Sunnudagur 27. október, 2024
1.4 C
Reykjavik

Halla Tómasdóttir tekin við sem forseti Íslands

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Halla Tómasdóttir er tekin við embætti forseta Íslands og er því sjöundi forseti Íslands og hún tekur við embættinu af Guðna Th. Jóhannessyni en gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Halla er önnur konan sem er forseti Íslands en sú fyrsta var Vigdís Finnbogadóttir en hún var kosin forseti Íslands árið 1980.

Hægt er að lesa innsetningarræðu Höllu hér fyrir neðan:

Góðir Íslendingar.

Ég stend hér í dag með hjartað fullt af þakklæti fyrir það traust sem mér – og
okkur hjónum – hefur verið sýnt og þann stuðning sem við höfum notið um allt
land.

Ég er þakklát foreldrum mínum sem gáfu mér gott veganesti út í lífið og
þakklát kjarkmiklu konunum sem sýndu mér ungri að aldri að með hugrekki og
samtakamætti getum við hreyft við samfélaginu og leitt framfarir.

Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst hér á landi – fyrir að fá að vera
Íslendingur, sem í dag er öfundsvert hlutskipti, þótt það hafi ekki alltaf verið svo
í gegnum aldirnar.

- Auglýsing -

Ég þakka gengnum kynslóðum sem með einmuna seiglu ekki aðeins héldu
landinu í byggð heldur sköpuðu einstakan menningararf sem við Íslendingar
megum vera afar stolt af.

Ég þakka öllum sem lagt hafa grunninn að því sem við njótum í dag í einu
mesta velferðarríki heims.

Mér er ljós sú mikla ábyrgð sem ég tekst á hendur og mun leggja mig alla
fram um að vinna landi og þjóð það gagn sem ég má. Ég veit að ég byggi á
traustum grunni þeirra sem á undan fóru og minnist með virðingu Sveins
Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar og Kristjáns Eldjárns. Þá er heiður að mega
persónulega þakka Vigdísi Finnbogadóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni og Guðna
Th. Jóhannessyni fyrir þeirra forsetatíð og framlag í þágu þjóðarinnar.
Nú þegar ég vinn drengskaparheit að íslensku stjórnarskránni eru aðeins
áttatíu ár liðin frá stofnun lýðveldisins. Áttatíu ár eru um það bil einn
mannsaldur. Hvað hefur áunnist á þessum tíma? Höfum við gengið til góðs,
götuna fram eftir veg?

- Auglýsing -

Íslendingar eru þrefalt fleiri nú en þá, og allar aðstæður eru gjörbreyttar:
Menntun, efnahagur, heilbrigðisþjónusta, samgöngur, samsetning þjóðar,
atvinnulífið, þjóðartekjur. Við, sem vorum ein fátækasta þjóð Norður Evrópu
erum nú meðal ríkustu þjóða heims. Það hefur orðið umbylting á einungis áttatíu
árum – og því er vert að spyrja á þessum tímamótum, hvert viljum við stefna, já
og hvar viljum við vera stödd, bæði í náinni framtíð en jafnvel líka að áttatíu
árum liðnum?

Það kom vel í ljós á ferðum okkar hjóna um landið í vor hversu annt
Íslendingum er um landið sitt og tungumál og hversu stolt við erum af afrekum
okkar og þjóðararfi.

Það var sérstaklega gleðilegt að sjá að nýsköpunarumhverfið hefur tekið
stakkaskiptum víða um land. Sjálfbær þróun matvæla skilar fjölbreyttum og
gómsætum vörum sem áður fengust bara innfluttar, fullnýting sjávarafurða gerir
að verkum að áður verðlaus úrgangur er orðinn að dýrmætri vöru, framþróun í
hugbúnaðargerð haslar sér völl án landamæra og í menningartengdri
ferðaþjónustu virðast tækifærin óþrjótandi.

Við eigum að halda áfram að byggja á styrkleikum okkar, virkja
sköpunargáfuna og vanda til verka. Við eigum óhrædd að hvetja kappsfullt
hæfileikafólk til dáða og ekki gera lítið úr dýrmætum skóla mistakanna. Sár
reynsla getur og hefur styrkt okkur.

Sköpunarkraftur Íslendinga er líklega hvað sterkastur í listum, og þar
hefur stjarna bókmenntanna lengi skinið skærast. En nú bætist hver listgreinin
við af annarri – tónlist, sjónrænar listir, myndlist, leiklist, sviðslistir og
kvikmyndagerð blómstra og sýna hvaða árangurs má vænta ef hlúð er að
vaxtarsprotum með menntun og öðrum stuðningi. Það er löngu ljóst að
listgreinar auðga ekki aðeins andann, heldur gegna þær mikilvægu hlutverki
þjóðhagslega.

