Áhafnir hvalbátanna tveggja hafa alls skotið ellefu dýr á sex dögum en fjórar langreyðar veiddust í gær. Skipið Hvalur 8 kom til hafnar um hádegi í dag með tvær langreyðar en Hvalur 9 kom í nótt, einnig með tvær langreyðar. Fyrstu hvalirnir náðust á fimmtudaginn síðasta og hafa bæði Hvalur 8 og Hvalur 9 stoppað stutt þegar í land er komið.
Frá 22.júní til 28.september í fyrra veiddust 148 langreyðar en samkvæmt tölum Hagstofunnar má ætla að útflutningsverðmæti af frystum hvalaafurðum hafi numið tæpum þremur milljörðum króna á síðasta ári. Mótmælendur og náttúruverndasinnar hafa verið árberandi síðustu daga og birt meðal annars myndir sem þau telja sanna að Hvalur hf. fari ekki eftir reglum.