Meirihluti bæjarstjórnar í Hveragerði mun leggja fram tillögu á næsta bæjarstjórnarfundi að Geir Sveinsson verði ráðinn sem bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og mun hann hefja störf í upphafi ágústmánaðar.
Geir Sveinsson er landsmönnum þekktur sem einn af landsliðsmönnum Íslands í handbolta og þjálfari. Geir er 56 ára og er með MBA próf frá Háskóla Íslands auk menntunar á markaðssetningu á netinu og meistaragráðu í þjálfun. Síðustu ár hefur hann verið sjálfstætt starfandi.
Í tilkynningunni sem birtist á vefsíðu Hveragerðis segir Sandra Sigurðardóttir, formaður bæjarráðs: „Þetta var erfitt val og margar umsóknir mjög góðar en við erum afskaplega ánægð með ráðninguna. Að öllum umsækjendum ólöstuðum þá hefur Geir þá kosti sem við leituðum að í fari bæjarstjóra. Geir hefur sýnt það og sannað að hann er leiðtogi, markmiðadrifinn en umfram allt hefur hann sterka sýn og mikinn metnað. Við erum ákaflega spennt að takast á við verkefnin sem bíða okkar með Geir í brúnni.“
Geir Sveinsson segir: „Ég er nýjum meirihluta Hveragerðisbæjar mjög þakklátur fyrir það traust og tækifæri sem mér hefur verið sýnt. Ég mun í góðu samstarfi við alla bæjarfulltrúa og starfsfólk Hveragerðisbæjar leggja mig allan fram við að gera góðan bæ enn betri. Tækifærin eru fjölmörg og spennandi tímar framundan í ört vaxandi og kraftmiklu sveitarfélagi sem Hveragerðisbær er.“