- Auglýsing -
Gústaf Níelson er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum. Í gær birti hann færslu þar sem hann biður Gísla Martein og Sigmar Guðmundsson um afsökunarbeiðni á því að tengja sig við umræðu rasískra ummæla Sigurðar Inga við framkvæmdarstjóra Bændasamtakanna.
„Komdu sæll Gísli Marteinn.
Eftir ábendingu horfði ég á hluta sjónvarpsþáttar þíns á RUV, Vikulokin, frá síðasta föstudegi. Þar bar á góma samskipti innviðaráðherra, Sigurðar Inga og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, þar sem borinn var á hann rasismi, vegna orðaskipta þeirra. Af einhverjum ástæðum tókst þér að blanda mér inn í þá umræðu, að ósekju. Þekkt er að Sigmar Guðmundsson, fv. fréttamaður og nú alþingismaður Viðreisnar, bar á mig í Kastljóssþætti í mars 2015 að ég væri kunnur af rasískum viðhorfum. Engin dæmi nefndi fréttamaðurinn þá fullyrðingu sinni til stuðnings og þú ekki heldur í þætti þínum.
Mín vegna má RUV pönkast á mér, sé það talið hafa eitthvert skammtanagildi, en mér er ekki skemmt. Ég er ekki opinber persóna á nokkurn mælikvarða, þótt ég taki þátt í þjóðmálaumræðunni á netmiðlum, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Ég er bara venjulegur eftirlaunamaður, sem annast mikið veika konu sína allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.
Mér finnst að þið Sigmar ættuð að biðja mig afsökunar á órökstuddum fullyrðingum ykkar, eða þá þora að taka umræðuna um hinn meinta rasisma minn. Ég get vel tekið sverð mitt úr slíðri og brugðið fyrir mig skildi. Háttsemi ykkar, sem RUV ber auðvitað ábyrgð á, er ekkert annað en einelti og óþokkaskapur.“
Kv. GN