Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings í Bestu deild karla var einn þriggja gesta í þættinum Vikunni hjá Gísla. Í þættinum var meðal annars til umræðu mál unglingspilts sem lögregla hafði í tvígang afskipti af í tengslum við leit af strokufanga. Unglingspilturinn var alls ótengdur málinu en átti það sameiginlegt með hinum eftirlýsta að vera dökkur á hörund.
Arnar sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook í kjölfar gagnrýni á ummæli sem hann lét falla í þættinum Vikunni hjá Gísla Marteini síðasta föstudag, eins og kunnugt er. Í yfirlýsingunni vildi hann biðjast afsökunar vegna orða sinna.
„Þó ég sé vel vanur að koma fram í sjónvarpi þá er ég ekki vanur umræðu á opinberum vettvangi um málefni er varðar kynþáttamisrétti og svör mín gætu hafa komið þannig út eins og ég væri ekki alveg í takt við raunveruleikann.
Sérstaklega var ég ósáttur við sjálfan mig vegna einstakra orða sem ég notaði. Mér til varnar, þá er alltaf stressandi að vera í beinni útsendingu, sama hversu vanur þú ert og orð eru sögð sem hljóma illa og endurspegla ekki endilega meininguna,“ segir Arnar en hann hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að hafa notað orðið svertingi.
Engin er ofsóttur eins og hvítur, hægrisinnaður karl
Ekki eru allir sammála að hann hefði þurft að biðjast afsökunar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ekki jafn sannfærður. Hann talar um á síðu sinni að fólk væri orðið ofurviðkvæmt að afsökunaráratta væri orðin hálfleiðinleg og að það mátti segja allt um hvíta hægri sinnaða karla, en að þeim væri engin grið gefin.
„Þessi ofurviðkvæmni og afsökunarárátta er orðin hálfleiðinleg. Fyrir Guði eru allir jafnir, karlar og konur, hvítir og svartir, ríkir og fátækir. Fyrir lögunum eiga líka allir að vera jafnir, þótt ekki sé það ætíð svo í reynd. Og ég segi um hörundslit hið sama og franska skáldið Lamartine: Ég er eins á litinn og allir þeir, sem ofsóttir eru og kúgaðir. Í okkar heimshluta eru raunar engir ofsóttir eins og hvítir, hægri sinnaðir karlar (þótt líklega sé erfitt að halda því fram, að þeir séu kúgaðir líka).
Það má segja allt um hvíta hægri sinnaða karla. Þeim eru engin grið gefin. Þeim er aldrei fyrirgefið. Til dæmis líkti Þorvaldur Gylfason prófessor Sjálfstæðisflokknum við nasistaflokk: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.“ Engin viðbrögð urðu við þessari hatursorðræðu hans. Munnsöfnuður Gunnars Smára Egilssonar, Illuga Jökulssonar og Hallgríms Helgasonar, þegar þeir minnast á hægri menn, er svipaður. En mörk góðs og ills liggja ekki milli stjórnmálaflokka, heldur um hjarta hvers einasta manns.“