Hafsteini nokkrum blöskraði mjög verðlagið á Íslenskum Ora-vörum í Hagkaup um helgina. Hann langaði til að kaupa sér súrar agúrkur en tók þá eftir því að innfluttar slíkar kosta 620 prósentum minna en Ora-dósin.
Hafsteinn segir frá upplifun sinni í fjölmennu samfélagi á Facebook, Vertu á verði – eftirlit með verðlagi. Hann bendir þá á himinhátt kílóverð á íslensku afurðinni í samanburði við þá erlendu.
„Hvernig túlkið þið þetta? ORA 2636 krónur kg. EUROSHOPER 425 krónur kg.“
Fjölmargir meðlimir tjá sig undir færsluna. Margir réttlæta verðmuninn með því að benda á að íslenska varan sé mun betri en sú erlenda. Ásdís er til að mynda ein þeirra. „Það er bara ekki hægt að líkja þessu saman! Ora 100× betra, segir Ásdís. Og Áslaug virðist á sama máli. „Kaupir einhver þessar ógeðslegu Euroshopper vörur?,“ spyr hún.
Ninja kemur líka til bjargar Ora. „Þessar gúrkur eru sannarlega framleiddar á íslandi og þessi framleiðsla er handgerð þar sem þeir eru ekki með vélbúnað í svona framleiðslu. Þeir hafa reynt að hætta með þessa vöru oftar en einu sinni en fólk verður svo sárt út í þá af því að þetta er svo mikill hluti af jólahefðinni og þessu er eingöngu haldið áfram vegna þessara viðskiptavina sem sækja það svo fast að fá þessa vöru svona. Ora er með verksmiðju í Kópavogi og framleiðir stærstan hluta af vörunum þar, allt annað er bara rógburður,“ segir Ninja ákveðin.
En Ívar lætur ekki bjóða sér þetta. „Íslensk framleiðsla er ekki samkeppnisfær í svo mörgum tilfellum. Góður neytandi kaupir ódýrari krukkuna.“
Guðjón stingur upp á aðferð fyrir alla þá sem rökstyðja verðmuninn með Ora-gæðum. „Ég á labrador hund. Einu sinni keypti ég rándýrt korn handa honum, sem honum þótti mjög gott! Næst keypti ég það ódýrasta í Costko, hann var tregur í það, horfði á mig stórum augum. Þá setti ég Costco kornið í pokann utan af þessu dýra, þá hámaði hann það í sig. Hvernig væri fyrir Ora fólkið að prufa þessa aðferð?,“ spyr Guðjón.