fjölmiðlamáli fyrr en allt er reynt. Þegar maður er búinn að fara nokkra hringi í gegnum þetta umsóknarferli og síðan áfrýjunarferlið hjá kærunefndinni, þá fer maður að átta sig á því hvað þessi prósess er brotinn í raun og veru. Þegar fólk fær neikvæð svör þá er það alveg með ólíkindum að lesa ástæðurnar,“ segir hann.
Gunnar segir Útlendingastofnun hafa gefið þær ástæður fyrir brottvísunum fólks frá Sómalíu, að landið sé ekki hættulegt land; þar sé fólk öruggt svo lengi sem það haldi sig innan lagaramma sjaríalaga sem eru víða í gildi í Sómalíu.
Mikill pólitískur óstöðugleiki er hins vegar í Sómalíu; hlutar landsins eru undir stjórn íslamista samtakanna Al-Shabaab:
„Það eru náttúrlega íslensk lög sem gilda á Íslandi og síðan alþjóðalög. Þetta fólk er að flýja sjaríalögin og sérstaklega konurnar. Þannig það er alveg ótrúlegt að lesa svona lagað í neitun frá Útlendingastofnun. Maður bara trúir varla sínum eigin augum. Það er ekki orðum aukið að þessar stúlkur eru með hræðilega áfallasögu. Þetta eru í rauninni okkar veikustu og veikbyggðustu umsækjendur,“ segir Gunnar og nefnir að önnur kvennanna eigi börn sem hún hafi orðið viðskila við í Eþíópíu; en henni var neitað um fjölskyldusameiningu í Grikklandi.
Eins og frægt er var nýverið greint frá því að til standi að senda um 300 hælisleitendur úr landi á næstunni.
Gunnar er gagnrýninn á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og segist fyrir sitt leyti ekki sjá hvernig Katrín ætlar að komast út úr þessu máli pólitískt séð:
„Í gegnum tvennar þingkosningar þá var ég með kosningavakt í sambandi við flóttamannamál og í báðum tilfellum komu Vinstri grænir út með fullt hús stiga. Meira að segja fékk ég gögnin send beint frá Katrínu sjálfri um samþykktir Vinstri grænna og þeirra stefna var langsamlega sterkust af öllum flokkunum í málefnum flóttafólks. Ég skil ekki hvernig hún getur síðan látið samstarfsflokki eftir þetta ráðuneyti og látið þetta fara svona. Ég bara veit ekki hvernig hún ætlar að lifa þetta af pólitísk ef þetta á að vera svona, við getum ekki farið svona með fólk,“ segir Gunnar.
Gunnar segir að lögreglan sé nú þegar byrjuð að undirbúa brottvísun þeirra Fötmu og Nadifu og bætir við að yfirvöld séu að flýta sér að undirbúa brottvísunina; því senn líður að því að konurnar séu búnar að vera á Íslandi í eitt ár:
„Lögreglan hringdi tvívegis í morgun í aðra þeirra þannig að það er verið að undirbúa þetta að senda þær úr landi. Allavega annað málið er komið til lögreglu og hitt er að fara eflaust líka. Ef það líður ár þá ber þeim skylda til þess að taka málið til efnislegrar meðferðar.“
Eðlilega kvíða Fatma og Nadifa þess að verða sendar aftur til Grikklands; enda hefur ítrekað verið greint frá ómannúðlegum aðstæðum flóttamanna þar í landi:
„Þær bjuggu í pappakassa á götunni í drullu og drasli og viðbjóði og það er bara það sem bíður þeirra ef þær eru sendar aftur þarna út í ómannúðlegar aðstæður, það er bara ekkert annað,“ segir Gunnar, sem vonast til þess að undirskriftasöfnunin muni vekja athygli á málinu; en einnig hefur verið ritað erindi til forseta Íslands þar sem málið er sagt þola enga bið.