Knattspyrpumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er kominn aftur heim til Íslands eftir tveggja ára farbann í Bretlandi. Mál gegn Gylfa var fellt niður í síðustu viku og Gylfi því frjáls ferða sinna. Gylfi Þór var handtekinn á heimili sínu í júlí árið 2021 vegna gruns um meint brot gegn ólögráða einstaklingi. Samkvæmt heimildum DV heimsótti Gylfi fyrst fjölskyldumeðlimi í öðru landi áður en hann hélt heim á ný.
Ekki er ljóst hvort fótboltaferill Gylfa sé búinn en árið 2015 sagði Gylfi í samtali við Viðskiptablaðið að hann ætlaði sér að flytja heim til Íslands og ljúka ferlinum með FH. „Fyrsta daginn eftir síðasta leikinn þá flyt ég strax til Íslands. Ég verð þá vonandi hálft ár á Íslandi og hálft ár erlendis,“sagði Gylfi Þór í fyrrnefndu viðtali. Þá sagðist hann sakna Íslands. „Já rosalega mikið. Þegar maður bjó á Íslandi gat maður ekki beðið eftir að flytja í burtu en þegar maður er búinn að vera úti í nokkur á þá langar manni að vera heima með fjölskyldunni. Maður þekkir allt og er núorðið smá túristi þegar maður kemur heim og fer upp á jökul og gerir svona hitt og þetta.“ Gylfi hefur enn ekki tjáð sig um málið síðan það var fellt niður í síðustu vikur.