Rannsókn á máli Gylfa Þórs Sigurðssonar er lokið og komið inn á borð Saksóknaraembættis bresku krúnunnar.
Fréttablaðið greinir frá því í dag að mál fyrrum fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem snéri að grun um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, sé komið inn á borð Saksóknaraembættis bresku krúnunnar en Gylfi var handtekinn í júlí árið 2021.
„Við fengum í hendurnar gögn frá lögreglunni á Greater Manchester svæðinu þann 31. janúar síðastliðinn í kjölfar rannsóknar hennar á ásökunum um ítrekuð kynferðisbrot. Við erum þessa stundina að leggja mat á gögnin í samræmi við okkar ferli,“ segir í svari talsmanns Saksóknaraembættis bresku krúnunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Nú er það svo í höndum saksóknaraembættisins að ákveða næstu skreft, þá hvort ákært verði í málinu eða það fellt niður. Segist embættið ekki geta sagt til um nákvæmlega hvenær næstu skref í málinu verða tekin. Þykir embættinu óskynsamlegt að tjá sig frekar á þessu stigi málsins.
Lögfræðingar saksóknaraembættisins verða að fylgja sér regluverki fyrir ríkissaksóknara er ákvörður er tekin um hvort ákæra skuli í sakamáli eður ei.
„Þetta þýðir að til að ákæra einhvern fyrir refsiverðan verknað verða saksóknarar að ganga úr skugga um að nægar sannanir séu fyrir hendi til að gefa raunhæfar líkur á sakfellingu og að ákæra sé í þágu almannahagsmuna,“ segir í svari saksóknaraembættisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Ekki vildi embættið svara því hversu margir hafi verið yfirheyrðir í málinu og vildi ekki tjá sig meira að svo búnu um það.
Málið hefur tekið gríðarlega langan tíma að rannsaka en Gylfi Þór hefur verið laus gegn tryggingu frá því fljótlega eftir handökuna þann 16. júlí 2021. Það fyrirkomulag hefur svo verið framlengt nokkrum sinnum.