Halldóra Baldursdóttir lýsir yfir vonbrigðum með að Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, skuli fá ráðgjafastarf hjá dómsmálaráðuneytinu. Halldóra hefur sem kunnugt er gagnrýnt embætti ríkislögreglustjóra harðlega fyrir að hafa ekki leyst lögreglumann, sem dóttir hennar kærði fyrir að hafa brotið gegn sér á barnsaldri, undan vinnuskyldu á meðan málið var rannsakað.
„Mín fyrstu viðbrögð eru vonbrigði. Ég vonaðist til að tími Haraldar Johannessen, hvað viðkæmi lögreglumálum, væri liðinn.“
Þetta segir Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, sem kærði lögreglumann fyrir að hafa brotið gegn sér á barnsaldri. Halldóra hefur gagnrýnt embættið harðlega á meðan Haraldur gegnir stöðu ríkislögreglustjóra fyrir þá sök að maðurinn sem var kærður fyrir að brjóta kynferðislega gegn dóttur hennar skuli ekki hafa verið leystur undan vinnuskyldu á meðan málið var rannsakað. Mannlíf hefur fjallað ítarlega um málið allt frá árinu 2018, en umræddur maður starfar enn innan lögreglunnar.
„Hann hefur gegnt starfi sem æðsti yfirmaður lögreglumála í 22 ár og ber þ.a.l. ábyrgð á innra eftirliti lögreglumála í landinu,“ segir Halldóra um Harald Johannessen. „Það er á hans vakt og á hans ábyrgð, að mínu mati, að lögreglumaður sem í þrígang hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum starfar enn innan lögreglunnar. Lögreglumaður sem almenningi er enn þann dag í dag sagt að segja börnunum sínum að treysta.“
„Haraldur hafði ekki kjark og þor til að standa með þessum þremur litlu stúlkum og gefa þannig tóninn til sinna manna að það væri ólíðandi að starfandi lögreglumenn fengju á sig kynferðisbrotakærur í þrígang.“
Í viðtali í Mannlíf í júní árið 2017 greindi Halldóra frá því að árið 2007 hafi dóttur hennar, Helgu Elínu sem þá var tíu ára gömul, verið boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, Kiönu Sif Limehouse, móður hennar og stjúpföður. Í kjölfar þessarar ferðar urðu breytingar á hegðun Helgu Elínar, en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar. Þar kom í ljós að dóttir hennar hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður.
Málið var strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst, en um það bil einu ári eftir að málið var kært var það fellt niður og gerir Halldóra ýmsar athugasemdir við rannsókn málsins. Meðal annars að sakborningur, sem var starfandi lögreglumaður, hafi ekki verið leystur frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð eins og áður segir. Þá hafi hann á þessum tíma verið kærður fyrir brot gegn annarri stúlku og nokkru síðar gegn þriðju stúlkunni. Málin þrjú hafi ekki verið rannsökuð saman og maðurinn starfað áfram sem lögreglumaður meðan á öllum þessum rannsóknum stóð.
Þegar málið kom upp á sínum tíma segist Halldóra hafa sent póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem vísaði erindinu á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. „Sem algerlega brást okkur að mínu mati og vildi ekkert fyrir okkur gera,“ sagði Halldóra í fyrrnefndu viðtali í Mannlíf frá því í fyrra. „Mér datt nú stundum í hug lagið góða „Ekki benda á mig“ þegar ég var í samskiptum við þá. Það þarf virkilega að skoða hvernig lögreglan tekur á kynferðisbrotamálum ef sakborningurinn er lögreglumaður.“
Haraldur hefur hafnað fullyrðingu Halldóru um að hann hafi brugðist dóttur hennar Helgu Elínu og í framhaldinu birti ríkislögreglustjóri yfirlýsingar á heimasíðu embættisins, hér og hér, þar sem hann hafnaði þessum „ásökunum“ sem fram komu í viðtalinu. Sendi Halldóra bréf á Umboðsmann Alþingis vegna framgöngu ríkislögreglustjóra í málinu og óskaði eftir að ríkislögreglustjóra yrði gert að fjarlægja þessar tilkynningar á vef embættisins, þar sem alla jöfnu eru tilkynnt váleg tíðindi sem eiga erindi við almenning og varað er við brotum eða brotamönnum. Ennfremur að honum yrði gert að biðja þær mæðgurnar afsökunar á ummælum sínum.
Í svari þáverandi Innanríkisráðuneytis við bréfi frá Halldóru Baldursdóttur, sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum og er dagsett 8. júní 2012, kemur hins vegar fram að það hafi verið á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita umræddum lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Nefnd um eftirlit með lögreglu komst að svipaðri niðurstöðu en það var mat hennar að ríkislögreglustjóri hefði getað vikið lögreglumanninum tímabundið frá störfum.
„Hafði ekki kjark og þor til að standa með þessum þremur litlu stúlkum“
„Hann ber ábyrgð á að hafa ekki aðhafst neitt í máli dóttur minnar sem m.a. varð til þess að dóttir mín gat aldrei hringt eftir aðstoð lögreglu hafi tilefni verið til, þegar hún var barn. Mörgum árum síðar mætir lögreglumaðurinn á heimilið okkar til að rannsaka mál,“ segir Halldóra nú, í ljósi nýjustu tíðinda og vísar þar til atviks sem kom upp árið 2018 á heimili hennar en það varð til þess að hún þurfti að óska eftir aðstoð lögreglu. Kallaður var út rannsóknarlögreglumaður á bakvakt til að taka skýrslu og mætti þá lögreglumaðurinn sem Helga Elín, dóttir Halldóru hafði áður kært.
„Í stað þess að hann sé látinn hætta afskiptum af lögreglumálum í landinu sökum vantrausts þá fær hann sjálfkrafa ráðgjafastarf hjá dómsmálaráðherra.“
„Haraldur hafði ekki kjark og þor til að standa með þessum þremur litlu stúlkum og gefa þannig tóninn til sinna manna að það væri ólíðandi að starfandi lögreglumenn fengju á sig kynferðisbrotakærur í þrígang. Í stað þess að hann sé látinn hætta afskiptum af lögreglumálum í landinu sökum vantrausts þá fær hann sjálfkrafa ráðgjafastarf hjá dómsmálaráðuneytinu.“