Hvert á land sem við hjónin komum voru íþróttavellir og víðast
íþróttahús. Íþróttir gegna ómetanlegu hlutverki fyrir heilbrigði einstaklinga og
samfélags. Heilbrigð sál í hraustum líkama, segir máltækið. Ekki bara það, því
fátt sameinar okkar þjóð eins og þegar afreksfólkið okkar keppir á alþjóðlegum
stórmótum. Er skemmst að minnast frábærrar frammistöðu íslenska
kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem er nú á leið í lokakeppni Evrópumótsins á
næsta ári. Og einmitt þessa dagana keppa glæsilegir fulltrúar lands og þjóðar á
Ólympíuleikunum í París. Við sendum þeim heillakveðjur! Og við hjónin
hlökkum til að fylgja íslenskum keppendum á Ólympíuleika fatlaðra í lok
mánaðar.

Við höfum mörgu að fagna en þurfum jafnframt að mæta áskorunum. Það
horfir ófriðlega í heiminum og harka færist í samskipti innan þjóða og milli
þjóða. Mikilvæg mannréttindi, sem áunnist hafa með langri baráttu, eiga nú
undir högg að sækja. Fólki hættir til að skipa sér í skotgrafir – í andstæðar
fylkingar. Svo læst er það sumt í afstöðu sinni að það heyrir ekki hvert í öðru.
Einn alvarlegasti fylgifiskur þess er að traustið, mikilvægasti grunnur mannlegs
samfélags, fer þverrandi.

Um allan hinn vestræna heim hafa yfirvöld, fjármálastofnanir, fyrirtæki,
fjölmiðlar og stjórnkerfi misst tiltrú almennings. Þótt flest sinni störfum sínum
af heilindum, þá hafa þau, sem ekki reynast traustsins verð, valdið skaða.
Reynsla og rannsóknir sýna að minnkað traust veldur sinnuleysi meðal
kjósenda. Fólki, og þá sérstaklega ungu fólki, finnst ekki taka því að kjósa,

finnst að það breyti engu. Það finnur jafnvel ekki tilgang í því að taka þátt í
samfélaginu. Sífellt fleiri heillast af málflutningi þeirra sem bjóða einfaldar og
oft öfgakenndar lausnir.

Við megum ekki sýna andvaraleysi í þessum efnum og nú bætist það við
að tæknin gerir kleift að falsa bæði hljóð og mynd – svo nær ómögulegt verður
að greina sannar fréttir frá fölsuðum. Hverju og hverjum er þá óhætt að trúa?
Hvað verður um traustið? Tækniþróunin verður ekki stöðvuð en grandaleysi á
þessu sviði getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög og þróun lýðræðis.
Mér hefur orðið tíðrætt um andlega og samfélagslega heilsu. Ég get
ómögulega aðskilið þetta tvennt, því andleg vanlíðan dregur mátt úr fólki og
leggur þungan toll á samfélagið. Því miður fer einmanaleiki vaxandi hjá ungum
sem eldri. Margir dvelja lengur í rafheimum en raunheimum. Kvíði, þunglyndi,
neysla og sjálfsskaði hafa aukist stórlega á skömmum tíma. Hvernig má það
vera að ein hamingjusamasta þjóð í heimi skipi sér jafnframt í fremstu röð hvað
þessa ískyggilegu þróun varðar?

Páll Skúlason heimspekingur ritaði eitt sinn:
Getum við þá ekkert gert til að vera hamingjusöm? Öðru nær: við getum
verið opin fyrir hamingjunni með því að einbeita okkur að því sem gefur
lífinu gildi. Og við vitum hvað það er með því að veita því eftirtekt sem
glæðir lífið birtu og hlýju.

Við getum og við verðum að bæta andlega og samfélagslega heilsu. Ég
vonast til að leggja mitt af mörkum við að ráðast að rótum vandans í góðri
samvinnu við stjórnvöld, fræðimenn, heilbrigðisstarfsfólk, félagasamtök,
fjölmiðla og ekki síst kennara og foreldra. Á umbreytingatímum eru samtal og
samstarf kynslóða og ólíkra hópa samfélagsins lykillinn að því að hér ríki
jafnrétti milli kynslóða og samfélagsleg sátt. Það er því mikilvægt að unga
fólkið fái sæti við borðið, fái alvöru aðkomu að því að móta sína framtíð og njóti
þar reynslu og visku eldra fólks.

Á svona tímum er nauðsynlegt að staldra við og íhuga hver við viljum
vera, hvert við viljum stefna og hvernig við getum styrkt traust milli manna.
Hvert viljum við beina íslenska lýðveldinu næstu 80 árin? Við þurfum að átta
okkur á því og stilla okkur af. Því hvert stefnir þjóðarskúta með illa stilltan
áttavita og veikan samfélagssáttmála?

Í mínum störfum hef ég farið fyrir nýrri nálgun að úrlausn áskorana og
dregið af því lærdóm. Reynslan hefur kennt mér að farsælast er að kalla ólíka
saman, spyrja spurninga og hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Fá fólk til að greina og
skilja vandann og sóknarfærin – og sníða lausnir sameiginlega. Þegar traust er
lítið þurfa stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt að koma saman með nýjum
hætti, vinna saman að framtíðarsýn á sameiginlegum grunni þjóðarinnar. Það er meira framboð en eftirspurn eftir þeim sem þykjast eiga öll svör, en þjóðin sjálf,
ekki síst unga kynslóðin, sættir sig ekki lengur við að fá ekki að svara til um sína
framtíð.

Höfum við hugrekki til að fara nýjar leiðir? Getum við, íslenskt samfélag,
valið mýktina, talað saman, unnið saman þvert á kynslóðir og ólíkar skoðanir og
stillt kompásinn þannig að við villumst síður af leið? Valið samstöðu fremur en
sundrungu? Spurt stórra spurninga og leitað svara með þjóðinni? Sú nálgun sem
við veljum nú ræður miklu um hvernig íslenska lýðveldinu farnast næstu áttatíu
ár. Hvaða veruleiki bíður barna okkar og barnabarna?

Ekkert eitt okkar hefur svörin við þeim fjölbreyttu áskorunum sem við
blasa. En ég mun sem forseti hvetja okkur til að spyrja spurninga og eiga
uppbyggilegt samtal og samstarf svo móta megi hvert við viljum halda og hvaða
grunnstef skuli varða þá vegferð. Þannig trúi ég að við finnum svörin, saman, og
getum tekist af íslenskri seiglu og í samheldni á við hverja þá áskorun sem breytt
heimsmynd og staða samfélagsins kallar á.

Ég er sannfærð um að Ísland og Íslendingar hafa mikilvægu hlutverki að
gegna í heimi í vanda. Ég hef trú á styrkleikum okkar og veit að við getum
áfram byggt á þeirri sérstöðu sem við höfum þegar skapað okkur á sviði
jafnréttis og jarðvarma, í listum, íþróttum og í lýðræðislegri þróun samfélags
sem setur mannréttindi á oddinn. Ég tel styrk okkar ekki síst felast í smæðinni
og – í mýktinni. Smá, en kná og kjarkmikil þjóð sem hefur visku og metnað til
að velja mýkri leiðir í hörðum heimi. Ég trúi því að við getum valið að vera
friðsæl þjóð sem nýtur velsældar og réttir jafnframt hlýja hönd til þeirra sem á
þurfa að halda. Þannig getum við verið öðrum góð fyrirmynd og ljós í því
myrkri sem víða ríkir.

Kæru landar, það val byrjar hjá hverjum og einum. Hver ætlum við að
vera og hvað veljum við að gera á tímum þegar svo margir velja átök og árásir á
þá sem ekki eru þeim sammála? Mætum við hvert öðru með opnum hug og
hjarta, tilbúin til að hlusta og leggja okkur fram um að skilja ólík sjónarmið,
ólíka lífsreynslu og sýn? Sannleikurinn er sá að það að velja að hlusta, að
einsetja sér að reyna að skilja hvaðan aðrir koma, krefst kjarks og reynir meira á
okkur til skemmri tíma en að loka og fara í vörn. Höfum við kjarkinn sem þarf
til að velja mennsku og frið í eigin ranni og mynda þannig jarðveg fyrir
samfélag þar sem flestum er fært að blómstra á sínum forsendum? Ég vil að við
stefnum þangað. Virkjum getu okkar til að skapa slíkt samfélag, saman, fyrir og
með næstu kynslóð. Ég veit að við getum það!

Ísland er einstakt land og við erum skapandi þjóð sem leitar nú svara við
mörgum áleitnum spurningum. Ég hlakka til að vinna með ykkur af metnaði að
bjartri framtíð okkar lýðveldis og geri ljóð Hólmfríðar Sigurðardóttur, Leitum,
að mínum lokaorðum:

Leitum úrræða
látum hendur og orð
fallast í faðma
leitum gleðinnar
í ljóðinu
finnum frelsið
í höndunum
leitum regnbogans
finnum ljósberann
leitum láns
finnum það leika um líf
lands vatns og ljóss.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -