Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor á eftirlaunum, minnist Sigurðar Líndal, fyrrum lagaprófessors, sem lést 2. september 92 ára að aldri.
Í færslu á Facebook skrifar Hannes Hólmsteinn, minningarorð um Sigurð Líndal. „Það er mikil eftirsjá í Sigurði Líndal. Hann var einn fróðasti og glöggskyggnasti lögfræðingur landsins,“ skrifar Hannes og segist hafa lært margt af verkum Sigurðar. Segist Hannes styðjast mikið við rannsóknir Sigurðar í bók sem hann vinnur nú að. „Það var gott á milli okkar Sigurðar, þótt auðvitað værum við ekki alltaf sammála,“ skrifaði Hannes að lokum.
Færsluna má lesa í heild hér að neðan:
„Það er mikil eftirsjá í Sigurði Líndal. Hann var einn fróðasti og glöggskyggnasti lögfræðingur landsins. Ég lærði margt af vandaðri ritgerð hans um stjórnmálaheimspeki Snorra Sturlusonar í Úlfljóti 2007 (raunar var hún nánast heil bók) og af ritgerð hans um rætur norræns lýðræðis í Nordic Democracy 1981, sem ég skrifaði nýlega um fróðleiksmola. Hann sá víðar og seildist dýpra en margir aðrir norrænir lögfræðingar. Ég styðst mjög við rannsóknir Sigurðar í bók þeirri, sem ég er að taka saman um frjálslynda íhaldsstefnu á Norðurlöndum. Það var gott á milli okkar Sigurðar, þótt auðvitað værum við ekki alltaf sammála.“