Gunnar Smári Egilsson er ævareiður út í Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Ástæðan er sú að Sósíalistaforingjanum finnst hann vera að „sækja sér athygli út á harm annarra.“
Sósíalistaforinginn Gunnar Smári skrifaði stutta en harðorða færslu á síðu Sósíalistaflokksins á Facebook. Hlekkjar hann frétt mbl.is um viðbrögð heilbrigðisráðherra við fregnum af ópíóíðum faraldri sem nú geisar um landið en Mannlíf fjallaði ítarlega um faraldurinn í fyrra. Segir Gunnar að Willum láti sem faraldurinn sé nýr af nálinni en ekki búinn að vera í gangi í mörg ár.
„Eru engin takmörk fyrir ábyrgðarleysi ráðherra? Þessi faraldur hefur geisað árum saman, fíflalegt af Willum að láta sem hann hafi frétt af honum í gær. Hann hefur ekkert gert hingað til og mun ekkert gera í framtíðinni. Annað en að sækja sér smá athygli út á harm annarra. Skammarlegt,“ skrifar Gunnar Smári og er greinilega heitt í hamsi.