Haraldur Freyr Gíslason, formaður félagsleikskólakennara, er allt annað en sáttur með ákvörðun foreldrahóps að stefna Kennarasambandi Íslands en hópurinn telur að KÍ hafi mismunað börnum í þeim ótímabundnu verkfallsaðgerðum sem farið var í árið 2024 í nokkrum leikskólum. „Þetta er afar sérstök vegferð sem þessi þó litli hópur foreldra í þessum fjórum leikskólum er á. Þetta er auðvitað ekkert annað en aðför að kennurum barna þeirra því KÍ er auðvitað ekkert nema félagsfólkið sjálft og KÍ gerir ekkert í óþökk félagsfólks,“ sagði Haraldur Freyr Gíslason, formaður félags leikskólakennara, við mbl.is um stefnuna. „Hér er verið að gera tilraun til að svipta kennurum þeim lagalega neyðarrétti að geta barist fyrir bættum kjörum og þá framtíðar afkomu sinnar og sinna sem og fyrir leikskólakerfinu öllu sem líður alla daga út um allt land vegna langvarandi skorts á fagfólki.“ Haraldur sagði einnig að hann viti ekki hvernig þeir foreldrar sem standa á bakvið stefnuna geti horft í augun á kennurum barna sinna og að vonbrigðin sem kennarar upplifa í garð hópsins verði ekki lýst með orðum en hópurinn samanstendur af foreldrum sem eiga börn á leikskólunum Drafnarsteini í Reykjavík, Holti í Reykjanesbæ, Ársölum á Sauðárkróki og leikskóla Seltjarnarness. Samkvæmt mbl.is mun málið fá flýtimeðferð fyrir dómstólum en aðalmeðferð fer fram í næstu viku.