Halla Haraldsdóttir gler- og myndlistarkona, sem kölluð var Halla Har, lést á Landspítalanum í Fossvogi 23. nóvember. Hún var 89 ára.
Halla fæddist 1. nóvember 1934 á Siglufirði og ólst þar upp en foreldrar hennar voru Guðrún Brynjólfsdóttir og Haraldur Sölvason.
Átti hún langan og afar farsælan feril sem gler- og myndlistakona en hún var einstaklega iðin við list sína. Halla Har nam við Handíða- og myndlistarskóla Íslands en listmálarinn Erró var hennar aðalkennari þar. Um tíma bjó hún í Danmörku hvar hún vann með hinum fræga danska listamanni S. Edsberg.
Fram kemur í andlátstilkynningu Mbl.is að Halla hafi þróað fyrsta bréf-mósaíkverk sitt, undir handleiðslu Errós en þar málaði hún pappír í mismunandi litum og reif svo niður í litla búta. Tækni þessi í listsköpun var einstök og varð vörumerki Höllu.
Þá komst Halla Har á blað íslenskrar listasögu er hún hélt, fyrst kvenna, einkasýningu á Kjarvalsstöðum 1975. Þá var hún einnig fyrsta konan sem hélt einkasýningu á Suðurnesjum og var fyrst kvenna kosin bæjarlistamaður Keflavíkur.
Halla var afar stórvirkur listamaður en listaverk hennar prýða fjölmargar kirkjur landsins. Var hún jafnvíg á gler- og myndlist en víða má finna listaverk hennar á einkaheimilum sem og á opinberum stöðum.
Eiginmaður Höllu var Hjálmar Stefánsson, útibússtjóri Landsbankans í Sandgerði en þau eignuðust þrjá syni, þá Harald Gunnar hljómlistarmann, Þórarinn flugstjóra og Stefán lækni, sem nú er látinn. Afkomendur Höllu og Hjálmars eru 16 talsins.