Leikritaskáldið og rithöfundurinn Ólafur Haukur Símonarson skrifaði magnaða færslu á Facebook í gær, sem vakið hefur verðskuldaða athugli. Í færslunni hæðist hann miskunarlaust að íslensku krónunni og um leið þeim sem halda uppi vörnum fyrir henni. Setningar eins og: „Krónan er tákn þess að við látum ekki einhverja evrópulassaróna hafa vit fyrir okkur,“ og „Það er nú einu sinni þannig að útlendingar skilja ekki íslenska hagstjórn,“ má sjá í færslunni, sem í raun er hálfgert uppistand, á kostnað krónunnar. „Þá getur okkar dáði Seðlabanki nefnilega brugðist við, reist í snatri sirkustjaldið á Arnarhóli, og óðar birtist glæsileg fylking töframanna, kraftakarla og trúða úr sölum Alþingis til að halda sýningu á göldrum líkustum hæfileikum íslensku krónunnar fyrir þjóðina sem fyllir tjaldið,“ skrifar Ólafur Haukur en við færsluna birti hann mynd af sirkustjaldi. Á öðrum stað í færslunni skrifar hann: „Hvílíkt lán fyrir þjóðina að eiga þetta töframeðal! hrópar sirkusstjórinn og klórar sér í eldrauðu skegginu. Hugsið ykkur leiðindin ef lánin ykkar stökkbreyttust aldrei! Hvað yrði um manndóm þjóðarinnar ef hún þyrfti bara að borga íbúðina sína einu sinni!“
Þessa mögnuðu færslu má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
„Meirihluti Íslendinga „elskar“ krónuna af því að hún er til vitnis um sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfræði í peningamálum og hagstjórn. Krónan er tákn þess að við látum ekki einhverja evrópulassaróna hafa vit fyrir okkur. Það er nú einu sinni þannig að útlendingar skilja ekki íslenska hagstjórn. Verst fyrir þá. Þeir hafa einfaldlega ekki ímyndunarafl til að skilja þá möguleika sem krónan veitir til að víkja sér undan þegar allt fer í hass í heimsbúskapnum. Þá getur okkar dáði Seðlabanki nefnilega brugðist við, reist í snatri sirkustjaldið á Arnarhóli, og óðar birtist glæsileg fylking töframanna, kraftakarla og trúða úr sölum Alþingis til að halda sýningu á göldrum líkustum hæfileikum íslensku krónunnar fyrir þjóðina sem fyllir tjaldið.