Þriðjudagur 3. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Haraldur Erlendsson geðlæknir – Hugvíkkandi efni gætu orðið algjör bylting í geðlæknisfræði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haraldur Erlendsson geðlæknir segir gríðarlega spennandi þróun í gangi þegar kemur að hugvíkkandi efnum. Haraldur, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar hefur kynnt sér allar helstu rannsóknir á hugvíkkandi efnum og segir margt bendi til þess að þessi efni geti markað byltingu í geðlæknisfræðinni:

„Nú erum við komin á þann stað að bæði MDMA og Psilosiben eru búin í þriðja fasa rannsóknum. Það er stutt í að bæði þessi efni komi á markað sem lögleg aðferð til að eiga við áfallastreitu, kvíða og þunglyndi. Vandamálið eins og staðan er núna að það er mjög dýrt að framkvæma þessar meðferðir ef það er gert samkvæmt bestu stöðlum. Til dæmis MDMA, sem virðist gefa mjög góða raun varðandi áfallastreitu, þá þarf helst að hafa tvo heilbrigðisstarfsmenn sem sitja yfir einstaklingnum í 6-8 klukkutíma. Svo er bæði fyrir- og eftirmeðferð, þannig að ein alvöru meðferð gæti kostað 1-2 milljónir. Og stundum þarf fleiri en eina meðferð. En það er margt hægt að gera til að draga úr kostnaðinum og nú er verið að kanna leiðir til þess. Svo má ekki gleyma því að það sparast gríðarlegur kostnaður ef fólk fær bót sinna meina, auk þess sem það er mannúðlegt og rétt að veita fólki bestu mögulegu aðstoð. Lykilatriðið er meðferðin samhliða efnunum og eftirfylgnin, þannig að fólk nái að komast í gegn og vinna úr áfallinu. Efnin ein og sér virðast ekki gera mikið ef það er engin handleiðsla eða vinna samhliða. Eina löglega hugvíkkandi efnið núna er Ketamín, sem er mjög gott efni, en rannsóknir benda til þess að  það geri lítið sem ekkert gagn ef ekki fer fram sálræn meðferð samhliða. Ein og sér gera efnin sama og ekkert ef fólk gefur sér ekki rými bæði á undan og eftir til þess að vinna sálræna vinnu,“ segir Haraldur, sem segir ákveðna byltingu í gangi núna þegar kemur að hugvíkkandi efnum, eftir áratugi þar sem ekki mátti einu sinni framkvæma rannsóknir:

„Saga hugvíkkandi efna er mjög áhugaverð. „War on Drugs“ sem varð til á Nixon tímanum stöðvaði alla framþróun í rannsóknum á þessum efnum. En það sem er nú að koma betur og betur í ljós er að þessi efni eru neðarlega yfir fíkn og ávanabindingu og eiga ekki heima í sama flokki og fíkniefni. Sum þessarra efna gætu átt eftir að verða eitt stærsta skref geðlækninga frá upphafi. En það þarf að sjálfsögðu að framkvæma þetta í réttum aðstæðum með handleiðslu. Við höfum dæmi um einstaklinga sem hafa glímt við alvarlegt þunglyndi í áraraðir sem fá skammt af þessu undir réttri handleiðslu og nokkurra klukkutíma meðferð og eru orðnir miklu betri strax á eftir og líður enn vel ári seinna. Það er ekkert í mínu fagi sem nálgast verkun af þessu tagi. Það hafa verið gerðar þúsundir rannsókna á psilociben, sem benda til þess að þetta virki vel á fíknir, áföll, kvíða og þunglyndi. Það er ekki búið að gera nógu mikið af stórum rannsóknum til að þetta sé orðið að löglegum lyfjum, en það á eftir að gerast innan einhverra ára og valda byltingu. Það mun verða ummyndun á geðlæknisfræðinni sem fagi. Þetta er náttúrulegt og það hafa allir aðgang að þessu, sem þýðir að lyfjarisarnir geta ekki eignast þetta einir. Þetta er dæmi um það þegar náttúruleg aðferð getur orðið menningarleg lausn og það eru margar aðrar slíkar lausnir í tilverunni sem þarf að rannsaka.“

Haraldur, sem hefur í áratugi starfað sem geðlæknir segir stöðuna í geðheilbrigðiskerfinu aldrei hafa verið eins og nú. Kerfið sé sprungið og að það sé engin leið að ráða við vandamál tengd geðheilsu ef fram heldur sem horfir:

„Þetta er flókið mál og hluti af vandanum er að við erum farin að skilja þessa hluti betur og greina meira en áður. En geðheilbrigðiskerfið er sprungið og við sem samfélag verðum að finna nýjar lausnir ef ekki á illa að fara. Vandinn er orðinn of dýr til þess að það sé hægt að sinna honum eins og best væri á kosið. Hefðbundin geðheilsuþjónusta mun aldrei ráða við að sinna vandamálunum ef þessi þróun heldur áfram. Vinnuframlag í þjóðfélaginu er að meðaltali skert um nærri 30 prósent vegna geðrænna vandamála og bið eftir geðlækni er talin í mörgum árum ef þú ert ekki með bráðavanda. Það bendir fátt til annars en að vandamálin séu bara að aukast, þannig að það er frekar augljóst að við verðum sem samfélag að finna nýjar leiðir til að takast á við þennan nútíma faraldur. Það er augljóslega eitthvað að í því hvernig við lifum lífi okkar miðað við það hve hratt geðrænni heilsu okkar sem þjóðar er að hraka,“ segir Haraldur, sem telur að mikið upplýsingaflóð og áreiti almennt vera hluta af vandanum:

„Ein stærsta ógnin við heilsu okkar í nútímanum er of mikið áreiti á heilann. Hvort sem það eru samfélagsmiðlar, sjónvarp, útvarp eða annað. Skynfærin og heilinn eru stöðugt að taka við upplýsingum án þess að geta unnið almennilega úr þeim. Við þurfum öll mjög reglulega ró og næði og að vera í stað og stund án þess að vera stanslaust að taka á móti upplýsingum. Svefninn er að verða eini staðurinn þar sem heilinn fær tækifæri á einhvers konar úrvinnslu. En nú er staðan orðin þannig að margir ná ekki einu sinni að sofa almennilega, meðal annars vegna þess hve áreitið yfir daginn er mikið. Annað sem er að gerast er að það er ákveðinn einmannaleika-faraldur í gangi, þar sem mikið af fólki hefur einangrað sig, en við þurfum öll samskipti og samveru með fólki til þess að funkera almennilega. Oft verður þetta vítahringur, því að þeir sem þjást af kvíða, þunglyndi eða kulnun hafa tilhneigingu til að einangra sig, en það sem þetta fólk þyrfti mest á að halda til að ná bata væru mikil samskipti og tengsl við annað fólk.“

- Auglýsing -

Haraldur segir augljóst að þörfin eftir aðstoð vegna geðrænna vandamála hafi aukist mjög mikið eftir Covid-faraldurinn. Þeir sem hafi verið í vanda fyrir hafi margir hverjir lent í miklu meiri vanda eftir að faraldurinn skall á:

„Það er að verða til stór hópur af fullorðnu fólki í samfélaginu sem er orðið nær ósjálfbjarga og kann ekki að takast á við lífið. Þetta fólk lifir nánast eins og börn þó að það sé komið vel á þrítugsaldur og skortir bæði þrautseigju og tilgang. Ef fólk er aldrei sett í erfiðar aðstæður getur það endað mjög illa. Við þurfum öll á því að halda að takast á við verkefni sem okkur finnast fyrst um megn til þess að styrkjast og þroskast. Við erum ekki hönnuð fyrir að festast í þægindaramma þar sem reynir aldrei á okkur. Í gegnum tíðina hefur menningin sveiflast á milli mildi og hörku og það er auðvitað hægt að fara of langt í báðar áttir. Harkan sem var oft og tíðum í gangi hérna á árum áður er illmennska ef hún gengur of langt, en að sama skapi er of mikil góðmennska bara meðvirkni sem hjálpar engum,” segir Haraldur, sem segist þeirrar skoðunar að faraldurinn hafi einnig sýnt okkur hætturnar sem geta skapast þegar til verður of mikil múgsefjun:

„Það er aldrei gott þegar það myndast þannig ástand að það sé bara ein skoðun leyfð og réttindi tekin af fólki og engin opinská umræða tekin. Það er lífsnauðsynlegt í lýðræðislegu samfélagi að uppi séu andstæðar skoðanir og að tekist sé á um þær. Á sínum tíma var búin til þrískipting valdsins og svo hafa fjölmiðlar tekið að sér hlutverk fjórða valdsins. En fjölmiðlarnir hafa í raun ekki staðið undir því hlutverki. Við þurfum að eiga alvöru umræðu um hvernig við getum búið til alvöru fjórða vald sem veitir ríkjandi valdhöfum aðhald.“

- Auglýsing -

Hægt er að nálgast viðtalið við Harald og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -