Þorvaldur eldfjallafræðingur segir að gjósa muni fljótlega.
„Ég er ansi hræddur um að við séum komin nálægt því að fara í gos,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, í samtali við mbl.is. Reykjanes hefur nötrað í nokkrar vikur en tveir jarðskjálftar yfir 4 hafa mælst í dag og hafa margir haft áhyggjur af eldgosi. Þorvaldur segir að eldgos sé handan við hornið.
„Mér sýnist kvikan vera búin að ná upp á minna dýpi. Hún dreifir sér frá 4-5 kílómetrum og nánast til yfirborðs,“ og telur Þorvaldur að það gæti gosið í dag. „Klukkutíma til daga. Ég held við séum komin ansi nálægt þessu. Landrisið heldur áfram eins og allir geta séð.“
Þorvaldur hefur líka miklar áhyggjur af þessu mögulega eldgosi. „Kvikan í sjálfu sér verður örugglega eitthvað aðeins grófari. Þetta er kvika sem hefur safnast fyrir á aðeins grynnra dýpi. Til að komast upp á grynnra dýpi þarf hún að vera eðlisléttari. Þannig það má búast við að hún verði ekki eins rík í magnesíum. Verði eins og við köllum grófari, það þýðir að hún verði með meiri kvikugösum í sér.“