Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-8.2 C
Reykjavik

Gunnar segist ekki gráðugur en biðst afsökunar á bréfinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Þór Gíslason, formaður stjórnar Ölmu leigufélags, segir það ekkert með græðgi að gera að félagið hafi hækkað leigu 65 ára konu um 75 þúsund krónur á mánuði. Leigufélagið hefur verið gagnrýnt harðlega undanfarið eftir að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vakti athygli á máli konunnar. Henni var tilkynnt skyndilega að leiga hennar myndi hækka úr 250 þúsund í 325 þúsund krónur á mánuði um áramótin.

Gunnar Þór biðst afsökunar í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun hvernig konunni var tilkynnt um hækkunina. Hann stendur þó fast á því að ekkert óeðlilegt sé við það að hækka leiguna. Leiguverð konunnar hafi verið lágt vegna þess að samningur hennar var stofnaður í miðju COVID. Félagið hafi einungis verið að leiðrétta það

Hér fyrir neðan má lesa pistil Gunnars í heild sinni.

Um allan heim ræðst fasteignaverð af byggingarkostnaði annars vegar og markaðsverði hins vegar. Að koma sér upp þaki yfir höfuðið er í raun ævistarf hér á Íslandi fyrir flest fólk og leiðangurinn því miður mikil óvissuferð vegna verðbólgu og vaxta­umhverfis. Nánast rússíbana­reið. Enginn fettir samt fingur út í það að verð íbúðarhúsnæðis ráðist af markaðnum á hverjum tíma – og þar geta sveiflurnar verið býsna miklar.

Sumum vex þessi óvissa í augum og kjósa frekar að vera á leigumarkaði. Aðrir velja leigumarkaðinn af því þeir vilja ekki festa sig niður og enn aðrir hafa ekki fjárhagslegar aðstæður til þess að ráðast í íbúðakaup og fara þannig tilneyddir á leigumarkaðinn. Á honum gilda eðlilega sömu lögmál og við fasteignakaup. Leiguverð hlýtur alltaf að fylgja kostnaði og markaði. Rétt eins og kaupverð íbúða. Þegar grannt er skoðað er annað óhugsandi. Og hefur ekkert með græðgi að gera heldur eðlilega framlegð af því fjármagni sem bundið er í rekstrinum.

Íbúðafélagið Alma rataði í fjölmiðla í síðustu viku vegna 30% hækkunar á húsaleigu til eins viðskiptavinar. Sumir, jafnvel fjölmiðlar, hafa talað um þessa hækkun í fleirtölu og gefið þannig í skyn að Alma hafi hækkað húsaleigu til allra viðskiptavina sinna um 30%. Það er alrangt. Þær hækkanir sem hluta af leigjendum okkar var tilkynnt um að kæmu til framkvæmda í upphafi næsta árs voru að meðaltali innan við tíu prósent. Þetta tiltekna tilfelli kom upp vegna þess að verið var að uppreikna og endurnýja samning sem upphaflega var stofnað til þegar leiguverð í miðbænum var lágt í miðjum kórónuveirufaraldrinum. Sá veruleiki er allt annar í dag.

- Auglýsing -

Enda þótt breytingin hafi verið fullkomlega eðlileg aðlögun að gjörbreyttu markaðsverði í miðborginni skal, eftir nánari skoðun, fúslega viðurkennt að standa hefði mátt með nærgætnari hætti að tilkynningunni um nýtt leiguverð þegar hækkun var jafn mikil og raun bar vitni. Á því er beðist afsökunar. Um leið vil ég upplýsa að við höfum nú þegar brugðist við vegna þessara mistaka og umræðunnar sem skapaðist í kjölfarið. Við höfum endurskoðað verkferla okkar þannig að við munum héðan í frá setja hækkunum leiguverðs við endurnýjun samninga ákveðin mörk, bæta upplýsingagjöf okkar og samskipti við viðskiptavini og auka sveigjanleika þeirra leigutaka okkar sem vilja leita á önnur mið.

Samfélag okkar hefur byggt upp sterkt félagslegt kerfi til þess að tryggja þeim húsaskjól sem ekki ráða við ríkjandi markaðsaðstæður. Til staðar eru líka óhagnaðardrifin leigufélög sem njóta stuðnings ríkis og sveitarfélaga og geta því boðið húsnæði á lægra verði en ella. Alma starfar hins vegar á frjálsum markaði og þarf að vera á samkeppnishæfu verði samhliða því að grundvalla rekstur sinn á eðlilegri afkomu. Það hefur reynst erfiður línudans í því óstöðuga efnahagsumhverfi sem ríkt hefur á Íslandi um langt skeið.

Langstærsti hlutinn af leigumarkaði íbúðarhúsnæðis á Íslandi er í höndum einstaklinga og verðlagning þeirra ræðst af hinu einfalda lögmáli um framboð og eftirspurn. Sérstakar skyldur við leigutaka eru oftast litlar sem engar og búseturéttur leigjandans afar takmarkaður. Leiguumhverfinu fylgir þannig mikil og stöðug óvissa. Alma býður hins vegar upp á leigusamninga til allt að fimm ára á markaðskjörum. Það þýðir að leigutakar geta gengið að því vísu að raunverð leigunnar hækkar ekki á þeim tíma.

- Auglýsing -

Hlutverk fasteignafélaga á leigumarkaði er, og verður, að festa leiguúrræðin í sessi sem öruggan valkost þeirra sem af alls kyns ástæðum vilja ekki skuldsetja sig upp í rjáfur til þess að „eignast“ sitt eigið húsnæði. Það fólk á engu að síður að geta notið skjóls og skilnings, öryggis og áhyggjuleysis hvað heimili sitt varðar. Alma íbúðafélag leggur sitt lóð á þær vogarskálar af miklum metnaði. Enn þá erum við einungis með vel innan við 5% markaðshlutdeild á leigumarkaðnum en við höfum jafnt og þétt verið að fjölga leiguíbúðum okkar og auka þannig framboð. Það er bjargföst sannfæring mín að vönduð fasteignafélög á leigumarkaði séu með fagmennsku sinni dýrmætur hluti af framtíðarlausnum í húsnæðismálum þjóðarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -