Laugardagur 16. nóvember, 2024
-0.6 C
Reykjavik

Hanna Rún keppti með sprungur í fætinum: „Í raun verra heldur en beinbrot“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún hefur sigrað hverja danskeppnina af annarri í mörg ár og dansar nú í gegnum
lífið með dansfélaga sínum og eiginmanni. Hanna Rún Bazev Óladóttir talar um
æskuna, dansinn, eineltið og kjaftasögurnar sem tengjast oft afbrýðisemi, ástina,
tímabundu lömunina í öðrum fætinum, gigtina og Rússland.

Hún ólst upp í Danmörku til tveggja ára aldurs; landi meistara ljóta andarungans, litlu hafmeyjunnar, prinsessunnar á bauninni og litlu stúlkunnar með eldspýturnar. Og jú, líka landi Hans klaufa. Stúlkan bjó síðar í Kópavogi og enn síðar Garðabæ.

Hver er fyrsta minning þín? „Ætli það sé ekki þegar ég týndist. Ég hef kannski verið þriggja til fjögurra ára. Ég ætlaði að sýna vinkonu minni nýja húsið sem mamma og pabbi voru að byggja í Kópavogi. Nýja húsið var ekkert langt frá þar sem við bjuggum en við fórum aðeins of langt og týndumst. Það var komið myrkur og eftir mikla göngu sá ég hóp af fólki, þar var mamma vinkonu minnar hágrátandi, og einnig lögreglubíll. Ég man vel eftir því. Ég var mikill prakkari og foreldrar mínir töluðu um hvernig ég yrði eiginlega þegar ég yrði unglingur. Svo snerist þetta við og ég varð algjör engill. Ég týndist oft og mikið var leitað að mér. Ég var alltaf að gera eitthvað sem ég mátti ekki.
Maðurinn minn var eins; mamma hans sagði mér það. En sagt er að þegar tveir mínusar mætist komi plús. Börnin okkar eru ótrúlega róleg og góð.“ Svo liðu árin og stúlkan sem týndist átti sína drauma. „Það var bara tvennt: Dansari og gullsmiður. Ég var alveg ákveðin í því að ég ætlaði að verða gullsmiður; ég hef reyndar ekkert lokað á það og held því alveg opnu. Ég ætlaði sem sagt að verða gullsmiður eins og pabbi. Ég ætlaði mér líka að verða best í dansi og verða heimsmeistari; ég get ekki hætt fyrr en ég næ því,“ segir Hanna Rún sem vinnur hálfan daginn hjá Gullsmiðju Óla, fjölskyldufyrirtækinu. Eftir hádegi æfir hún síðan dans með eiginmanninum. Hana dreymir enn um að verða heimsmeistari. Íslandsmeistaratitlarnir eru orðnir um 30 og svo eru það hinir og þessir titlar fyrir utan þá en hún hefur sigrað mörg önnur mót hérlendis og erlendis.

Sprungur

Hanna Rún Bazev Óladóttir var fjögurra ára þegar hún fór í dansskóla. „Mamma og pabbi fóru með mig í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Þegar ég hafði stigið þar inn varð ekki aftur snúið. Ég man vel eftir þessu. Ég byrjaði að dansa við frænda minn og þjálfararnir töluðu fljótlega um við mömmu og pabba að það væri aukataktur í mér þrátt fyrir hvað ég væri lítil; hvað ég væri snögg að ná sporunum og væri taktviss. Ég var mjög ung þegar ég fór að fara í einkatíma. Svo flutti frændi minn út á land og ég varð herralaus en þá var ég svo heppin að það var laus strákur sem var mjög efnilegur. Við vorum pöruð strax saman og kepptum síðan á okkar fyrsta móti árið 1997 þegar ég var að verða sjö ára og urðum Íslandsmeistarar. Og við unnum svo nánast allar keppnir eftir það.“
Dansfélagarnir voru snemma settir upp í næsta flokk þannig að þau æfðu með eldri krökkum. „Þetta voru allt unglingar þannig að maður var alltaf að „keppa“ við þessa eldri krakka á æfingum sem var ótrúlega gott fyrir okkur. Við byrjuðum strax mjög ung að vera í einkatímum hjá erlendum þjálfurum, en á þessum tíma voru okkar aðalþjálfarar frá Þýskalandi. Þeir skiptust nokkrir á að koma, ballroom- og latínþjálfarar. Þegar þeir komu tókum við alltaf 10-12 einkatíma frá föstudegi til sunnudags. Eitt árið þegar við vorum búin að plana afmælisboðið mitt man ég að það stangaðist akkúrat á við þegar einn þjálfarinn kom, þannig að ég varð að fara úr veislunni minni. Krakkarnir horfðu bara á spólu á meðan ég skrapp í einkatímann og svo kom ég aftur í afmælið strax á eftir. Ég skildi þetta mjög vel þótt ég hefði alveg viljað sleppa þessum tíma bara einu sinni en ég vildi líka verða best og vissi að þessir þjálfarar komu til landsins til þess að hjálpa okkur að verða betri.“
Hún mátti ekki fara í skíðaferðalög þar sem hún gæti dottið og meitt sig. „Það þurfti bara að pakka mér í bómull, sérstaklega rétt fyrir keppnir. Ég man að þegar það var mikill snjór mátti ég ekki fara út í frímínútur; kennararnir voru hræddir um að ég gæti runnið eða fengið snjóbolta í andlitið. Þannig að á veturna í mikilli hálku og snjó var ég inni í frímínútum. Það var bara skipun frá þjálfaranum. Ég mátti þá alltaf velja eina stelpu til að vera líka inni með mér; það var voða gaman því þá var ég alltaf svo vinsæl.“

„Ég keppti með sprungurnar í fætinum.“

- Auglýsing -

Hún dansaði og dansaði. Hún dansaði svo mikið að það komu sprungur í bein í öðrum fætinum þegar hún var 15 ára. „Þetta var álag. Ég var búin að dansa svo mikið, ég hljóp líka mikið úti og annar sköflungurinn var morandi í sprungum sem voru komnar einn þriðja inn í beinið. Læknirinn talaði um að þetta væri í raun verra heldur en beinbrot.“ Hönnu Rún var sagt að hún mætti ekki dansa í þrjá mánuði því annars gæti hún kvatt dansinn. Hún sagðist vera á leiðinni á heimsmeistaramót og að hún ætlaði að fara. Og það gerði hún. „Ég keppti með sprungurnar í fætinum og fékk 40 stiga hita og var ælandi, mögulega álag út af öllu saman, en mér gekk samt vel. Ég varð að fara á mótið því annars hefði ég ekki verið sátt. Ég tók svo rúman mánuð í pásu eftir mótið.“

Viðtalið við Hönnu Rún má lesa í heild sinni í vefútgáfu nýjasta tímarits Mannlífar, hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -