Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0 C
Reykjavik

Hafið gleypti Hólmaborgina með öllu: „Ég tel að þar hafi verið valinn maður í hverju rúmi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 30. janúar árið 1956 lagði Hólmaborgin SU-555 af stað með fjögurra manna áhöfn, frá Neskaupsstað á leið sinni til Skotlands þar sem setja átti nýja vél í skipið. Þann 2. febrúar barst neyðarboð frá skipinu til loftskeytastöðvarinnar í Þórshöfn í Færeyjum. Og síðan spurðist aldrei aftur til hennar.

Hólmaborg SU-555

Þann 1. apríl sama ár skrifaði Friðrik Steinsson pistil um slysið í Sjómannablaðinu Víkingur en fór hann meðal annars yfir mannkosti allra í áhöfn Hólmaborgarinnar:

Hinn 30. janúar síðastliðinn lagði m.b. Hólmaborg, Eskifirði, af stað frá Neskaupstað og var
ferðinni heitið til Peterhead á Skotlandi, en þar átti að setja nýja vél í skipið. 2. febrúar heyrði togarinn Austfirðingur í talstöð Hólmaborgar, sem þá var að kalla í loftskeytastöðina í Þórshöfn í Færeyjum. Þetta er  það síðasta, sem til Hólmaborgar hefur spurzt.

Eftir því, sem síðar fréttist hafði loftskeytastöðin í Þórshöfn ekki heyrt í skipinu. 8. febrúar var leit hafin. Tóku þátt í leitinni: togararnir Austfirðingur og Goðanes, tvö skip frá landhelgisgæzlunni, og tvö veðurathugunaskip. Flugvélar frá landhelgisgæzlunni, Keflavíkurflugvelli og brezkar flugvélar tóku mikinn og góðan þátt í þessari leit. Þá lögðu íslenzkar farþegaflugvélar, er fóru á milli landa, lykkju á leið sína til að huga að skipinu. Skipulögð leit stóð í átta daga, en þó var talsvert leitað eftir það. Mun leitin að Hólmaborg vera einhver sú víðtækasta, sem gerð hefur verið til að leita að íslenzku skipi. Leitin bar ekki árangur, þrátt fyrir að góð leitarskilyrði voru flesta dagana, sem leitað var. Aðstandendur þeirra, sem á Hólmaborg voru, hafa beðið að koma á framfæri þökk til Slysavarnafélags Islands fyrir ágæta forgöngu um leitina og til allra þeirra, er þátt tóku í henni.

Hólmaborg var smíðuð í Svíþjóð árið 1946 og var 92 smálestir að stærð. Eigandi var
Hólmaborg h.f., Eskifirði. Fyrir skömmu varð breyting á hlutaeign í félaginu þannig, að nú
var skipstjórinn, Jens Jensen, aðaleigandi og útgerðarstjóri. Jens hafði verið skipstjóri á
Hólmaborg allan tímann frá því skipið kom til landsins.

 

- Auglýsing -
Jens skipstjóri

Á Hólmaborg voru fjórir menn. M.b. Hólmaborg. Skipstjórinn hét fullu nafni Jens Pétur Thorberg. Hann var fæddur í Reykjarfirði 23. sept. 1908, sonur Þórunnar Markúsdóttur og Vilhelms Péturs Jensen, er þá rak verzlun á Reykjarfirði. Skömmu eftir að Jens fæddist, fluttust foreldrar hans til Eskifjarðar, en þar rak faðir hans verzlun og útgerð um árabil. Þórunn er látin fyrir nokkrum árum, en Vilhelm Jensen rekur heildsölu í Reykjavík. Árið 1934 kvæntist Jens eftirlifandi konu sinni Önnu Finnbogadóttur skipstjóra Jónssonar á Fáskrúðsfirði. Þeim varð sex barna auðið, tvö börn misstu þau ung, en þrjú eru á lífi, fjórtán, níu og fjögra ára. Jens Jensen, eins og hann var oftast nefndur, gerðist snemma formaður, tók þá smáskipapróf, en síðar, árið 1946, tók hann fiskiskipapróf við Stýrimannaskólann.

— Jens var hversdagslega hlédrægur og dulur í skapi, en hafði þó næmt auga og eyra fyrir því, sem broslegt var. Hann var gæddur ríkri listhneigð. Á bernsku- og unglingsárum fékkst hann talsvert við að mála, en hætti því, er hann varð fulltíða maður. Hann hafði óvenju fallega söngrödd, en beitti henni ekki hversdagslega. Listhneigðin gat verið kynfylgja úr báðum ættum. Hann var þéttur á velli og þéttur í lund.

Herbert Þórðarson, er var stýrimaður á Hólmaborg þessa ferð, var fæddur í Norðfirði (síðar Neskaupstað) 8. sept. árið 1913. Sonur Stefaníu Ármannsdóttur og Þórðar Björnssonar skipstjóra þar. Stefanía er látin fyrir nokkrum árum, en Þórðar er búsettur í Neskaupstað. Herbert kvæntist árið 1938 Sigríði Sigurðardóttur skipstjóra Jónssonar í Neskaupstað. Lætur eftir sig konu og eitt kjörbarn, 13 ára dreng. Hann lauk fiskimannaprófi úr Stýrimannaskólanum árið 1938. Hertbert hefur starfað í Neskaupstað eða á bátum þaðan mestallan sinn starfsdag. Hann flutti ísvarinn fisk til Englands öll stríðsárin. Sigldu þeir oftast á sama skipi, hann og Þórður faðir hans. Það var því engin nýjung fyrir Herbert að koma til Englands, enda ætlaði hann heim aftur með fyrstu flugferð. Herbert fékkst meðal annars talsvert við kennslu í siglingafræði. Veitti forstöðu nokkur undanfarin ár námskeiði í siglingafræði á vegum Stýrimannaskólans. Herbert var mesta ljúfmenni í umgengni, glaðlyndur og góður félagi. Efalaust finna margir sveitungar hans og reyndar fleiri, að þeir eiga nú á bak að sjá traustum manni og góðum vini.

- Auglýsing -

Vilhelm Pétur Jensen, vélstjóri, var fæddur á Eskifirði 7. sept. árið 1935, sonur skipstjórans og önnu konu hans. Hann var kvæntur Margréti Gunnarsdóttur vélstjóra Hallgrímssonar á Eskifirði. — Vilhelm þekkti ég minnst þeirra manna, er voru á Hólmaborg, en mér er tjáð, að hann hafi verið mesti efnismaður. Hann lætur eftir sig unga konu og tvö kornung börn.

Sigurður Jónsson var fjórði maðurinn á Hólmaborg. Hann var fæddur á Eskifirði 28. sept. 1909, sonur Margrétar Pálsdóttur og Jónasar Jónssonar, er lengi var rafstöðvarstjóri á Eskifirði og er nýlega látinn. — Sigurður er fimmta barnið uppkomið, sem Margrét sér á bak, en nú hefur hún misst sjö börn sín af ellefu, en mér er sagt, að enn hafi hún reynzt sama hetjan og áður undir svipuðum kringumstæðum. Þá má geta þess, að Margrét, ekkja Vilhelms vélstjóra, er dótturdóttir hennar og uppeldisdóttir og býr hjá ömmu sinni með bæði ungu börnin sín. Árið 1933 kvæntist Sigurður Ingigerði Benediktsdóttur, ættaðri úr Húnavatnssýslu. Lifir hún mann sinn, ásamt sex börnum þeirra, þar af tvö innan 10 ára aldurs. Sigurður var hættur sjómennsku fyrir 9 árum. Ætlaði aðeins að bregða sér til Skotlands þessa ferð og hafði pantað far heim aftur með fyrstu flugferð. Á síðustu árum vann hann við vegagerð ríkisins, stjórnaði jarðýtu. Þegar ég var á ferð á Austurlandi á síðasta sumri og fór um nýlagða vegi, heyrði ég borið á hann mikið lof fyrir dugnað og hagsýni í starfi. Þau hrósyrði komu mér engan veginn á óvart eftir þau kynni, er ég hafði haft af Sigurði fyrr á árum. Þeir Jens og Sigurður voru báðir með mér á sjó, er þeir voru ungir. Reyndust þeir röskir menn og vandaðir og ágætir drengir. Þegar skip hverfa með svipuðum hætti og Hólmaborg nú, koma venjulega fram ýmsar ágizkanir um hvað slysinu hafi valdið. Oftast eru menn jafnær eftir slíkar bollaleggingar. Ég vil þó láta það persónulega álit mitt í ljós, að það, hve fáir skipverjar voru, hafi ekki átt þátt í þessu slysi. Ég tel að þar hafi verið valinn maður í hverju rúmi. Eftirlifandi vandamönnum sendi ég fyllstu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning áhafnarinnar á Hólmaborginni SU-555

Góðar minningar um þá förnu er bezta huggunin, sé vel að gáð.
Friðrik Steinsson.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst hjá Mannlífi 21. mars árið 2022.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -