Gunnar Smári Egilsson segir guðstrú holla manninum því þar sé hann ekki miðja alls.
Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson skrifaði nokkuð heimspekilega Facebook-færslu í gærkvöldi þar sem hann talar um guðstrúnna. Þar segir hann að kosturinn við þá trú sé sá að „innan hennar getur maðurinn ekki að verið miðja alls.“ Bætir hann við að það sé „manninum hollari staða að vera hluti af veröld sem snýst ekki um hann sjálfan.“
Segir Gunnar Smári að menn hafi svo snúið upp á þetta með því að skapa guð í eigin mynd, sem „skapar þeim sess til að horfa niður á alla aðra.“ En hann segir Jesú hafa svarað því: „Svar Jesú var þá að segja fólki að taka ætíð stöðu við hlið hins ofsótta, fátæka, veika og forsmáða. Það væri aðeins þaðan sem hægt væri að sjá veröldina eins og hún sannarlega er.“ Segir Gunnar Smári að feðgarnir Guð og Jesús séu að „bjarga manninum frá sjálfum sér, að skipa honum til tilvistarlegs sætis þar sem egó hans sviptir hann ekki vitinu“ en að fæstir sætti sig við það. „Það er hluti hins mannlega stands að finnast sinn harmur mestur, sín velsæld mikilvægust og sitt vit æðst. Þess vegna fullvissir Jesús fólk um að það muni stækka, ekki minnka, við að taka egóið sitt úr miðju heimsins. Þú verður meiri þú eftir því sem þú ert minna þú.“
Að lokum segir Gunnar Smári að til þess að taka það skref, þurfi fólk fyrst að trúa. „En til þess að taka það skref þarf fólk að treysta þessari söluræðu. Fólk þarf að trúa fyrst. Og þess vegna feta fáir þessa leið nema þeir sem lent hafa í tilvistarlegum háska, telja sig hafa reynt allt og sjá enga aðra leið út.“