Tilkoma nýs vegar við Lögbergsbrekku hefur legið þungt á skólasamfélaginu í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum. Nýr vegur var opnaður á föstudaginn. Breytingin sem um ræðir hindrar vinstri beygju í átt til borgarinnar frá afleggjaranum að Lækjarbotnum. Skólayfirvöld og starfsfólk skólans hefur kvartað yfir að yfirvöld hafi ekki formlega tilkynnt breytinguna. Þá sé breytingin illa merkt og minnstu mátti muna að um stórslys hafi orðið en að minnsta kosti sjö bílar tóku vinstri beygju á móti umferð.
Skítaredding
Forsvarsmenn skólans kærðu skipulagsbreytingu Kópavogsbæjar í vor og voru framkvæmdir stöðvaðar um tíma. Þá segir Dagný Helga Ísleifsdóttir, starfsmaður og foreldri við Waldorfskólann í samtali við Mannlíf: „Gerður var hliðarvegur sem einhver skítaredding af því að það gleymdist að gera ráð fyrir aðgengi að skólanum þegar vegurinn var hannaður. Við erum að tala um skóla sem er búinn að vera staðsettur þarna á sama stað í rúm 30 ár! Það er ekki enn komið á hreint hverjir eiga að þjónusta þennan hliðarveg sem skólinn og íbúar svæðisins eiga að nota, ekki er heldur búið að malbika en það er samt búið að opna hann!“
Þá segir hún jafnframt að um helgina hafi ábúendur á svæðinu verið innlyksa þar sem hliðarvegurinn hafi ekki verið ruddur og að ekki sé vitað hver eigi að þjónusta hann.
12 kílómetrum lengri leið
Hin nýja breyting hefur í för með sér tólf kílómetra lengingu fyrir börn og starfsfólk á leið til borgarinnar frá Lækjarbotnum. Bifreiðarnar þurfa nú að beygja til hægri upp Lögbergsbrekku og snúa bílum sínum á plani Litlu-Kaffistofunnar til að halda til borgarinnar.
Stórslysahætta
Minnstu mátti muna að um stórslys hafi orðið á föstudaginn síðastliðinn þegar Björk Bjarnadóttir, kennari og foreldri við skólann var á leið heim eftir daginn. Björk tók vinstri beygju frá afleggjaranum í átt að borginni en merkingar Vegagerðarinnar voru illsjáanlegar í myrkrinu og veðurofsanum sem gekk yfir landið. Hún deildi reynslu sinni í fésbókarfærslu:
Dagný Helga Ísleifsdóttir, segir að lögreglu hafa verið tilkynnt um málið: „Lögreglan var ekki par sátt með þessi vinnubrögð, en þetta er mjög lýsandi fyrir virðingarleysið sem Kópavogsbær og Vegagerðin hafa sýnt skólanum í skipulagningu og framkvæmd á þessum vegarkafla. Við erum orðin langþreytt á þessu virðingarleysi sem börnunum okkar er sýnt af hálfu Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar.Við erum búin að vera að berjast fyrir því að það sé hlustað á okkur og að það sé tekið tillit til þess að þetta sé leikskóli, grunnskóli og vinnustaður fjölda fólks en við komumst ekki í gegn.“
Rúmlega 80 börn sækja grunnskólann, 20 börn eru í leikskólanum, kennarar og annað starfsfólk telja um 30 manns, þar eru 3 kennarabústaðir sem í búa um það bil 10 manns.
Svör Vegagerðarinnar
Mannlíf hafði samband við Vegagerðina og ræddi við Gísla Gíslason verkefnastjóra.
Honum hafði ekki borist til fregna um þau atvik sem áttu sér stað á föstudaginn síðastliðinn og imprar á að öflugar merkingar hafi verið settar upp við vegamótin sem útskýrðu að vinstri beygja væri bönnuð. Aðspurður hvort samtal hafi ekki átt sér stað á milli lögreglu og Vegagerðarinnar gat Gísli ekki svarað því og bendir á að þeir ökumenn sem lentu í vandræðum hafi ekki fylgt umferðareglum. Hann segir að breytingarnar hafi verið gerðar eftir klukkan 15.30 á föstudaginn, eftir samtal við skólann: „Við vorum beðnir um að gera það ekki fyrr því þá væru flestir farnir úr skólanum,“ og tekur jafnframt fram að hann viti ekki betur en að merkingarnar hafi verið komnar upp áður en opnunin hafi átt sér stað.
Inntur eftir því hvort gleymst hafi verið að gera ráð fyrir aðkomu að Lækjarbotnum svarar hann svo ekki vera en tvöföldun á Suðurlandsvegi hafi verið gerð í þágu umferðaröryggis og betra flæðis: „Við þessa tvöföldun var tekin af vinstri beygja frá Waldorfskóla til Reykjavíkur, til vesturs. Er sú beygja raunverulega alveg stórhættuleg beygja, þar sem menn þvera þarna tvær akreinar sem eru í austur,“ þá útskýrir hann aðstæður uppi á hábrekkunni svo að sjónlínur ökumanna séu mjög slæmar og þakka megi fyrir að ekki hafi orðið alvarleg slys á þessum tiltekna stað. „En við tökum af þessa beygju en samhliða byggjum við alveg sérstakan hliðarveg fyrir Waldorfsskóla. Hliðarveg sem liggur raunverulega með Suðurlandsveginum að sunnanverðu og ökumenn þar með farið að Waldorfskóla og frá,“. Hliðarvegurinn tengist við Geirland sem er staðsett fyrir neðan Lögbergsbrekkuna. Þá útskýrir hann að vegurinn sé opinn þeim sem að skólann sæki en bendir jafnframt á að aðkoma frá Reykjavík sé óbreytt og að hægt sé að aka upp Lögbergsbrekkuna og taka hægri beygju. Gísli vill því meina að framkvæmdin hafi verið bót að aðgengi fyrir skólann.
Fyrsta áfanga framkvæmdarinnar er lokið en fólgst hann í að fara Suðurlandsveginn frá Fossvöllum niður að Lögbergsbrekku og gera hliðarveginn sem tengir Waldorfskólann við Geirland. Annar áfangi er í framkvæmdarleyfisferli en fellst hann í að klára Geirlandsvegamótin.
Aðspurður svarar Gísli að hliðarvegurinn verði klæddur með bundnu slitlagi: „Okkur tókst ekki að klára það fyrir veturinn, en það verður gert um leið og veður leyfir,“.
Hver sér um að þjónusta veginn?
Samkvæmt Gísla er hliðarvegurinn svokallaður héraðsvegur sem þýðir að Vegagerðin á veginn og viðhald því í höndum hennar, en að vetrarþjónustan sé í höndum viðeigandi sveitarfélags eða landeiganda sem er í þessu tilviki Kópavogsbær.