Rapparinn Ezekiel Carl ræddi við Lóu Björk Björnsdóttur í Lestinni á Rás 1 um rasisma á Íslandi. Mikið hefur verið rætt um rasisma á Íslandi upp á síðkastið og tók Júlía Margrét Einarsdóttir, vefstjóri RÚV saman viðtalið við Ezekiel.
Eins og flestum er kunnugt baðst Sigurður Ingi Jóhannsson afsökunar á ummælum sínum um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtakanna sem látin voru falla á Búnaðarþingi. Skömmu síðar var grein um varaþingmann Pírata, Lenyu Rún Taha Karim, fjarlægð af vef Kjarnans vegna rasískra ummæla sem hrönnuðust upp í kommentakerfum.
Í síðustu viku bárust fréttir af sextán ára unglingspilti sem hafði tvisvar verið handsamaður af lögreglunni sem þá var að leita að tvítugum strokufanga með svipaðan húðlit og drengurinn.
Forðaðist að fara út
Ezekiel talar um það að á meðan strokufangans var leitað, forðaðist hann að fara út úr húsi. Því hann er af sama kyni og hann og með áþekkt litarhaft.
„Ef maður fór í Bónus var horft extra vel. Ég veit ekki hvort ég flokki það undir rasisma, ég var ekki handtekinn. En ég var alveg að forðast það að fara út þegar þetta var í gangi.“
Hann tók líka eftir því í kommentakerfum um mál strokufangans að fólk lét rasísk ummæli falla og spurði spurninga eins og: er þessi með ríkisborgararétt? jafnvel þó hann sé íslenskur og fæddur hér á landi eins og Ezekiel.
Hann hefur sjálfur lent í slíkum fordómum. „Þessi strákur er ekki útlendingur, hann á íslenska mömmu en það er búist við því að útlendingar séu glæpamenn eða komi til að stunda glæpastarfsemi. Mér finnst sérstaklega að eldra fólk haldi að allir útlendingar séu einhverjir glæpamenn.“
Faðir hans keyrður í gólfið
Ezekiel rifjar upp álíka reynslu en hann segir frá því þegar hann var að horfa á sjónvarpið heima hjá sér í æsku, eftir að faðir hans hafði skammað drengina sína tvo fyrir að fikta við að reykja í herberginu sínu, þegar lögreglan réðst inn vegna meints heimilisofbeldis. Faðir hans var saklaus keyrður í gólfið en svo fannst enginn þolandi enda ekkert ofbeldi í gangi.
„Þeir banka og segjast ætla að brjóta hurðina upp,,“ segir Ezekiel. Faðir hans opnar hurðina en er þá strax keyrður í gólfið og færður í handjárn. Strákarnir fylgdust gáttaðir með.
Lögreglan kemur inn og skoðar sig um en finna enga konu og engin ummerki um heimilisofbeldi. Þá kemur í ljós að nágranni hafði hringt og tilkynnt hávaða, „og segir: það er einhver útlendingur þarna að berja konuna sína. Það er það sem ég er að fjalla um í byrjun lagsins.“
Í seinna versi lagsins fjallar Ezekiel um hvernig hann lögregla hefur stöðvað hann á fullorðinsárum fyrir engar sakir og hann látinn skila þvagprófi, á því sem hann segir engum forsendum. „Pabbi hefur lent í fullt af öðru með lögregluna, verið barinn af löggunni áður,“ segir hann.
„Maður er bara: ég fæddist hérna, ég á íslenska mömmu og íslenska fjölskyldu. Hin fjölskyldan mín er nígerísk en ég er alveg jafníslenskur og allir aðrir sem eru hérna,“ segir hann.
HÉR má lesa og hlusta á viðtalið í heild sinni.