Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Haraldur Ingi: „Kalt – Mannlega er það ekki kalt – en það er rosalega kalt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Haraldur, eiginkona hans og börnin tvö höfðu verið búsett í Bandaríkjunum í rúm sex ár en ákváðu að kíkja heim síðasta sumar. Sú heimsókn varð lengri en áætlað var. Þau fóru í huggulegan göngutúr eitt kvöldið og fjögurra ára sonur Haralds varð þyrstur. Þau ákváðu að koma við í verslun til að finna eitthvað að drekka.
„Þegar við komum að búðinni sá ég strax að það var trappa og að hún væri of há fyrir mig að komast inn. Svo ég sat fyrir utan í svona fimm mínútur á meðan fjölskyldan fór inn. Þá hugsaði ég svolítið lengi um þetta og um þessa tröppu sem var orðin táknræn fyrir mig því þetta er sama trappan og er búin að gera það að verkum að ég get ekki hitt vini mína á kaffihúsum, get ekki farið niður Laugaveginn að versla á Þorláksmessu með fjölskyldunni,“ segir Haraldur.
„Ég hugsaði hvað þetta væri mikið svona lítið vandamál að leysa því þetta er bara ein trappa oft. Þá eiginlega ákváðum við að byrja.“

Það sem meira skiptir máli er að vinna með okkur

Haraldur Ingi Þorleifsson er upphafsmaður átaksins Römpum upp Reykjavík sem vakið hefur mikla lukku og athygli. Markmiðið var að koma upp hundrað römpum víðs vegar um miðborgina en þeir eru þegar orðnir enn fleiri. Hann ræddi átakið og uppruna þess í Mannlega þættinum á Rás 1.

Haraldur ræddi málið við föður sinn sem hann hafði nýráðið í vinnu og sagði honum að nú stæði til að byggja hundrað rampa á einu ári. Feðgarnir ræddu við Dag B. Eggertsson borgarstjóra og svo byrjuðu þeir að safna peningum fyrir átakið. Borgarstjóri tók vel í hugmyndina og stofnaður var aðgengissjóður Reykjavíkur.

„Við fengum borgina með og það er tvennt sem hún kom með. Í fyrsta lagi peningar, en það sem meira skiptir máli er að vinna með okkur. Við vorum með verkefnastjóra inni á umhverfis- og skipulagssviði sem við unnum mikið með og þá var hægt að gera þetta hraðar,“ segir Haraldur.

„Svo fengum við styrki frá mjög öflugum og stöndugum fyrirtækjum sem komu að þessu með okkur.“

Féð kom þó líka að miklu leyti frá Haraldi sjálfum og svo tóku ýmsir styrktaraðilar þátt í verkefninu. Það fór hægt af stað en um leið og boltinn fór að rúlla rúllaði hann hratt og örugglega. „Við byrjuðum að framkvæma og þá tók þetta bara fjóra mánuði. Það var aðallega undirbúningsvinnan sem var þrír mánuðir eða eitthvað svoleiðis en þegar þetta kom í gang þá rúllaði það. Við vorum að taka einhverja tvo rampa á dag,“ segir Haraldur.

Fallegt eða nytsamlegt

Inni á heimasíðu verkefnisins rampur.is er hægt að sjá „fyrir og eftir“ myndir af þeim stöðum sem ramparnir hafa verið settir. Þeir eru ansi ólíkir en oftast fer lítið fyrir þeim.

„Þegar það er hægt gerðum við rampana eins ósýnilega og hægt er. Við vildum sýna fram á að þetta væri ekki eitthvað sem þyrfti annaðhvort að vera fallegt eða nytsamlegt því það er alveg hægt að gera bæði. Að þeir falli vel að byggingunum og þetta sé þannig að þú átt að upplifa þetta eins og það hafi alltaf verið þarna,“ segir Haraldur.

- Auglýsing -

Aðspurður að lokum hvernig það sé að flytja af vesturströnd Bandaríkjanna hingað á norðurhvel jarðar svarar hann: „Kalt. Mannlega er það ekki kalt, en það er rosalega kalt.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -