Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Handboltastjarna sem þarfnast orkudrykkja: „Klæði upp og niður eftir þörfum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hafdís Shizuka Iura er 29 ára Íslendingur, Japani og Þjóðverji. Hafdís er grunnskólakennari við Álftamýrarskóla og handboltaleikmaður með Víkingi. Hafdís er í sambúð með Andra Þór Helgasyni, handboltamanni, saman eiga þau Sól Akari og bónusbarnið Elmu Láru og búa þau saman í Fossvoginum. Handbolti er stór hluti af hennar lífi en hún hefur æft handbolta frá sex ára aldri og þjálfað frá 19 ára aldri. Hafdís er uppalinn Framari sem segist vera með blátt hjarta. Hafdís er neytandi vikunnar.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu? 

Já geri það sérstaklega með nauðsynjavörur eins og matvörur. Versla oftast í Bónus en fer svo í Krónuna ef mig vantar eitthvað sem fæst einungis þar. Ég er síðan svakalega metnaðarfull í að finna besta verðið á öðrum vörum og þjónustu sem ég kaupi og get eytt alltof löngum tíma í að flakka á milli vefsíðna. En það borgar sig alltaf að lokum og hefur sparað mér marga þúsundkalla í gegnum tíðina. Ég er samt líka tilbúin að borga aðeins hærra verð fyrir vörur og þjónustu þegar aðrir þættir spila inn í, til dæmis þjónustulund, þægindi og stefna fyrirtækja.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum? 

Fyrst og fremst með því að gera innkaupalista áður en ég fer í búðina og versla í lágvöruverslunum. Það er magnað hvað endar í körfunni þegar listinn er ekki til staðar. Ég kaupi frosnar vörur sem eru töluvert ódýrari og ég finn ekki mun á flestu, enda ekki Gordon Ramsey. En hef komið auga á mikinn verðmun á tilbúnum vörum og reyni frekar að martreiða frá grunni. Er orðin svakalega góð í að gera pizzu- og pastasósur! En annars er ég búin að finna ágætan takt í að velja ákveðnar matvörur frá hinum og þessum vörumerkjum og hef þá betur tilfinningu fyrir verði og verðbreytingum.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

- Auglýsing -

Já það geri ég – en mætti að sjálfsögðu bæta. Ég fór þó ekki að huga almennilega að því fyrr en við fluttum í okkar eigin húsnæði og síðar þegar ég eignaðist barn. Þá fór ég að skoða síður með notuðum vörum og þar er mjög oft hægt að finna alls kyns hluti sem eru í toppstandi og á lægra verði en nýjar vörur. Mamma er líka með fullan lager af alls kyns dóti heima hjá sér og ef mig vantar eitthvað þá hringi ég í hana fyrst. Yfirleitt á hún það til! Annars er ég að finna mér nýja ástríðu í lífinu og það er að gera upp húsgögn og annað. Ég lakkaði eldhúsinnréttinguna okkar og hef verið að dunda mér með gamlar kommóður og hirslur. Ef ég ætti að gefa eitt ráð varðandi endurnýtingu er að fólk sé duglegra að fá lánað, skiptast á hlutum, spyrjast fyrir um eða bjóða fram það sem ekki er not fyrir lengur.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir? 

Gæði umfram magn. Með matvörur er það þó að spara eins og ég get en leyfi mér líka af og til að kaupa meiri gæði. Ég kaupi miklu minna af fatnaði í dag en ég gerði áður. Núna á ég bara ákveðinn grunnfatnað sem vinn með og klæði upp og niður eftir þörfum. Ég spái mikið í notagildi þegar ég fjárfesti í flík og reyni eftir bestu getu að kaupa endingargóðar vörur. Sömuleiðis huga ég mikið að notagildi þegar ég kaupi gjafir. Ég elska sjálf að fá gjafir sem ég sé mikil not fyrir. Mér finnst alltaf góð hugmynd að gefa upplifun í gjöf – það þarf ekki alltaf að vera hlutur.

- Auglýsing -

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á? 

Ég hugsa að það væri barnavörur. Þetta er mitt fyrsta barn og ég á stundum erfitt með að átta mig á því hvað er nauðsynlegt og hvað ekki. Ég hef stundum keypt föt og vörur sem við höfðum svo lítil sem engin not fyrir. En ég er þó dugleg að gefa það áfram í von um að einhver nýti það betur. Svo má einnig nefna orkudrykki. En eins og staðan er núna er einn slíkur oft það sem bjargar þreyttri konu og ég er ekki alveg tilbúin að gefa það frá mér alveg strax.

Skiptir umhverfisvernd þig máli? 

Já hún gerir það. Ég lifi samt ekki hinum fullkomna lífsstíl hvað varðar það málefni en ég er meðvituð og reyni að gera mitt besta til að skilja eftir eins lítið kolefnisspor og ég get. Við þurfum öll að taka þátt í breyttum lífsháttum sem snúa að velferð náttúrunnar. Það er betra að gera eitthvað en ekkert! Hins vegar vona ég að stjórnvöld og fleiri fyrirtæki fari að grípa til frekari aðgerða í stað þess að ábyrgðin liggi einungis hjá einstaklingum.

Annað sem þú vilt taka fram? 

Ég vona að við sjáum fram á bjartari tíma hvað varðar verðlag og sendi hlýjar kveðjur út í „kosmósinn.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -